Svar við spurningum Þóroddar

Erlendur Þorsteinsson. - Ljósmynd: Kristfinnur

Neisti, 13. ágúst 1942

Í 18 tölublaði "Mjölnis" beinir þú til mín fyrirspurnum í sambandi við grein, er ég reit um stækkun síldarverksmiðjanna. 

Þessum fyrirspurnum hefir nú reyndar verið svarað áður af þér og "Mjölni", en ég tel þó rétt að endurbirta þau svör, þar sem helst lítur út fyrir, að þú hafir þegar gleymt þessu. 

Þú segir í byrjun greinar þinnar, að ég eigi við Sósíalistaflokkinn, þegar ég segi "Kommúnistar". Þetta er alrangt. 

Í Sósíalistaflokknum eru bæði Kommúnistar og Sósíalistar, eins og þú hefir oftlega tekið fram. Þegar ég á við þig og þína líka, kalla ég ykkur réttu nafni, enda væri annað móðgun við þig, sem hefir marglýst því yfir, að þú teldir þér sérstakan heiður að því að vera Kommúnisti. Þó skal ég snúa mér að fyrirspurnunum. 

Þú telur að þú og aðrir Kommúnistar hafi síður en svo verið á móti stækkun ríkisverksmiðjanna, heldur beinlínis viljað hana. 

Nú skalt þú taka eftir, hvað þú og Mjölnir hafa skrifað um þessi mál. 

Í 13.-14. tölublaði Mjölnis er eftirfarandi:

".... í sambandi við stækkun hjá Ríkinu er það að segja, það er síður en svo æskilegt, að allar verksmiðjur, sem byggðar eru, séu settar undir stjórn Þormóðs og hans, líka.  Stjórn hans á Ríkisverksmiðjunum er að verða hneyksli ...," (Leturbreyting mín).

Í 17 tölublaði stendur þetta ma.:

",En, hvað er þá unnið við að ríkið.._eigi allar verksmiðjur? Það er eitt, er vinnst við það, ekki fyrir þjóðina, hún tapir. heldur fyrir miljónamæringana, sem hafa í hendi sinni ráð Ríkisverksmiðjanna. Þeir vilja einir fá að gína yfir síldariðnaðinum í landinu og útiloka nýja keppinauta" ... "En það mega þessir góðu herrar vita, að svona skemmdarstarfsemi verður ekki liðin til lengdar."

Sjálfur segir þú í grein þinni:

"....... skiptir það litlu máli fyrir hana, (þ.e. alþýðuna) hvort fyrirtækin eru rekin af  ríkinu eða einstökum bröskurum".

Auk þess er í 13.-14. tölublaði, ýmsar spurningar um það, hvort æskilegt væri að setja fleiri verksmiðjur undir stjórn Þormóðs og fleiri - og svarið verður eitt stórt NEI !! 

Ég held þú getir ekki talið neinum trú um, að ofangreind ummæli sýni vilja þinn til þess að stækka ríkisverksmiðjurnar; eða villt þú hjálpa milljónamæringunum til þess að gína yfir síldariðnaðinum?. 

Villt þú valda hneyksli með því að setja fleiri verksmiðjur undir stjórn Þormóðs og fleiri? Jafnvel þú getur ekki leyft þér svona tvöfeldni. 

Þá spyrð þú hvort nokkur trúi því, að þið!! Sósíalistar hafið ekki kært ykkur um að Rauðka yrði stækkuð? Þetta hefi ég aldrei sagt neitt um, ég sagði aðeins, að nú væri stækkun Rauðku aukaatriði. Þið Kommúnistarnir í Sósíalistaflokknum hafið margfullyrt, að það væri sama hver byggði verksmiðjurnar, bara þær kæmu.

Þar var engin undanskilin, heldur ekki "Rauðka". 

Þú sjálfur sendir ádeilugrein á ríkisstjórn fyrir amlóðahátt um lánsútveganir í sambandi við möguleika okkar á láni. Þú gerðir það í fullri óþökk fulltrúaráðsins og bakvið það, eftir því sem Áki hefur upplýst. 

Ég hefi aldrei heyrt það talið vænlegt til framkvæmda, að ráðast með svívirðingum á þá, sem sækja verður eitthvað til. Þú taldir meira virði að nota þetta mál til árása á pólitíska andstæðinga, heldur en að láta slíkir erjur hvíla um stund og koma málinu fram. 

Í þessu efni sannar það ekkert, þó að Áki Jakobsson hafi skrifað grein, sem birtist í Reykjavik tveimur dögum áður en mín grein hér á Siglufirði.

Ég get ekki ímyndað mér nokkurn mann, sem væri svo ósvífinn að halda því fram nú, að ekki hafi verið rangt að banna stækkun Rauðku 1939, en það segir ekkert um það, hvort það er aðal- eða aukanartriði að byggja Rauðku núna

Þá spyrð þú hvað ég hafi gert, sem formaður Rauðkustjórnar, til þess að fá leyfi nú fyrir byggingu Rauðku. Líka þessu, svarar Mjölnir raunar, í annarri grein: Fyrir mitt tilstilli var samþykkt tillaga til bæjastjórnir um að sækja um leyfi, sem nú hefir verið samþykkt í bæjarstjórn. 

Það er ekki mín sök, þótt dregist hafi samþykkt bæjarstjórnar, Það veist þú. En að undirbúningi stækkunar hefir verið unnið, t.d. með byggingu löndunartækisins og byggingu mjölhúss, sem framkvæmd verður í haust. 

Þegar ég kom heim s.l. vetur fyrir áramót, hafði bæjarstjórn fyrir tilstilli fyrrverandi bæjarstjóra Áka Jakobssonar og Ó.Hertervig, samþykkt að stórhækka leigu verksmiðjunnar til bæjarsjóðs. Ég mótmælti þessu og taldi tekjur hennar eiga fyrst og fremst að ganga til aukningar og endurhóta verksmiðjunnar sjálfrar. 

 Bæjarstjórn breytti síðan þessari ákvörðun sinni, með þeim árangri, að veiksmiðjan getur nú af eigin rammleik séð um fyrningu, framkvæmdir og endurbætur. 

Mikil er trú!! þín. Þóroddur, á gleymsku og eftirtektarleysi almennings, að þú skulir búast við því að hægt sé að halda því fram, að enginn Kommúnisti, sem þú vilt kalla Sósíalista, hafi haldið því fram "að bæjarrekstur sé kák" og til þess eins "að tefja fyrir framgangi sósíalismans á Íslandi". 

Þúsundir manna hlustuðu á predikun Katrínar Thoroddsen í útvarpi fyrir kosningarnar og hundruð manna á Áka Jakobsson á Bíófundi, er hann viðhafði þessi ummæli.

Hitt er rétt, að þau eru bæði Kommúnistar, en ekki Sósíalistar, svo að ef þú hefir haft það í huga, þegar þú skrifaðir grein þína, hefir þú sjálfsagt í þetta skipti, eins og oft áður, sloppið við að svitna, þó að þú hagræddir sannleikanum á þann hátt, sem þú ert vanur og þér hentar best.

Erlendur Þorsteinsson.