Söbstads-verksmiðjan brann

Myndin sýnir nefndan bruna. -
Ljósmyndin var tekin þann, 7. júlí 1919. -
Ljósmynd: Sveinbjörn Jónsson Byggingameistari frá Akureyri -
Ólafur Magnússon ljósmyndari (Mbl.) litaði myndina árið 1924

Húsið mun hafa staðið á þeim stað er húsið Síbería, sem Primex-kitosanverksmiðjan stendur nú, árið 2017.

Frétt í Fram 12. júlí 1919  Þegar Söbstads-verksmiðjan brann
Stór bruni.

Bræðslu-verksmiðja og íbúðarhús H. Söbstads brennur til kaldra kola á rúmri klukkustund. Tjónið áætlað rúm 200.000 krónur.

Mánudaginn 7. þ. m. kl. 6 síðdegis gaus reykjarmökkur mikill út um þak og glugga verksmiðjuhúss Söbstads var samstundis augljóst að eldur var kominn upp í verksmiðjunni og þusti þar að múgur og margmenni, sumpart að horfa á og fjöldi að hjálpa til, ef einhverju yrði bjargað úr húsunum, því nú var um leið séð að allar byggingar þarna mundu brenna.

Slökkviáhöld bæjarins voru bráðlega komin á vettvang, en til nauðalítils gagns reyndust þau, vatnið ónóg og kraftlaust, brunahaninn líka eitthvað í ólagi, og er mjög ámælisvert að ekki skuli vera litið eftir að brunahanar og þessar fáu vatnsslöngur sem bærinn á, sé í lagi ef voðann ber að höndum.

Vonandi hafa menn nú rumskað svo við slys þetta, að eitthvað verði hér gjört til þess að bæta slökkvitækin og skerpa eftirlit með þeim.

Nóg var þarna af eldfimu efni, lýsi og grút, og á 20 mínútum hafði eldurinn læst sig um alt verksmiðjuhúsið og efri hæð íbúðarhússins sem áfast var bræðsluhúsinu, og stóð eld og reykjarstrókur úr hverjum glugga.

Hús Söbstaðs stóðu nokkuð afsíðis svo öðrum húsum var ekki verulega hætt, enda blíðuveður, aðeins örlítill sunnanblær.

Úr íbúðarhúsinu varð flestu bjargað af innanstokksmunum og nokkru af vélum, veiðarfærum, lýsi og tómum tunnum úr úthýsum.

En mikið brann, t. d. af veiðarfærum: 1 ný herpinót og 180 síldarnet, hákarlaúthald og margt fleira.

Nýlega var búið að taka við 44 tunnum af lifur frá hákarlaskipi Söbstaðs Brödrene, - og var ekki byrjað að bræða hana. Rúmlega kl. 7 var alt brunnið til kaldra kola og hefur því eldurinn     þarna á klukkutíma gjöreyðilagt fyrir um 200 þúsund krónur Nokkuð af húsunum var vátryggt fyrir nær 50 þúsund krónur.

Ný bygging, sem Söbstað hafði lokið við í vor, var ennþá óvátryggð, svo tjón hans mun vera afskaplegt. Um uppkomu eldsins hefur ekkert sannast.

Þegar komið var að, varð ekkert greint fyrir reykjarsvælu, en menn eru hræddir um að reykháfur muni hafa sprungið og eldur hlaupir í þakið,

Ekki mun kjarkur Söbstaðs hafa bilað meir en svo, þótt farinn sé að eldast og blindur, að strax er farið að hressa upp á sementsteypuveggi sem lítið skemmdust og mun hann strax ætla að reyna að koma upp einhverju skýli yfir verkafólk sitt, og salta síld í sumar.