Hvalvíkin, flutningaskip

Ég hafði í nokkra mánuði ekið minni eigin vörubifreið hjá Vörubílastöð Siglufjarðar, er vinur minn Guðmundur Arason fyrrverandi stýrimaður og skipstjóri á Haferninum hringdi í mig. 

Þetta var fyrrihluta ársins 1979

Erindið var að biðja mig að koma um borð í Hvalvíkina sem timburmaður, en Guðmundur var skipstjóri á því skipi. Hann sagði að þar þyrfti mikið að gera um borð vegna viðhalds, bæði hvað varðar trésmíði og járnsmíði, það er logskurð og rafsuðu. Vinna þyrfti margt sem yrði að laga, en tæki of langan tíma að vinna, ef gert yrði af verktökum í landi.

Eftir að hafa ráðfært mig við konu mína, þá tók ég tilboði Guðmundar, en skip hans var á leið til Íslands, á leiðinni til Þorlákshafnar.

Þangað kom ég um borð rétt um miðnættið, og lét skipið úr höfn þaðan daginn eftir. Skipið var með salt sem það losaði á nokkrum stöðum, meðal annars á Siglufirði, þar sem við lestuðum síldarmjöl.

þar tók ég ýmislegt dót um borð, ma. verkfærakistuna mína og ísskápinn minn. En hvorutveggja hafði ég einnig verið með um borð í Haferninum þar sem ég hafði einnig verið timburmaður forðum, á árunum 1966-1970. Allir um borð, aðrir en Guðmundur skipstjóri voru mér ókunnir, svo tíma tók svona eins og gengur að kynnast mannskapnum.

Um borð var talsvert öðruvísi "andrúmsloft"  eða félagsandi en sá sem ég hafði kynnst um borð í Haferninum.  Strákarnir áttuðu sig fljótlega á því að við Guðmundur voru perluvinir, þó svo þeir vissu ekki að við hefðum verið skipsfélagar til nokkurra ára.

Síðar var mér sagt nokkrum árum síðar af einum fyrrverandi skipverja að á milli skipverja hefð gengið þær getgátur að ég væri einhver skrifstofublók, eða fyrrverandi forstjóri fyrirtækis sem hefði farið á hausinn og að Guðmundur hefði séð aumur á mér og ráðið mig um borð. Ég og fyrrverandi skipsfélagi minn ræddum lengi um þessa mánuði okkar saman á Hvalvíkinni, yfir kaffibolla  árið 2004 minnir mig, er hann kom til Siglufjarðar, þá skipverji á öðru skipi.

Loftskeytamaðurinn,  hefði átt óbeinan þátt í því að sú saga komst á kreik að ég væri „skrifstofublók,“ þar sem í passa mínum var ég skráður sem framkvæmdastjóri, en það hafði verið sett í passa minn þegar ég fór til Bandaríkjanna árið 1977 á vegum LINK-BELT forðum, skráð þannig að mér forspurðum. 

Ég hafði beðið um að vera skráður sem kranastjóri, sem ég vildi þá kenna mig við. Eitt af störfum loftskeytamanns var að skrá skipverja samkvæmt þeim upplýsingum sem í vegabréfum. Hann sagði einhverjum félaga sinna frá því sem stóð í passa mínum. 

Og þannig var litið á mig fyrstu 2-3 mánuðina. Þeir sáu þó að ég kunni bæði að beita hamar og sög, auk logskurðar og rafsuðutækjanna, þeir giskuðu á, að sennilega hefði ég einhvern tíma unnið við slíkt, en spurðu mig einskis.

Annars var ég nokkuð fljótur að kynnast manskapnum. Mig minnir að undantekningarlítið hafi þeir reynst vera ágætis félagar. 

Þó komu frá einhverjum þeirra grunsamleg spurning varðandi það að ég var með fullar hendur fjár í gjaldeyri, sem ég var óspar á þegar til erlendra hafna kom, bæði varðandi innkaup og skyndiferðir. 

Ég svaraði því aðspurður, eitthvað á þá leið að ég hefði selt tvö fyrirtæki sem ég hefði átt hluti í og hefði hagnast á þeim sölum, eins og staðreyndir sönnuðu. 

Ég gerði mér ekki grein fyrir því þá, að með þeim svörum bætti ég á hin meintu sögusagögn um uppgjafa forstjórann sem skipstjórinn væri að redda. Enda fór "svar mitt" eins og eldur um skipið, og ég fékk á tilfinninguna að litið væri niður á mig í bland, snerting af öfund. 

Svo ekki hvað síst, það að skipstjórinn hafði gefið mér frjálsar hendur um vinnutímann úti á dekki við rafsuðuna þegar veður leyfði, en ýmislegt 

varðandi ástandiðið þar, sem var vægt til orða tekið ekki gott og margt sem þurfti að lagfæra. Lúgufestingar og fleira virkuðu ekki eins og skildi, en var þó auðvelt að laga en tók tíma. 

Yfirvinna mín á dekki varð því meiri en hásetanna og má ætla að einhverjum hafi þótt það miður. En venja er á fraktskipum að skipta eins og hægt er yfirvinnu á meðal hásetanna til að jafna tekjur þeirra. Bátsmaður og timburmaður teljast að mestu með í slíkum skiptum. 

Ofanritaðar upplýsingar um "baktalið" og fleira fékk ég nokkrum árum síðar, frá einum fyrrverandi skipverja eins og fram hefur komið.  En lífið um borð, að öðru leiti gekk sinn eðlilega gang, fátt sem kom mér á ávart.