Ógurlegt snjóflóð

Ókunnur ljósmyndari

Frétt í Fram, 12. apríl 1919 - Þegar snjóflóð hrifsaði burt Evangers verksmiðjuna.

Ógurlegt snjóflóð féll hér austan fjarðar í nótt. Tók yfir um 1.000 faðma svæði. Sópaði sjö húsum út í sjó, og gekk yfir bæinn í Neðri Skútu. 16 manns lentu í flóðinu. 7 náðust lifandi eftir 10 tíma. 9 manns ófundið ennþá og talið af. Flóðbylgjan æddi hér yfir á eyri og gerði stórskaða. Tjónið um 1,1/2 miljón kr. 

Eftir því sem vér best vitum ennþá, verða menn fyrst varir þessa voða viðburðar þannig, að um kl. 4 í nótt verður vökumaður á M.S. Æskan,  sem lá við Lýsisbryggju svokallaða, sjónarvottur þess, að flóðbylgja ógurleg kemur æðandi austan yfir fjörðinn. Sá hann um leið að fjörðurinn var snjóhvítur, og hyggur í svipinn að hafís sé þar kominn. 

Flóðbylgjan æðir á land upp með afskaplegum aðgangi, og tók t.d. skip þetta sjó inn að lúgugötum um leið og bylgjan reið yfir. Afleiðingar flóðbylgjunnar urðu hroðalegar. 

Utan frá Bakkevig og alla leið suður til Roalds eyðilögðust allar bryggjur meira og minna, og svo var afl bylgjunnar mikið að tvö fiskiskip Sameinuðu verslananna, sem á landi stóðu fluttust úr stað, en mótorbátar og smærri bátar,  lágu sem hráviði hér og þar, um eyraroddann, m.b. Georg spónmölfast, og mótorbátur sem lá upp við Rolandsbryggju hentist á hvolf. 

Er menn sáu þessar aðfarir hér, varð mönnum ljóst að snjóflóð mundi hafa hlaupið úr fjallinu austan fjarðarins og þaðan stafaði flóðbylgja þessi, en ekkert mátti sjá vegna hríðarsorta og myrkurs Þegar birta tók af degi rofaði snöggvast svo að sást austur yfir fjörðinn, brá mönnum þá mjög í brún því að af sjö húsum, sem stóðu hér beint á móti eyraroddanum var aðeins eitt eftir. Eigi gátu menn séð bæinn Neðri Skútu, eða íbúðarhús er þar stóð fyrir neðan á sjávarbakkanum. Var þá brugðið við svo fljótt sem unnt var. 

Fjöldi manna fór austur yfir, ef ske kynni að eitthvað mætti aðhafast, þrátt fyrir illviðrið, því þar höfðu sjáanlega gerst hörmuleg tíðindi þegar menn komu yfir um, sáu menn að afar mikil snjóskriða hafði fallið úr fjallinu fyrir ofan Staðarhól, klofnað á hól nokkrum fyrir ofan bæinn og aðalflóðið hlaupið að sunnan verðu, og Neðri-Skúta lent alveg í suðurjaðri þess, var allt þetta svæði ein auðn, þar stóð ekki steinn yfir steini, og eyðileggingin afskapleg. 

Síldarbræðsluverksmiðja Evangers og 5 önnur hús þeim tilheyrandi, hús Benedikts Gabríels Jónssonar, og bærinn Neðri-Skúta var alt sópað burtu, og engin lífsmerki sjáanleg á öllu þessu svæði. 

Í húsum Evangers bjuggu: Knut Sæther umsjónarmaður og kona hans, og Friðbjörn Jónsson húsmaður með konu og barni, og varð leit að þeim árangurslaus, enda stóðu húsin rétt við sjóinn, og hafa sópast út í fjörð í einni svipan. Í húsi Benedikts Gabríels, bjó hann með konu og 2 börnum, og var sjáanlegt að þar mundi hafa farið á sömu leið.

Í Neðri-Skútu bjó Einar bóndi Hermannsson með konu sinni, þrem börnum sínum, fósturbarni og gamalli konu. Menn sáu þegar, að hér var sá staðurinn er sennilegast væri að líf leyndist, þó ýmislegt benti til hins gagnstæða þar eð húshlutir og innanstokksmunir höfðu fundist víðsvegar í flóðinu, og mikill hluti bæjarins hafði farið langar leiðir og tættist sundur. 

Var þá farið að grafa til þess að leita bæjarleyfanna, og urðu menn þess varir áður en langt um leið, að eitthvað af gamalli baðstofu mundi vera þar undir, og kunnugir vissu að þar hafði fólkið sofið. 

Um kl, 2 var búið að grafa upp baðstofuna og ná öllu fólkinu lifandi. Þar lá það í rúmum sínum skorðað milli rúma og súðarinnar, sem fallið hafði niður, og hvíldi nú á rúmstokkum og gólfi. 

Var það mikið þjakað og nokkuð meitt, sem von var eftir 10 tíma dvöl í slíkum heljargreipum, en var þó með ráði og rænu, nema sonur hjónanna Hermann, hann var meðvitundarlaus, lá hann og allur í fönn, var svo fólk alt flutt að Árbakka, er stendur þar litlu sunnar. 

Vaknaði Hermann þar skjótt til meðvitundar og gera menn sér vonir um að allt fólkið muni komast til heilsu. Sjálfsagt verður leitinni haldið áfram, en því miður að hún er að  sögn þeirra er komið hafa á vettvang, vonarlítil. Tjónið af öllu þessu er stórkostlegt, fyrir utan mannslífin.  

Auk allra þessara húsa sem upp hafa verið talin hefur fjöldi annarra mannvirkja austan fjarðarins eyðilagst, bæði bryggjur og uppfyllingar. 

Húsin voru flest full af tómum tunnum, og þar lágu einnig um 1.000 föt af lýsi, og fjölda margir, snurpinótabátar, sem allt hefur meira og minna eyðilagst, og mun óhætt vera að fullyrða að tjónið sé ekki minna austan fjarðarins og vestan, en 1,1/2 miljón krónur. 

Fólkið í Skútu hefur misst aleigu sína, að undanteknum fáeinum kindum sem voru í húsi lítið eitt sunnan við bæinn, og slapp, 2 kýr bóndans voru dregnar dauðar upp úr fönninni í dag. 

Góðir menn og konur! Ef nokkurn tíma hefur verið ástæða til skjótrar hjálpar, þá er það nú. Fólkið er matarlaust, klæðlaust, allslaust, og alt kemur sér vel. "Fram" er fús að veita móttöku gjöfum, og koma þeim áleiðis.

Rústir Evanger verksmiðjanna. (2015)