Jóhann G. Möller, fyrrverandi bæjarfulltrúi á Siglufirði

Jóhann G. Möller,

Jóhann G. Möller, lést á Sjúkrahúsi Reykjavíkur hinn 25. júní 1997 á áttugasta aldursári.

Jóhann fæddist á Siglufirði 27. maí 1918, sonur hjónanna Christian L. Möller og Jóna S. Rögnvaldsdóttir. 

Að loknu gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1934 starfaði hann sem verkamaður og síðar verkstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins.

Hann sat í stjórn SR 1959-71 og einnig í stjórn Lagmetisiðjunnar Siglósíldar um skeið.

Hann var bæjarfulltrúi á Siglufirði fyrir Alþýðuflokkinn 1958- 1982, í bæjarráði 1962-74 og 1978-82 og forseti bæjarstjórnar Siglufjarðar 1978-82. Hann sat í fjölmörgum nefndum á vegum bæjarins og átti sæti í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Siglufjarðarkaupstaðar um átta ára skeið.

Jóhann sat í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1978-1982 og var fulltrúi á fjórðungsþingum Norðlendinga í mörg ár. 

Jóhann var í stjórn Verkamannafélagsins Þróttar 1957-63, ritari Verkalýðsfélagsins Vöku frá 1976 til 1994 og í trúnaðarmannaráði þess til æviloka.

Hann sat mörg þing ASÍ, Verkamannasambands Íslands og Alþýðusambands Norðurlands.

Þá var hann og formaður Byggingarfélags verkamanna á Siglufirði 1958-1974. Jóhann var gerður að heiðursfélaga verkalýðsfélagsins Vöku 1993. Hann var einnig umboðsmaður Alþýðublaðsins á Siglufirði samfleytt í yfir hálfa öld.

Jóhann var meðal stofnenda Knattspyrnufélags Siglufjarðar, formaður þess um árabil og auk þess í stjórn Skíðafélags Siglufjarðar. Hann var gerður að heiðursfélaga KS 1992 og að heiðursfélaga Bridgefélags Siglufjarðar 1991. Árið 1983 var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að verkalýðs-, félags- og sveitarstjórnarmálum.

Eftirlifandi eiginkona Jóhanns er Helena Sigtryggsdóttir frá Hrísey. Þau eignuðust sex börn en elsta dóttir þeirra, Helga K. Möller, lést árið 1992.

----------------------------------------- 

Alþýðublaðið, fyrrihluti greinar þann 5 júlí 1997

Jóhann Georg Möller fæddist á Siglufirði 27. maí 1918 og bjó þar alla tíð. Hann lést í Reykjavík 25. júní síðastliðinn.

Foreldar hans voru Christian Ludvig Möller, lögregluþjónn á Siglufirði, f. 5. apríl 1887 á Blönduósi, d. 11. ágúst 1946 á Siglufirði, og kona hans Jóna Sigurbjörg Rögnvaldsdóttir, húsmóðir, f. 18. mars 1885 á Þrastarstöðum á Höfðaströnd, d. 6. feb. 1972 á Siglufirði.

Systkini Jóhanns voru þessi: 

 • 1) Alfreð Möller, f. 1909, látinn; 
 • 2) William Thomas Möller, f. 1914, látinn; 
 • 3) Rögnvaldur Sverrir Möller, f. 1915; 
 • 4) Unnur Helga Möller og 
 • 5) Alvilda María Friðrikka Möller, f. 1919; Kristinn Tómasson, f. 1921; Jón Gunnar, f. 1922, látinn.

Jóhann var kvæntur Helenu Sigtryggsdóttur frá Hrísey, f. 21. sept 1923 í Ytri-Haga á Árskógsströnd og lifir hún mann sinn. Þau eignuðust sex börn:

 • 1) Helga Kristín Möller, f. 30. okt. 1942, kennari við Digranesskóla í Kópavogi og bæjarfulltrúi í Garðabæ, d. 15. mars 1992. Maður hennar var Karl Harry Sigurðsson, bankamaður, og dætur þeirra eru:

  • Helena Þuríður, lögfræðingur, og 
  • Hanna Lillý.

 • 2) Ingibjörg María Möller, f. 12. júlí 1944, kennari og aðstoðarskólastjóri í Hlíðaskóla í Reykjavík. Fyrri maður hennar var Sigurður Harðarson arkitekt en þau skildu.
  Börn þeirra eru
  • Hörður Sigurðsson, dýralæknir, 
  • Jóhann Sigurðsson
  • Fríða Sigurðardóttir.
  • Jóhann á  Jóna Diljá með unnustu sinni, Sigurbjörg Jóna Ludvigsdóttir.
  • Ingibjörg María er gift Barða Þórhallssyni, lögfræðingi, deildarstjóra hjá Tryggingastofnun ríkisins. 

 • 3) Alda Bryndís Möller, f. 27. maí 1948, matvælafræðingur og þróunarstjóri hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Hún var áður gift Stefán Vilhjálmsson, matvælafræðingur. Maður hennar er Derek Karl Mundell, landbúnaðarfræðingur og framleiðslustjóri hjá Fóðurblöndunni í Reykjavík. 
  Börn þeirra eru
  • Eva Hlín og 
  • Kristján.

 • 4) Jóna Sigurlína Möller, f. 22. nóv. 1949, kennari og aðstoðarskólastjóri við Kópavogsskóla. Maður hennar er Sveinn Arason, viðskiptafræðingur og skrifstofustjóri hjá Ríkisendurskoðun.
  Dætur þeirra eru
  • Helena, læknir, og 
  • Kristbjörg.

 • 5) Kristján Lúðvík Möller, f. 26. júní 1953, íþróttakennari, framkvæmdastjóri og forseti bæjarstjórnar Siglufjarðar, alþingismaður og ráðherra. Kona hans er  Oddný H. Jóhannsdóttir, verslunarmaður.
  Synir þeirra eru 
  • Jóhann Georg, 
  • Almar Þór 
  • Elvar Ingi.
 • 6) Alma Dagbjört Möller, f. 24. júní 1961, svæfinga- og gjörgæslulæknir í Svíþjóð.
 • Maður hennar er Torfi Fjalar Jónasson, læknir og í sérfræðinámi í hjartalyflækningum í Svíþjóð.
  Börn þeirra ung eru
  • Helga Kristín
  • Jónas Már.

---------------------------------------------- 

Jóhann G. Möller

Siglufjörður í sumardýrð. Mannlífið allt var ein iðandi kös eins og spriklandi síldartorfa, sem veiðimaðurinn óttast að gangi

Jóhann G. Möller Siglufjörður í sumardýrð. Mannlífið allt var ein iðandi kös eins og spriklandi síldartorfa, sem veiðimaðurinn óttast að gangi sér úr greipum í seinasta sporðakastinu. Brækjan í vitum manns minnti stöðugt á tilgang tilverunnar í "Klondæk" síldarævintýrisins: Að mala gullið sem sótt var í greipar Ægis konungs. Síldarhreistrið var límt á hvern bryggjusporð sem breyttist í glerhált dansgólf, þar sem mörgum sakleysingjanum varð síðar hált á svellinu.

Og allar þessar konur út um allar þorpagrundir. Kvenblómi Íslands saman kominn á einum stað. Þær voru háværar eins og heimaríkur vargfugl í bjargi; hláturmildar í miðjum hamaganginum og með annarlegt blik í auga af eftirvæntingu þessarar náttlausu voraldar veraldar. Og karlarnir? Þeir voru veðurbarðir og með saltið í skegginu, látalæti í hverju spori, spígsporandi eins og hanar á haug, sælir í þeirri sjálfsblekkingu að allt væri þetta þeim til dýrðar.

Þvílíkt mannlíf! Þvílíkt karníval kynslóðanna! Þvílík tímasprengja óhaminna tilfinninga í miðri grútarbræðslu okkar hversdagslega brauðstrits. Þeir sem aldrei upplifðu Siglufjörð síldaráranna vita ekki hvað það er að hafa lifað; svo að við hljótum að samhryggjast þeim. Það var þarna, í síldarbræðslunni miðri, sem fundum okkar Jóhanns G. Möller bar saman fyrst, fyrir u.þ.b. 40 árum. Hann var verkstjórinn sem pískaði okkur strákana áfram á vöktum, en létti okkur leiðindin með linnulausum pólitískum málfundi.

Hann var grjótharður vinstrikrati og verkalýðssinni með lífsreynslu kreppuáranna í blóðinu. Ég var sautján ára og gallharður bolsi og afneitaði honum og Hannibal í annarri hverri setningu. Eitthvað varð maður að gera til að reka af sér slyðruorð ráðherrasonarins á þessu síldarplani stéttabaráttunnar. Við rifumst nefnilega undir vinstristjórn, sem hvorki kunni á gengi né þann gjaldeyri sem við lögðum nótt við nýtan dag til að afla; og tórði í einum andarslitrunum í önnur á forsíðum blaðanna á þessu heita sumri og beið þeirra örlaga að verða tekin af á

Alþýðusambandsþingi nokkrum misserum síðar. 

Að vísu tókst Jóhanni ekki betur til við að píska okkur strákana út en svo að eftir tólf tíma vaktir í bræðslunni stóðum við frívaktir í löndun til þess að komast nær pilsfaldaveldinu á bryggjusporðunum.

"Andvaka var allt mitt líf", söng Sverrir konungur Birkibeina, fyrir fréttir. Og svo hvarf þessi hverfula draumadís, síldin, skyndilega og sporðlaust. Fremur en að játa mig sigraðan smyglaði ég mér í skipsrúm um borð í Elliða og þóttist þar með eiginlega vera orðinn innfæddur Siglfirðingur og maður með mönnum. 

Síðan er mikið vatn til sjávar runnið. Við Jóhann tókum ekki aftur upp þráðinn fyrr en rúmlega tuttugu árum seinna. Þá var ég seztur í ritstjórastól á Alþýðublaðinu. Og Jóhann var þá, sem fyrr, öflugasti boðberi fagnaðarerindisins á Siglufirði og sérlegur umboðsmaður Alþýðublaðsins. Það var eins og við hefðum slitið talinu deginum áður. Jóhann var nefnilega samur við sig. Hann lét sér ekki nægja að tala um hlutina; hann gerði það sem aðrir töluðu um. Hann fór sjálfur á hjólinu sínu út um allan bæ til að safna áskrifendum að blaðinu og aftur til að rukka inn áskriftargjaldið. 

Á þessum árum var hann forseti bæjarstjórnar í meirihlutasamstarfi undir forustu krata - og á kafi í ótal trúnaðarstörfum fyrir flokk, verkalýðshreyfingu og íþróttaæskuna í bænum. En það breytti engu. Jóhann hafði alltaf nægan tíma fyrir það sem mestu máli skipti.

Og upphefðin steig honum seint til höfuðs. Hann var jafn sporléttur fyrir því í þjónustu við þann málstað, sem hann ungur sór sína hollustueiða. Á formannsárum mínum í Alþýðuflokknum kom ég oft til funda á Siglufirði. 

Þar ríkir enn sérstök fundahefð, sem ber með sér blæ Rauða bæjarins og kreppuáranna. Fundirnir eru betur sóttir en í öðrum sóknum. En það sem sker sig úr er að fulltrúar allra flokka og sjónarmiða mæta og taka til máls og kveða margir fast að orði. En í fundarlok, um eða upp úr miðnættinu, var það óbrigðult að eldhugi siglfirzkra jafnaðarmanna, gamli verkstjórinn minn úr Síldarbræðslunni, kvaddi sér hljóðs.

Hann las framsögumönnum og fundargestum pistilinn um baráttuna fyrir réttlætinu, um göfgi jafnaðarstefnunnar og um skylduna og trúnaðinn við hugsjónina; um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Að svo mæltu var fundi slitið. Enda fundu allir innst inni að nú hafði sá talað, sem bezt fór á að hefði síðasta orðið. Þær eru margar eldmessurnar sem við jafnaðarmenn höfum heyrt af vörum Jóhanns G. Möllers, á flokksstjórnarfundum og á flokksþingum. Þar kom hann ávallt fram sem sá vinur er til vamms segir. 

Og orðum hans, sem mælt voru fram af heitu geði hugsjónamannsins, fylgdi meiri þungi en ella vegna þess að öll vissum við að Jóhann var jafnaðarmaður af lífi og sál, jafnt í orði sem á borði. Þess vegna var tónninn aldrei falskur. Jóhann G. Möller á að baki langt og farsælt ævistarf í þágu bernskuhugsjónar sinnar og heimabyggðar, sem hann unni hugástum. 

Forsjónin hefur líka kunnað að meta hann að verðleikum því hún hefur fært honum þá hamingju í einkalífi sem er óforgengileg. Hamingja Jóhanns heitir Helena Sigtryggsdóttir frá Árskógsströnd, væn kona og mikil ættmóðir. Þeim varð sex barna auðið, sem öll eru hvert öðru mannvænlegra. Þau eru því umvafin barnaláni, sem heitir öðrum orðum guðsblessun. Þess vegna getum við nú að leiðarlokum kvatt vin okkar með gleði um leið og við jafnaðarmenn þökkum þessum félaga okkar eftirminnilega og ánægjulega samfylgd. 

Jón Baldvin Hannibalsson.