Tarzan leikir og

Þó svo að móðir mín hafi kennt mér að ekki mætti herma eftir því sem við sæjum í  bíómyndum þá var litið á það sem saklaust að setja upp leiki sem lýstu hátterni Tarsans, villimanna og  Cowboy myndanna.  

Slíkt var algengt í Villimannahverfinu á Eyrinni á milli Hvanneyrarár og Þormóðsgötu, en það var svæði sem krakkarnir sem þar bjuggu tileinkuðu sér og voru lítt hrifnir ef utansvæðiskrakkar kæmu á okkar svæði. Síðar stækkaði svæðið alveg út til Bakka 

Eitt sinn er leikur stóð sem hæðst í Tarsan leik átti sér stað óhapp sem hefði geta orðið alvarlegra en raun varð á.

Það var á haustdögum. Ég hafði fengið það hlutverk að leika Tarsan og bardaginn sem settur var á svið stóð sem hæðst. 

Tarsan var núbúinn að leysa Jane sem Anna Kalla lék, úr klóm villimannanna þegar villimennirnir komu með tilheyrandi látum, spjótkasti og örvadrífu á eftir þeim skötuhjúum Tarsan og Jane.  

Örvarnar og spjót voru, eða áttu að vera meinlaus með ullarhnoðra bundna á enda vopnanna svo ekki skaðaði liðin. 

En í hita leiksins hafði ullarhnoðri á spjóti eins villimannahöfðingjans sem leikinn var af Sveini Björnssyni, losnað og spjótið lenti þannig í augnakrók Tarsans.  Mikil skelfing gaus upp á meðal leikendanna, mikið blóð fossaði frá augnatóttinni og allur Tarsans og villimannakraftur horfinn fyrir bí og sumstaðar á meðal stelpnanna heyrðist grátur og snökt. 

Þetta átti sér stað á túninu norðan við Pálshús. (Mjóstræti 2) Tarsan varð blindur, blóðið fossaði og þakti andlit hans en hópurinn leiddi fórnarlambið beinustu leið heim til sín. Þar var enginn heima svo hópurinn hljóp við fót í átt til

Sjúkrahússins, Svenni og Einar Björns héldu við sinn hvorn arminn á mér og leiðbeindu á leiðinni. Aðrir krakkar höfðu hlaupið á undan og gert viðvart á Sjúkrahúsinu. Á móti hópnum kom Elísabet hjúkrunarkona sem hrópaði „Guð hjálpi mér, hvað kom fyrir?“ 

Næst man ég eftir mér á skurðarborðinu. Ég sá þá greinilega með báðum augum þar sem Ólafur læknir og Elísabet voru að stumra yfir mér. Búið var að stöðva blóðrennslið og Ólafur bað mig að vera kyrran, hann þyrfti að sauma tvö til þrjú spor í augnakrókinn. Það tók fljótt af og ég var raunar hissa á því að ég skildi ekki finna til þegar hann saumaði, frekar en þegar spjótið frá Sveini hæfði Tarsan. 

Það var plástraður leppur fyrir annað augað og Elísabet fylgdi mér fram þar sem mamma mín beið ásamt Svenna í öngum sínum yfir atburðum sem höfðu leitt af sér áðurnefnt „blóðbað.“ 

En þegar móðir mín hafði komið heim eftir bæjarferð kom krakkahópur á móti henni sem sögðu að ég hefði fengið spjót í augað, og væri uppi á spítala. 

Hún hafði farið inn í forstofu og lagt frá sér mjólkurbrúsa og fleira sem hún hafði verið með. Hún sá þar allt útatað í blóði meðal annars alblóðuga vettlinga sem ég hafði verið með. Hún hljóp síðan upp á sjúkrahús. Þar sem einu fréttirnar voru frá gangastúlku sem bað hana að bíða, þar sem ég væri í aðgerð inni á skurðstofu svo og frá Svenna sem var þarna og beið hálfsnöktandi yfir þessu öllu.  

Elísabetu tókst fljótlega að róa mömmu og gaf henni til hressingar sherrystaup og Svenni var fljótur að jafna sig þegar ég sagði honum að augað hefði ekki skemmst og allt væri í fínu lagi. 

Síðar var sett sú regla í Tarsanleikjum framtíðar að ekki mætti skjóta örfum og spjótum í hita leiksins, í átta að „andstæðingunum“ 

Ekki skaðaði þetta atvik vináttu okkar Svenna á þessum unglingsárum frekar en annarra úr hópnum.  

Oftast í leikjum voru bæði strákar og stelpur saman. Í Slá-bolta sem oftast fór fram á götunum. Boltinn sleginn eins langt og hægt var og hlaupið í mark og til baka. Þá einnig leikur sem kallaður var Yfir, sem fólst í því skipt var liði sem komu sér fyrir sitt hvorumegin við eitthvert húsið, annað liðið kallaði hátt, "yfir" og kastaði bolta yfir húsþakið. 

Hitt liðið reyndi að grípa boltann og ef það tókst var hlaupið yfir til hins liðsins og reynt að kasta þar boltanum í einhvern og eigna sér þann sem varð fyrir boltanum. Sá sem varð fyrir boltanum, færðist þá sem liðsmaður sigurliðsins, þannig gekk leikurinn þangað til enginn varð eftir. 

Oft var þetta mikið fjör því ekki var auðvelt að sjá hver í hópnum var með boltann hverju sinni. Ávalt var viðhafður heiðarleiki, því ekki sá hitt liðið ef gripið var, eða vissi hver greip. En allir í viðkomandi hópi, hljóp yfir til andstæða liðsins.

Strákaleikir

Svo kom fyrir að strákarnir vildu ekki hafa stelpurnar með í leik, þá helst þegar skotið var í mark með boga og ör. Þá áttu stelpurnar það til að trufla með ýmsu móti keppnirnar sem þar fóru fram og hitnaði stundum ofurlítið í kolunum. 

Eitt skipti var vinkona okkar Anna Kalla of aðgangshörð að okkur fannst, við tókum hana herskildi í bókstaglegri merkingu. Við tróðum henni upp í efri hluta reykingakofa sem Páll Ásgríms átti og lokuðum hana þar inni. Reykingaskúrinn var rétt innan við metir á kannt og rúmleg tveggja metra hár með risi.
Í efri hluta skúrsins sem þarna var tómur, var venjan að hengja upp kjöt og fisk til reykingar og kveikt í mó og öðru brennsluefni í neðri hlutanum. Anna lét aldeilis í sér heyra og vandaði okkur ekki kveðjurnar og við hlógum eins og bjánar. Hinar stelpurnar voru þöglar og vissu að ekki þíddi að gera atlögu að okkur. 

En skyndilega hætti Anna að láta heyra í sér og okkur var örlítið brugðið. Við fórum að huga að henni með því að opna neðri hlutann og kíkja upp í gegn um rimlar sem var gólf efri hlutans. Farið var að rökkva svo ekki sást nein hreyfing þar uppi, ég og annar strákUR (man ekki hver) fórum inn í neðri hlutann og ég pikkaði með ör upp á milli rimlanna til að fá Önnu til að hreyfa sig eða öskra á okkur.   

En það var ekki öskur sem kom frá Önnu, heldur frá okkur og það nokkuð óvænt. Nokkuð sem hrakti okkur rennblauta út úr kofanum bölvandi í fyrstu en svo með hlátursköllum. Sem við öll tókum þátt í þegar við áttuðum okkur á hvað olli bleytunni sem yfir okkur steyptist.  Það þarf ekki að taka það fram að Önnu var hleypt úr prísundinni sem hetju og sigurvegara dagsins brosmildri að venju.
Anna hafði náð fram hefndum, hún meig á okkur. Nokkuð sem gerði okkur að athlægi, ekki aðeins þeirra sem með fylgdust, heldur mörgum dögum síðar í umræðunni á milli okkar krakkanna. Við tveir aftur á móti fórum stuttu síðar heim hálf sneyptir í bað.  En við mættum svo aftur til leiks í mesta bróðerni.  

Oft höfum við Anna á fullorðinsárum rifjað þennan atburð upp með brosi á vör.