Hættulegt efnablanda

Þegar farið var að blanda rotvarnarefnin formalín saman við farmana, þá kom upp ófyrirséð vandamál. Formalíni var blandað saman við síldina úti á sjó, og gegndi því hlutverki að koma í veg fyrir að síldin þránaði, og ekki hvað síst til að auðvelda vinnslu síldarinnar í verksmiðjunum.

Fyrsta óhappið við löndun, sennilega það eina að ég best veit, átti sér stað á Seyðisfirði.
Við komum að morgni til Seyðisfjarðar með fullfermi síldar.
Ég hafði hlakkað til komunnar þangað, þar sem ég hafði fengið frí og ætlaði heim daginn eftir komuna þangað.

Ég og nokkrir skipsfélagar höfðum ákveðið að fara í bíó um kvöldið á Seyðisfirði. Ég klæddi mig upp, í flottan mokkasíujakka og sparibuxur, og á fótum var ég í alveg nýjum uppháum (rándýrum)leðurklossum sem ég hafði keypt um vorið úti í Englandi.

Ég var aðeins seinn, þannig að félagar mínir voru komnir upp á bryggjuna. Ég var að stíga upp á landganginn, þegar neyðaróp bárust frá dekkinu. Ekki heyrði ég orðaskil, en sá á viðbrögðum þriggja löndunarkarlanna, að eitthvað væri að niðri í tanka sem verið var að lempa.

Loksins gat ég skilið í orðaflauminum, að einn félagi þeirra væri meðvitundarlaus niðri í tanknum. Ég brást fljótur við, hljóp inn í gang þar sem aðgengileg voru súrefnistæki. Henti frá mér jakkanum góða á snaga og setti á bak mér súrefnis flöskur, tók með mér kaðalhönk og rauk út. Ég sagði löndunarkörlunum þrem að kalla á meiri hjálp, og fór svo niður í tanka með súrefnisgrímuna fyrir andlitinu. Allt voru þetta ósjálfráð viðbrögð.

Þegar niður var komið, sá ég að sá meðvitundarlausi lá á bakinu. Bússur hans sáust ekki neðan við hné, en hann flaut að öðru leiti ofan á síldinni, sem þarna færðist smátt og smátt að tórnum sem enn var í gangi. Enginn hafði rænu á að stoppa hann. Þrátt fyrir köll frá mér sem drukknuðu í hávaðanum frá tórnum.

Ég sá að ástandið var blá alvarlegt, en náði að klofast að manninum, batt kaðalspottann sem ég hafði komið með um brjóst hans.
Einn löndunarkarlinn var kominn aðeins niður í stigann og samstundis byrjuðu þeir að toga.
Ég stýrði, raunar og hálf hélt á meðvitundarlausum manninum þar til komið var að því að hífa hann upp síðasta spölinn. Ég átti fullt í fangi með að varna því að maðurinn festist ekki í stiganum í uppdrættinum, en hann sat nánast á öxlum mér.

En þar fyrir utan var mér farið að sortna fyrir augum og var kominn með svima. Ekki áttaði ég á því hvers vegna. En síðan kom í ljós að ég í öllu fátinu, hafði ekki skrúfað nægilega mikið frá súrefnisflæðinu. Ég rétt komst upp úr tanknum á eftir þeim meðvitundarlausa, þá leið yfir mig og ég féll i dekkið.

Það næsta sem ég mundi, var að ég var á ferð í sjúkrabíl, og einhver maður hélt súrefnisgrímu við andlit mitt. Á sama tíma heyrði ég hann segja. „Hann er kominn til meðvitundar“ 
Við voru þrír sem lágum á sjúkrahúsi Seyðisfjarðar þessa nótt. Sá sem hafði misst meðvitund niðri í tanknum, rankaði við sér fljótlega eftir að hann var kominn á sjúkrahúsið, og náði sér sem betur fer, að fullu.
Hinn löndunarmaðurinn, var sá sem fór upp til að láta vita um yfirlið félaga síns. Hann var á sjúkrahúsinu til öryggis, svo og ég.

Um morguninn, komu félagar mínir með hrein föt og skó handa mér. Þeir sögðu að stýrimaðurinn hefði fleygt öllum fötunum mínum, einnig jakkanum mínum, sem hafði dottið í gólfið og einverjir troðið hann undir á slorugum skónum, svo og klossunum mínum. Talið var fullvíst að ekki væri ráðlegt að reyna að þvo neitt af þessu.

Læknirinn vildi að ég ásamt þessum sem lengst hafði verið niðri, værum aðra nótt á sjúkrahúsinu. Ég þurfti að ná rútu um hádegið og síðan flugi á Eiginstaðarflugvelli svo ég afþakkaði það, enda leið mér ágætlega og kenndi mér einskis mein, þá né síðar varðandi þetta óhapp.

Ástæða fyrir yfirliði okkar var sú að við ákveðin skilyrði, myndast einskonar kolsýra í tönkunum af völdum formalínsins. Kolsýra sem yfirtekur súrefnið neðst í viðkomandi tanka. Svona var og er þekkt fyrirbæri, en við vorum ekki undir þetta búnir.

En betur fór, en hefði getað orðið. Sérstaklega í tengslum við alvarlegt atvik sem fyrir kom í loðnuþró á Siglufirði nokkrum árum síðar. Þar missti maður meðvitund vegna súrefnisskorts. Sá maður beið þess aldrei bætur, hann missti bæði mál og stjórn á hreyfingum.  

Ég held ég láti staðar numið varðandi minningar frá tímabili Hafarnarins, þó af nógu væri að taka. Til þess þyrfti annað eins pláss og nú þegar er komið á þessar síður. Sennilega hefur eitthvað gleymst sem ástæða hefði verið að minnast á, en það verður að hafa það.

Svo eru þúsundir ljósmynda minna varðveittar hjá Ljósmyndasafni Siglufjarðar. Svo auðvitað afrit á hörðum diskum hjá mér.