Ýmislegt heima hjá SR Sigló

Árið 1965 vorum við aftur sendir austu til Seyðisfjarðar, þá til að lengja bryggjuna sem smíðuð hafði verið árið áður, um það verk sá Palli sjálfur með nokkra af þeim sem tekið höfðu þátt í fyrri smíð, sér til stuðnings.
Áður en þeirri smíð lauk, kom Palli til mín og sagðist þurfa að senda mig heim í hvelli. Hann hefði ætlað að fá trésmiði frá Berg hf. til að byggja bráðabirgðadragara framan frá löndunarbryggju upp að þró.  En Bergararnir sögðust ekki hafa tíma til að sinna því.  Ég þyrfti að fara í verkið og það lægi á. Heima væri nóg af góðum mönnum til verksins, það þyrfti bara að stjórna þeim. Ég gæti valið þá menn sem ég vildi úr verksmiðju og löndunarliðinu í samráði við Gísla Elíasson verksmiðjustjóra. 

Ég fór svo heim á undan hinum með einkaflugi frá Egilstöðum.  
Sýnt þótti að uppsetning á gúmmífæribandinu þarna á myndinni hér til hliðar sjást uppistöður þess sem var í smíðum og séð var að mundi ekki verða tilbúið þegar síldin kæmi. Þess vegna var bráðabirgðadragarinn margnefndi smíðaður þarna við hliðina lárétt á bryggjunni.

Dragarinn lá frá þverdragara frammi á bryggjuenda. Hinn endinn nam við þróarvegg SR30, þaðan sem skúffudragari kom síldinni upp í þróna. 

Þetta var hefðbundin smíði á dragara, allt saman stöðluð mál og auðvelt í smíðum. Mikið af efni frá eldri drögurum var hægt að nota, drögurum sem höfðu verið fjarlægðir og rifnir. Bráðabirgðadragarinn varð tilbúinn til notkunar sama dag og fyrsta síldin barst til Siglufjarðar þetta sumarið. Gúmmí færibandið um hálfum mánuði síðar. Þarna til hægri á myndinni er verið að draga tórakeðjuna í trétórinn og til vinstri óklárað færibandið. 

Verkefnin.  

Eins og ég hefi nefnt, þá var ég bæði í vinnu hjá SR-Trésmíðaverkstæði og SR-Vélaverkstæði og síðan á krana fyrirtækisins. Það voru þó ýmis fleiri störf sem ég stundaði hjá S.R.  
Ég aðstoðaði á SR-Raffó um tíma, litlu munaði að ég færi þar í nám að hvatningu frænda míns Baldurs Steingrímssonar sem þar var meistarinn en ekki varð úr.

Í um viku tíma var ég hjá Rögnu Backman á SR-Efnarannsókn. 

Ég tók vaktir vegna afleysinga við nánast allar tegundir vinnu í bræðslunni þar var ég oft kallaður til starfa vegna veikindaforfalla starfsmanna.  Ég starfaði í mörg sumur við eftirlit og smáviðgerðir á löndunarkerfinu á bryggjunum ásamt Birni Einars og Eðvald Eiríkssyni. Þar undir stjórn Jóhanns G Möller sem þá var verkstjóri á bryggjunum. Svo var það auðvitað vera mín um borð í Haferninum sem var í eigu S.R. 

SR-Lager

það var svo um haustið 1992. Þá hafði sonur minn Valbjörn og Álfhildur kona hans tekið við rekstrinum á Nýja Bíó og tilheyrandi. Ég hafði tekið mig til og undirbúið ljósmyndasýningu og fleira dútl og hafði ekki verið í launaðri vinnu um nokkurt skeið.
Ljósmyndasýningin (ein af 13-14 sýningum um ævina) var afstaðin og ég fór að huga að nýju starfi. 

Ekki var mikið um atvinnu þá um haustið og margir á atvinnuleysiskrá. 
(ég hefi ALDREI sótt um, eða verið á atvinnuleysisbótum)

það vantaði mann á rækjutogarann Sunnu SI 67 sem var þá í eigu Þormóðs Ramma hf. 
Ég falaðist eftir starfinu og fékk vilyrði um pláss þegar togarinn kæmi næst til hafnar.
Ekki var kona mín ánægð með þann ráðahag og bað mig að tala við þá hjá vélaverkstæðinu.
Ég vissi að þar var fullskipað og verkefnaskortur. 

Þá bað hún  mig að tala við vin minn Þórð Andersen verksmiðjustjóra hjá S.R.  Ég taldi litlar líkur á að þar væri laust pláss, þar sem nýlega höfðu nokkrir fengið uppsagnabréf, en lét það eftir henni. Ég hringdi í Þórð rétt eftir kvöldmat. Spurði hvort hann ætti eitthvað handa mér að gera.  Mér væri sama hvað það væri, moka skurð eða skafa skít, bara eitthvað. 

Ekki man ég nákvæmlega hverju Þórður svaraði, en hann spurði mig hvort hann mætti hringja í mig eftir hálftíma eða svo, hann ætlaði að athuga málið. Hann hringdi aftur eftir um 15 mínútur og spurði mig  hvort ég gæti mætt á Lagerinn klukkan sjö daginn  eftir. Hann mundi vera þar á þeim tíma.
Ekki sagði hann mér hvað ég ætti fyrir höndum né ég hafði nokkurn grun um  hvert starf mitt yrði. Ef til einhverjar tilfærslur datt mér í hug. 

Ég mætti nokkru fyrir tímann (eins og ég er vanur). Lagerinn var opinn, þar inni var Þórður einn og hann spurði hvort ég hefði áhuga á að verða aðstoðar lagerstjóri. 

Ég sagði auðvitað strax já við því og spurði svo hvar Ingibjörn lagerstjóri væri, en hann þekkti ég vel þó svo að við værum ekki beint vinir eða kunningjar. Hann hlýtur að vera rétt ókominn sagði Þórður, sem kom á daginn. Ingibjörn birtist og Þórður kynnti mig fyrir honum sem aðstoðar lagerstjóra. 

Ég sá að þetta kom Inga verulega á óvart og ég hafði á tilfinningunni að hann væri alls ekki sáttur við þessa óvæntu frétt. En Þórður var hans yfirmaður sem bar að hlíða og taka því sem að honum var rétt.
Venjan fram að þessu hafði verið sú að Ingibjörn gat kallað á mann sem honum féll við innan frá verksmiðju þegar á þurfti að halda og ef hann þyrfti að bregða sér frá. Þórður sagði okkur svo að fyrir lægi ákvörðun um að tölvuvæða fyrirtækið, samtengja skrifstofuna á Siglufirði og í Reykjavík, vélaverkstæðið og Lagerinn. 

Málið væri á undirbúningsstigi í höndum aðalskrifstofunnar í Reykjavík.  

Á lagernum þyrfti að vera einhver sem væri vanur og þekkti til tölvumála til að flýta fyrir þjálfun við væntanlegt kerfi. Þórður sem þekkti mig vel og vissi að ég hefði átt tölvur, allt frá árinu 1982 og væri grúskari á því sviði.  Ingibjörn aftur á móti þekkti lítið sem ekkert til tölvuþróunar.
Á skrifstofunni á Siglufirði var Vang tölva í notkun vegna bókhalds, en hún var fyrir löngu orðið úrelt fyrirbæri og gat ekki lengur þjónað núverandi kröfum.  

Það var svo ekki fyrr en árið eftir sem fyrirtækið var almennilega tölvuvætt. Mér gekk vel að aðlagast tölvukerfinu enda kom fínn náungi að nafni Haukur Halldórsson frá skrifstofunni að sunnan til að kenna okkur. Aðalverk mitt var svo að skrá allar vörur ásamt magni og verðgildi á lagernum inn í kerfið. Þetta var mikið verk, sérstaklega þegar leita þurfti fanga við að verðleggja ýmsar vörur sem aldrei höfði verið verðlagðar í raun, til hinna ýmsu staða innan fyrirtækisins og lagerinn hafði engar skrár yfir slíkt. Reynt var að fletta gömlum nótum sem til voru sem í raun var erfitt að áætla nýtt verð eftir þáverandi verðgildi. 

Enda allir útseldir reikningar gerðir á skrifstofunni voru samkvæmt minnismiðum um innihald frá lager eða með því að hringja í eitthvert fyrirtæki sem hugsanlega gat áætlað verð. Mikið af þessum vörum voru ævagamlar byrgðir en þó víða enn í notkun til viðhalds.
Eftir tölvuvæðinguna kom það alfarið i minn hlut að skrá og reiknisfæra vörur sem sendar voru út frá lagernum. Auk þess að sjá um farmbréf út og inn tengd verksmiðjunni, vélaverkstæðinu og skrifstofu. 

Ég forritaði sérstakt farmbréfakerfi með hugbúnaðinum ACCESS, sem hélt utan um allt sem kom og fór inn á lóð verksmiðjunnar auk þess sem hjá Lagernum voru prentuð viðkomandi farmbréf vegna sendinga frá SR á Siglufirði.
Engin handskrifuð farmbréf né merkimiðar, allt frá tölvunum á lagernum. Ýmislegt fleira gerði ég til hagræðingar á Lagernum, eins og það að merkja allar hillur þar þannig að þegar leitað var eftir vöru í tölvunni þá kom einnig upp staðsetning vörunnar. Þetta kom sér vel varðandi vörur sem lítil hreyfing var á eins td. legusafn lagersins sem var gríðarlegt, örugglega það stærsta á landinu. Legur voru geymdar bæði uppi á lofti og niðri á lager, þar var var Ingibjörn með mjög góða þekkingu á tegundum og notakun á legum fullkominn, þekkingu sem hann miðlaði til mín, en skráning slíkra muna þurfti mikla nákvæmni hvað númera skráninguna snerti. 

Ekki kom okkur Ingibirni þó mjög vel saman. Hann var greinilega ekki sáttur við mig í byrjun. og á tímabili féllu til mín orð sem ég va r ekki sáttur við. Svo kom að því að Ingibjörn, að mér fannst í bókstaflegri merkingu að hann legði fæð á mig. Átti það til að öskra á mig og skamma stundum af tilefni, (án öskurs) en oft bara upp úr þurru.  
En upp komu mjög góð tímabil, sérstaklega þegar hann hafði sig upp i það að læra á kerfin. Honum gekk mjög vel við það. Siðar kom tímabil sem hann var ekki alveg sáttur og var skapvondur. Ég fékk síðar grun um að erfiðleikar heimafyrir hafi valdið þessu, og léti það ósjálfrátt bitna á mér án þess að hann sennilega hefði gert sér grein fyrir því sjálfur. Ég nefndi þetta við Þórð Andersen..........og hann sagðist haf heyrt um þetta vandamál og sagðist mundi kippa því í lag, sem og hann gerði.

Eftir þetta gjörbreytist andrúmsloftið á lagernum. Ekki eitt einasta styggðaryrði og allt eins og átti að vera á góðum vinnustað.  Þórður fylgdist með úr fjarlægð og var ánægður. Ekki gat ég togað upp úr Þórði hvernig hann kom að málinu.
En vinnustaður okkar Inga varð ekki aðeins góður vinnustaður, heldur vinskapur okkar á milli, sem enn er í góðu lagi þó fjarlægðin á milli okkar í dag sé nokkuð mikil, hann fyrir sunnan og ég fyrir norðan. Hann fylgist að minnsta kosti vel með því sem ég er að dunda við í "ellinni" Það var/er að minnsta kosti mín tilfinning. Löngu síðar bað Ingi Þórð um einsárs launalaust frí. 

Hann fór suður til heimabæjar síns Sandgerði. Ég tók við lagerstjórn en þó aðeins þar til Ingi kæmi til baka. Ég fékk minnir mig 10% álag á laun mín þetta tæpa ár sem Ingi var fjarverandi. 

Aðstoðarmenn hafði ég á meðan, þar á meðal Sigurð Fanndal sem hættur var kaupmennsku og einnig frá konu Óskars Berg heitins , Helgu Óladóttur sem veitti mér lengi vel ómælda og góða aðstoð, mest við skráningu vara og fleira vörum tengt.  Hún var annars við ýmis verk á vélaverkstæðinu, þrif og fleira.  

Þegar Ingi kom til baka frá Sandgerði eftir tæplega árs fjarveru, Þá var það ekki til þess að taka við gamla starfinu sínu heldur til að tilkynna að hann væri alfluttur suður og afsalaði sér lagerstjórastarfinu.
Hann væri kominn í góða vinnu fyrir sunnan. Við kvöddumst sem gamlir og góðir vinir og óskuðum hvor öðrum velgengi. 

Ég sótti skriflega um lagerstjórastarfið daginn eftir. Ekki kom þó svarið eins fljótt og ég hafði búist við. Þórður Andersen kom loks með skilaboð frá Þórði Jónssyni þess efnis að starfið væri ætlað öðrum og sagði mér að ég yrði áfram aðstoðarlagerstjóri. Aldrei fékk ég uppgefið hver þessi „annar“ var. 

Strax og Andersen var farinn hringdi  ég í Jón Dýrfjörð og spurði hvort hann ætti vinnu handa mér. Ég sagði honum frá umsókn minni og svari. Það tók hann aðeins augnablik að svara mér. Svarið frá Jóni var já og þú getur komið á morgun þess vegna. Ég hefi nóg handa þér að gera. 

Ég settist niður við tölvuna mína og skrifaði uppsagnarbréf sem ég fór svo með strax yfir á skrifstofu og rétti það Þórði Andersen. Á útleiðinni kallaði Sighvatur Elefsen verkfræðingur  vélaverkstæðisins á mig. Og spurði mig hvort það væri rétt að mér hefði verið hafnað sem lagerstjóra.  

Hann hefði heyrt hluta af samtali á milli Andersen og Þórðar Jónssonar. Ég sagði honum að ég hefði verið að færa Þórði uppsagnarbréf með ósk um að fá að hætta sem fyrst, helst strax. Sighvatur sagði að hann vildi gjarnan ráða mig til starfa á vélaverkstæðinu þegar ég losnaði þó svo að það ylli einhverjum árekstrum. Ég þakkaði honum fyrir og sagði honum þá að ég væri búinn að fá vinnu annarsstaðar, það hefði aðeins þurft eitt símtal.

Verkstæðiskarlarnir og raunar einnig starfsmenn inni í verksmiðju voru undrandi yfir þessari höfnun. Fréttirnar voru fljótar að berast, ekki síst þar sem ég sagði félögum mínum frá uppsögn minni og því að ég væri búinn að fá vinnu hjá JE-Vélaverkstæði strax og ég losnaði.
Strax morguninn eftir komu þeir báðir Þórðarnir inn á lager. Þeir læstu á eftir sér til að fá næði.
Erindið var að leiða mér fyrir sjónir að ég gæti varla hætt þar sem ég væri kominn á þann aldur að ég gæti vart fengið vinnu annarstaðar. Þórður Jónsson hafði orðið, Andersen hlustaði. 

Meiningin væri að yngri maður tæki við lagerstjórninni ég hlyti að geta sætt mig við það. Þessi „ungi maður“ gat leyst af inni í verksmiðju, gert við lyftara og fleira sem til þyrfti utan lagers. Eitthvað fleira sagði hann. (ég brosti og hristi höfuðið)

Þegar hann hafði lokið sér af, þá ítrekaði ég það sem stóð  í uppsagnarbréfinu. Ég vildi hætta sem allra fyrst því fyrr því betra. Ég væri búinn að fá vinnu annarstaðar og það sem betra væri á mun hærra launum en þau sem ég hefði í dag.  
Ég hafði rætt það nánar við Jón Dýrfjörð kvöldið áður þannig að það var satt sem ég sagði þeim félögum. Þeir trúðu þessu vart sýndist mér á anlitum þeirra, og ég sagði að þeir gætu hringt í Jón, hann stæði við sitt 

Með það fóru félagarnir, þeir ætluðu að skoða málið nánar sagði Jónsson.  Eftir rúma klukkustund kom Andersen aftur með vinalegt glott á andliti og sagði mér að ég fengi lagerstjórastarfið sem ég hefði sótt um. Þórður Jónsson hefði tekið þá ákvörðun. Ég glotti af undirliggjandi ánægju. 

Ég var ekkert spenntur fyrir því að skipta um starf. En nú hafði ég góð spil og ákvað að spila úr þeim. Ég sótti miða í vasa minn sem Jón Dýrfjörð hafði skrifað á kvöldið áður. Á miðanum voru tilgreind væntanleg laun, hlunnindi sem hann bauð mér. 
Þau laun voru umtalsvert hærri en þau sem Ingibjörn hafði haft áður.  Færðu Þórði Jónssyni þetta, ef hann samþykkir þessi laun handa mér fyrir lagerstjórastarfið, þá dreg ég uppsögnina til baka.
Andersen glotti nú meir en áður eftir að hann hafði lesið það sem á miðanum stóð og hann sagðist koma þessu til skila.  Það var svo eftir hádegið sem Þórður Jónsson kom á lagerinn og við staðfestum ráðningarsamning með handbandi. 

Tímabilið á SR-Lager var mjög viðburðaríkt og að flestu leiti skemmtilegt.
Ég kynntist mörgum, bæði innan lóðar sem utan. Nánast engir samskiptaörðuleikar ef frá eru talin fyrsta árið á milli okkar Inga.
Annað slagið kom þó upp smá ágreiningur á milli mín og vinar míns heitins Óskars Berg Elefsen sem var yfirmaður á SR-Vélaverkstæði.
En þeir vindar sem við slík tækifæri sköpuðust á milli okkar voru öllu jöfnu horfnir samdægurs eða daginn eftir. Við þekktum hvorn annan mjög vel og vissum, að við vorum stundum „þverir og vitlausir“  Óskar var góður félagi, en hann féll því miður frá langt um aldur fram eftir slæm veikindi.  

Árið 1993 þan 1. Júlí yfirtók SR-MJÖL hf. allan rekstur Síldarverksmiðja ríkisins, Við það breyttist nafn verksmiðjurekstursins í SR-MJÖL HF. og fleira breyttist til hins betra, tölvuvæðingin og síðar nánast alveg ný verksmiðja árið 1998-1999   

Seinnipart ársins 2002 skrifaði ég stjórnarformanni SR-MJÖL H.F. Finnboga Jónssyni bréf þar sem ég gerði SR-MJÖL HF ákveðið tilboð varðandi það að safna upplýsinga úr gömlum Siglfirskum blöðum um mjöl og lýsisvinnslu á Siglufirði og setja sem vefsíðu á netið. Þessu tilboði mínu var tekið og Þórði Jónssyni framkvæmdastjóra S.R. var falin samningagerð og samvinna vegna undirbúnings við verkið sem leyst var með ágætum (að mínu mati). - Ég hóf síðan vinnuna við söfnun gagnana utan vinnutíma. -  Afraksturinn fór síðan á netið undir nafninu Mjöl & Lýsissaga. Veffang árið 2013 er því miður ekki aðgengilegt í dag, en efnið er til í stafrænu formi og vonadi birtist það á þessum vef síðar.
Efnið er að mestu sótt til gamalla vikublaða sem gefin hafa verið út frá árunum 1918-1950 á Siglufirði. Efnið var fyrst ljósmyndað á Bólasafninu, síðan breytt með OCR hugbúnaði yfir í stafrænt ritmál.
Meðal þess sem ég fékk fyrir vinnu mína við þetta var mín fyrsta stafræna ljósmyndavél Sony Cybershot 707. Þessa myndavél notaði ég til að ljósmynda áður nefnd gögn frá vikublöðunum inni á Bókasafni Siglufjarðar.

Í mars 2003 yfirtók svo Síldarvinnslan Neskaupstað allan reksturinn og nafni fyrirtækisins á Siglufiðri breyttist í Síldarvinnslan Siglufirði undir vörumerkinu S.V.N.  Áður höfðu Síldarvinnslan og Samherji hf. verið búin að kaupa stóra hluti í SR-MJÖL hf.

En í júnímánuði árið 2003 fékk ég uppsagnarbréf frá Síldarvinnslunni. Það var þó ekki vegna slæmrar hegðunar eða vanrækslu í starfi. Heldur vegna þess að lagerum sem slíkum var hreinlega lokað. 
Í ráðningasamning mínum frá SR-MJÖL, sem S.V.N. yfirtók með fleiru sagði að vísu að ég gæti unnið  til sjötugs, en í smáa letrinu var tekið fram að það ákvæði félli út ef verulegar aðstæður breyttust. Það voru því sannarlega breyttar aðstæður fyrir hendi.

Fyrir tilhlutan Gunnþórs Ingvasonar aðstoðarframkvæmdastjóra, (núverandi framkvæmdastjóra S.V.N. 2017)  þá fékk ég mjög góðan starfslokasamning.  Starfslokasamning sem örugglega hefur ekki þekkst á „SR-lóðinni“ frá upphafi (fyrir árið 2003) til handa venjulegum verkamanni eins og ég leit á mig vera. Ég fékk góða eingreiðslu auk sexmánaða launa ásamt hlunnindum. Ég mátti hætta störfum strax ef ég vildi. Það gerði ég nokkrum dögum síðar um mánaðarmótin 30. Júní. Þá hafði lagernum þegar verið lokað.
Það var þó mikill söknuður hjá mér að yfirgefa þennan hóp fyrrverandi vinnufélaga mína. Þar voru og eru margir enn sem ég hafði unnið með og í  nánd í áratugi. Nokkrar myndir má sjá á tenglinum: SR Myndir