Ingólfur Arnarson Stangeland rafvirki
Ingólfur Arnarson fæddist á Búðum í Búðahreppi í S-Múlasýslu 18. maí 1922. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 3. nóvember 2003.
Foreldrar hans voru Hans P. Stangeland, forstjóri í Noregi, f. í Karmö í Noregi, d. 6. maí 1952 og Sólveig Þorleifsdóttir, húsfreyja í Hafnarnesi og á Siglufirði, f. á Eyri í Reyðarfirði 23. desember 1880, d. 19. júní 1967.
Systkini Ingólfs eru
- Þorleifur,
- Magnús,
- Helga,
- Sigurlaug,
- Jón,
- Pétur
- Sigríður.
Auk þess átti hann hálfsystkini í Noregi.
Ingólfur bjó á Fáskrúðsfirði fram til 12 ára aldurs, fluttist þá til Siglufjarðar ásamt móður sinni og þremur bræðrum. Settist í gagnfræðaskólann á Siglufirði þar sem hann kynntist tilvonandi konu sinni Pálína Kröyer Guðmundsdóttir, f. 16. september 1923. Byrjuðu þau búskap 1942 í Höfn á Siglufirði og giftu sig árið 1945.
Þeim varð sjö barna auðið, þau eru
- 1) Guðfinna Ingólfsdóttir, f. 1944,
- 2) Helga Ingólfsdóttir f. 1946,
- 3) Guðmundur Ingólfsson f. 1949,
- 4) Anna Ingólfsdóttir, f. 1952,
- 5) Arnar Ingólfsson, f. 1953,
- 6) Páll Ingólfsson, f. 1954, d. 1962, og
- 7) Sólveig Ingólfsdóttir, f. 1961.
Nú eru afkomendur þeirra orðnir 31. (2003)
Ingólfur nam rafvirkjun við Iðnskólann á Siglufirði og tók sveinspróf 1947. Háspennunámskeiði lauk hann 1948. Var rafveitustjóri á Ólafsfirði og rak um tíma rafmagnsverkstæði Ólafsfjarðar. Starfaði við Skeiðsfossvirkjun og síðar eftirlitsmaður Rafveitu Siglufjarðar.
Stofnaði og rak rafverktakafyrirtæki og verslun á Siglufirði ásamt konu sinni og tveimur sonum. Verkstæðisformaður SR á Siglufirði til loka starfsferils síns. Var formaður Iðnaðarmannafélags Ólafsfjarðar 1949-1950.
Um árabil var hann virkur í Lionsklúbbi Siglufjarðar og formaður eitt ár.Var drifkraftur að stofnun bókasafns í Fljótunum og kom upp aðstöðu til kvikmyndasýninga við Skeiðsfoss.