Teknir til fanga.

Eftirfarandi frásögn er frá sögulegum göngutúr sem  við Guðmundur Arason skipstjóri á Hvalvíkinni fórum í. 

Frásögnina hafði ég talað inn á segulband eftir að við komuna um borð aftur.
Síðan sendi ég spóluna heim sem tal "bréf"  til konu minnar. 

Þrátt fyrir mikla leit hefi ég ekki fundið spóluna og skrifa því eftirfarandi eftir minni. 

Seinnihluta verunnar í Split, á sunnudegi fórum við Guðmundur í nokkuð langan og ævintýraríkan göngutúr. Við ætluðum upp á fagrann stað sem nefnist Maríuhæðir. En þegar að göngubraut upp hæðina var komið, fórum þegar leiðin var um það bil hálfnuð, út af göngustígnum, en vissum ekki á þeirri stundu að þar var tímabundið bannsvæði, enda viðkomandi skilti sem var neðst við göngubrautina og á tungumáli sem við ekki skildum.

Þar mættum við ókunnum manni á leið niður. Við héldum áfram upp á hæðina utan vegar.  Þar var að vísu stór hluti leiðarinnar torfarinn, bæði um þéttan skóg og upp bratta kletta. Við létum það þó ekki aftra okkur og vorum þarna í sæluvímu yfir fallegu útsýni þar á milli.

Eins og kemur fram á myndunum sem sjást á tenglinum NNNN, þá var stefnan sett á hæð sem gnæfði yfir borgina og nágrenni. þessi hæð eða svæði hét Marjanski, við brautina var skilti sem á var letrað Marjanski put. 

Sem þýða mætti á  íslensku "Leiðin til Maríuhæða" (var okkur sagt) Þangað var almenningi aðeins leyft að fara gangandi eins og fyrr segir. 

Þarna var mikil umferð gangandi fólks í veðurblíðunni, en uppi á hæðinni var gott útsýni til flestra átta. Sá hluti hæðarinnar var í um 200 metra hæð.  Ég held það hafi verið af mínum hvötum sem við fórum út af hinum breiða göngustíg, þegar við vorum um það bil hálfnaðir upp á sjálfa hæðina.  Mig langaði til að komast á betra svæði til myndatöku yfir byggðina og sjóinn, en trjágróðurinn víðast við gangstíginn, skyggði á útsýnið þarna.

Ég tók slatta af myndum þarna. Þar hittum við einn mann á leið niður, en við héldum áfram upp í gegn um skóg og runna. Við komum að nokkuð bröttum hamri sem okkur sýndist vel fær til klifurs, þó við værum í raun viðvaningar i klettaklifri, en Það gekk þó vel. 

Þegar upp var komið tók við þéttur skógur, sem erfitt var að fikra sig áfram eftir, en af heppni einni fundum við þröngan stíg og sáum á sólstöðu, að lá þangað sem við ætluðum í upphafi að fara. Við vorum í góðu skapi og lékum á alls oddi í fjörugu samræðum.

En sú gleði hvarf allt í einu eins og hendi væri veifað. Við komum inn í lítið rjóður. Þar var ekki hendi veifað, heldur vélbyssukjöftum. Allt í kring um okkur bæði bak og fyrir. Eitthvað var öskrað hástöfum og við ósjálfrátt upp með hendur.
þarna voru einir sex eða sjö hermenn alvopnaðir í fullum skrúða. Guðmundur, sem hafði verið á undan mér, svaraði hrópunum á enska tungu sem greinilegt var að hermennirnir skildu ekki. 

Einn þeirra hélt áfram að öskra á okkur. 

Ég gat varla á mér setið af vandræðaganginum sem var kominn á hópinn og okkur og fór að hlægja eins og asni. Guðmundur þaggaði niður í mér og sagði að þetta ástand væri ekkert grín.

þessi sem hæst hafði öskrað tók upp talstöð og kallaði eitthvað. Guðmundi hafði með rósemi sinni og handapati komið smá ró á hópinn og við settum hendurnar niður, án þess að hreift yrði mótmælum við því. En okkur var gert skiljanlegt að við ættum að bíða og vera kyrrir. 

Eftir nokkrar mínútur komu þrír hermenn hlaupandi úr þeirri átt sem við höfðum stefnt. Einn þeirra var greinilega yfir og hann snéri sér að okkur og spurði mjög höstuglega á ensku. Hvað við værum að gera á þessu svæði, við værum á bannsvæði. Guðmundur svaraði, og sagði eins og var að við hefðum farið út af göngustígnum á leið okkar upp á hæðina. 

Eitthvað hefur þessi maður séð í fari okkar sem varð til að hann róaðist. Hann spurði svo hvaðan og hverjir við værum. þegar Guðmundur sagði honum það og nefndi að við værum Íslendingar á íslensku skipi sem væri að losa síldarmjöl í Splitt. Þá gjörbreyttist  svipur hans. hann benti hermönnunum að beina byssunum niður og þeir hurfu inn úi skóginn, nema þessir tveir sem með honum höfðu komið.

Hann endurtók að við værum á bannsvæði, það hefðu verið skilti víða við áðurnefnda gangbraut, þar sem tilgreint væri að enginn mætti yfirgefa brautina á leið upp á hæðina. En svo vildi til að sjálfur einræðisherrann í Yugóslavíu Josip Broz Tito væri í helgarfríi í sumarbústað sínum við ströndina sunnan við bannsvæðið. 

Hann sagði okkur að fylgja sér og við heldum áfram í átt til Maríuhæðar. Annar hermaðurinn gekk á undan á þröngum stígnum, Guðmundur á eftir honum, þá liðsforinginn, þá ég og síðan hinn hermaðurinn á eftir mér.  

Ég ætlaði að taka ljósmynd, en þá var filman komin á enda. Ég skipti um filmu með hraði, svo lítið bar á meðan á göngunni stóð. Þegar ég ætlaði að munda myndavélinni stöðvaði liðsforinginn gönguna og sagði okkur að halda beint áfram, en þeir yfirgáfu okkur við stíg sem var til annarrar áttar. 

Við höfðum vart gengið nema um 50 metra, er aftur komu að okkur vopnaðir hermenn, þó ekki eins æstir og hinir fyrrnefndu. Vélbyssurnar á lofti og upp var tekin talstöðin. Eftir um 2-3 mínútur kom liðþjálfinn fyrrverandi aftur hlaupandi út úr skóginum. Hann var einsamall. Hann talaði smá stund við hermennina, sem yfirgáfu síðan svæðið. Hann snéri sér svo að okkur og sagði að best væri að hann fylgdi okkur alla leið.  

Fljótlega komum við á stórt útivistarsvæði, þaðan sem gott útsýn var í þrjár áttir. Miðsvæðis var smá afdrep þar sem fólk hafði sest niður til afslöppunar.  Við stefndum þangað og við settumst á einn af bekkjunum.
Liðsforinginn og Guðmundur voru farnir að ræða saman af kappi, meðal annars um svæðið þarna uppi á Maríuhæðum. Þá upplýsti liðsforinginn að hann hefði fyrir nokkrum árum verið skiptinemi við Háskóla Íslands, þess vegna hefði hann verið svona fljótur að skipa hermönnunum burt, þar sem hann þekkti ekki íslendinga af neinum njósnum og hann hefði trúað okkur strax, er við hefðum sagt hverjir við værum.  

Við vorum farnir að búa okkur til að kveðjast, þegar allt í einu nálguðust okkur tveir opnir rússajeppar á fullri ferð. Í þeim fremri voru þrír menn, einn þeirra borðalagður mjög. En hinn jeppinn var þéttsetinn vopnuðum hermönnum. Andskotinn tautaði liðsforinginn á ensku, en stóð svo upp og heilsaði þeim borðalagða herforingja að hermannasið.

Hermennirnir í aftari jeppanum stukku út og beindu vélbyssunum í átt til okkar "hershöfðinginn" öskraði að liðsforingjanum og lét að því er virtist skömmum rigna yfir hann, sem svaraði undirgefinn eins og vænta mátti.
"Hershöfðinginn" benti á milli orðahrinanna á okkur, oftar en ekki á mig.  Liðsforinginn snéri sér svo að mér og sagði að yfirmaður sinn vildi fá myndavélina mína. Ég svaraði honum á þá leið að hana fengi hann ekki. Hann snéri sér aftur að yfirmanni sínum og hefur væntanlega komið svari mínu á framfæri.

Við það öskraði sá háttsetti eitthvað. Liðsforinginn fór greinilega að miðla málum, snéri sér svo aftur að mér og sagði að yfirmaður sinn hefði fallist á að ég léti hann fá filmuna úr vélinni.

Ég hefi greinilega sett upp einhvern mótþróasvip, en áður en ég gat sagt eitthvað. Sagði liðsforinginn hljóðlega á ensku. 

Að það væri ekki mikið tap fyrir mig, nema þá filman. En hann hefði heyrt þegar ég hefði verið fyrir aftan hann í skóginum, er ég hafði skipti um filmu, ég væri því varla búinn að taka nema nokkrar myndir ef einhverjar. Hann glotti.  

Ég opnaði vélina af öllum sjáandi og dró filmuna út úr kassettunni. Herforinginn öskraði eitthvað í mótmælaróm, en of seint.
Filman varð ónýt við það að ljós kom á hana,  hann gat því ekki fengið að sjá þær myndir sem ég hefði tekið.

Eitthvað fór þeim foringjunum á milli. En samhljóma síðustu orðum þess borðalagða, benti hann í átt til hinnar almennu gangbrautar. Hann steig síðan upp í jeppann og hersingin fór burt.

Liðsforinginn snéri sér svo aftur að okkur og sagði að við ættum að fara strax burtu af svæðinu, niður af Maríuhæðum. Við ættum samkvæmt fyrirmælum að fara niður aðalstiginn. En sagði að við skyldum fara aðra leið, sem hann benti okkur á. Sú leið væri aðeins brattari og þrengri en það væri nokkuð góð trygging fyrir því að við kæmumst alla leið óáreittir. 

Því herforinginn hefði nýlega verið hækkaður í tign, en væri hálfgerður þverhaus, honum gæti snúist hugur og látið sækja okkur aftur. Þið nefnið þetta ekki ef svo ólíklega færi að foringinn mundi sækja ykkur um borð. Sagði hann brosandi.

Við kvöddum liðsforingjann með handabandi og fórum að ráði hans.