Sannleiksást Jóns Gunnarssonar.

Neisti, 4. desember 1935

Sannleiksást Jóns Gunnarssonar. (2. grein Gunnlaugs Hjálmarssonar, um sama mál)

Ég hefi ekki að þessu skipt mér af verksmiðjudeilunum, og mun gjöra sem minnst að því framvegis, en vegna aðstöðu minnar í Verkamannafélaginu "Þróttur" er ég tilneyddur að taka til athugunar skrif Jóns Gunnarssonar framkvæmdarstjóra í síðasta tölublaði "Einherja" frá 30. nóvember s. l., þá hliðina, sem snýr að verkarnannafélaginu. Þar er farið með svo rangt mál, að slíkt verður ekki þolað. 

Hina hliðina, þá sem snýr að Jóni Sigurðssyni, læt ég þá nafna að mestu um, en þó virðist það ekki tiltakanlega hetjulegt af Jóni Gunnarssyni, að á meðan þeir nafnar sem báðir í Reykjavik, þegir Jón Gunnarsson, og á meðan þeir eru báðir á Siglufirði, þegir Jón Gunnarsson, en þegar Jón Sigurðsson er farinn austur á land, þar sem hann hefir slæma aðstöðu til að svara fyrir sig, þá fer Jón Gunnarsson að skrifa undir nafni, og reyna að stimpla J.S. sem ósannindamann, þó það takist ekki sérlega fimlega. Slíkt er ekki hægt að kalla hetjulegt. 

Þegar samkomulag náðist ekki um kaupgreiðslu við karfann, skrifuðu nokkrir bæjarfulltrúarnir verkamannafélaginu "Þróttur" bréf, þar sem þeir óskuðu eftir að félagið tæki það mál til nýrrar og nákvæmrar athugunar. Þetta var seint um dag og því ekki hægt að halda almennan fund um málið það kvöld, en togari var væntanlegur á hverri stundu, svo ekki var hægt að bíða eftir fundi. 

Stjórn og kauptaxtanefnd félagsins komu því saman á fund, og ræddu bréf bæjarfulltrúanna og málið i heild. Eftir alllangar umræður kom það i minn hlut að semja ályktun þá, sem fundurinn gerði og er hún svohljóðandi: 

"Út af ósk sumra bæjarfulltrúanna, um karfavinnsluna í "ríkisverksmiðjunni, gerir meirihluti stjórnar og kauptaxta nefndar "Þróttar" svo felda á ályktun. 

"Vegna fjárhagslegra örðugleika almennings, láta þessir aðiljar það afskiptalaust, þó unnið verði við karfann fyrir kr. 1,50 á tímann, gegnum sneitt. vilji fólk vinna þannig". 

Ályktun þessi var strax tilkynnt verksmiðjustjórninni, og varð hún grundvöllur undir það samkomulag sem náðist. 

Aðra ályktun í karfamálinu hefir stjórn og kauptaxtanefnd "Þróttar" aldrei gjört, hvorki um kr. 1.45 eða aðra upphæð, og er því frásögn Jóns Gunnarssonar í "Einberja" upplogin frá rótum. 

Þessi eina ályktun stjórnar og kauptaxtanefndar var samin og samþykkt 21. september kl. 7 síðdegis og tilkynnt aðiljum verksmiðjanna samstundis. 

Það lítur út fyrir að þetta skrif Jóns Gunnarssonar eigi að vera óheiðarleg tilraun til að gera stjórn og kauptaxtanefnd "Þróttar" tortryggilega í augum verkamanna, með því að læða því inn i hugi þeirra, að gjörð hafi verið samþykkt um kr. 1,45 sem aldrei hafi komið fram opinberlega. 

Það liggur opið fyrir augum manna, að með því að Jón Gunnarsson segist hafa sent Guðmund Sigurðsson út á meðal verkamanna til að fá þá til þess að vinna fyrir kr. 1,45, þá er hann með því, að reyna að fá kauplækkun á bak við félagið, þar sem slíkt hafði aldrei verið leyft af þess hálfu. 

Þar í viðbót lætur hann þá lygi fylgja, að þetta sé með vilja og vitund kauptaxtanefndar "Þróttar". 

Eins og ég er búinn að taka fram, samþykkir stjórn og kauptaxtanefnd ályktun sina kl. 7 síðdegis 21. september og tilkynnir hana samstundis, en kl. 8 sama kvöld sendir Jón Gunnarsson út til verkamanna, og að hann sjálfur segir í Einherja býður kr. 1,45, eða með öðrum orðum, fer ekki eftir samþykktinni. 

Ég get vel ímyndað mér, að Jón Sigurðsson hafi beðið hann að senda út, en sú beiðni hefir verið byggð á ályktun stjórnar og kauptaxtanefndar um kr. 1,50, því það má Jón Gunnarsson vita, að enginn verkamaður trúir því, að Jón Sigurðsson hafi gengið í berhögg við gjörða samþykkt kauptaxtanefndar. 

Í öðru lagi sést, að Jón Gunnarsson í skrifi sínu fer svívirðilega rangt með ályktunina, máli sínu til framdráttar, og virðist hún þó ekki svo áræðamikil, að hver sveinstauli gæti ekki farið rétt með hana ef viljann vantaði ekki. 

Ég hefi skrifað þessi orð í fyrsta lagi, til að leiðrétta ósannsögli Jóns Gunnarssonar, þar sem ég og aðrir félagar mínir eiga hlut að máli. 

Í öðru lagi, til að sýna almenningi sannleiksást Jóns Gunnarssonar. 

Í þriðja lagi, til að ráðleggja honum að fara varlega í það framvegis að stimpla einn mann, hvort sem hann heitir Pétur eða Páll, meðan hann getur ekki sjálfur farið rétt með eina litla fundarsamþykkt. 

Ætli Jón Gunnarsson sér að skýra oftar frá samþykktum forráðamanna verkamannafélagsins á sama hátt og í umræddri grein í Einherja, getur farið svo, að ósannindastimpillinn verði nokkuð þungur á honum sjálfum.

Siglufirði. 1. des. 1935
Gunnlaugur Hjálmarsson.

------------------------------------------------------------------

Neisti, 11. desember 1935
Nokkur orð til Jóns Gunnarssonar

Ég get verið stuttorður, þar sem svar J. G. til mín er að mestu endurtekning á fyrri grein hans.

Vilji J. G. halda því fram, að sömu skilyrði til andsvara og sami blaðakostur sé á Austurlandi og í Reykjavík, má hann fyrir mér, halda á lofti þeim kunnugleik sínum. - Hinu get ég trúað, að hann telji sig ekki varða um, hvað sé hetjulegt. 

Reginvilla J. G. er sú, að hann þykist vita það, sem ekki skeði á fundi stjórnar og kauptaxtanefndar, en ekkert hafa heyrt um það, sem skeði. 

Tilgangur minn með því að fara að skrifa um þetta mál var sá, að hnekkja þeim ósannindum, sem hann heldur fram um gjörðir kauptaxtanefndar. 

J. G. ber heldur ekki á móti því í svari sínu, að samþykktin sé rétt hjá mér, enda er hún svo kunn og svo margsannanleg, að ekki þýðir neitt fyrir J. G. né aðra að bera á móti henni. 

Það má bæta Því við, að daginn eftir að hún var gjörð, var allt karfamálið til umræðu á bæjarstjórnarfundi. 

Ég hef aldrei haldið því fram, að nokkuð hafi verið gjört í karfamálinu 27. september heldur 21., en þar sem J. G. færir þessa atburði til um viku í svari sínu, get ég ekki annað en látið mér detta í hug, að hann sé ekki vel viss á því sem hann er að skrifa um. Þar sem atburðir eru færðir til um viku, má búast við að fleiru sé vikið við. 

J. G. segir: "En það kom tilkynning til mín af þessum fundi strax og honum var lokið". 

Þetta er alveg rétt hjá honum, en ég verð að yfirlýsa það ósannindi að sú tilkynning hafi hljóðað upp á kr. 1.45. 

Á öðrum stað segir J. G.: "Og varð það úr að ég bað Guðmund Sigurðsson að grennslast eftir því hjá verkamönnunum, hvort þeir vildu vinna fyrir þetta kaup". 

Þetta var alveg rétt aðferð, hvora kauphæðina sem um var að ræða. því eð það var aðeins óþarfa áníðsla(!!) á verksmiðjustjórninni, að kalla hana saman að kvöldi dags, þegar hún var búin að þræla allan daginn fyrir sínum sultarlaunum, til þess að samþykkja kauphæðina, fyrr en fengin var vissa fyrir því, hvort verkamennirnir vildu vinna eða ekki.

Meining J. G. virðist vera sú, að koma því út, að sökin á þessari misþyrming fundarsamþykktarinnar sé eign Jóns Sigurðssonar. 

Þó ég eigi ýmsa merka punkta í því máli, tel ég mér ekki leyfilegt að fara út í það að sinni, að Jóni Sigurðssyni fornspurðum, því að ég tel víst að hann kjósi heldur sjálfum sér það hlutverk, að kveða niður draugagang Jóns Gunnarssonar um hann í þessu máli. 

á meðan ég er meðlimur Verkamannafélaginu "Þróttur", mun ég ekki láta það afskiptalaust, sé því misþyrmt á einhvern hátt.

Gunnlaugur Hjálmarsson.