Handhafaskuldabréf “Rauðku”, að upphæð 500-þúsund krónur, eru boðin út þessa dagana.

Erlendur Þorsteinsson. - Ljósmynd: Kristfinnur

Neisti 30. september 1944

Bréf þessi verða að seljast strax. Siglfirðingar ættu að setja metnað sinn í að kaupa þau þegar upp, enda er það nauðsynlegt vegna annarra lána, sem með þarf til þess að koma Rauðku upp fyrir næstu síldarvertíð.  

Þessa dagana er verið að ganga frá útboði á 500 þúsund króna handhafaskuldabréfaláni,sem boðið verður út hér i Siglufirði og notað verður til síldarverksmiðjunnar „Rauðku". 

Lán þetta er fyrst og fremst tryggt með tekjum og eignum verksmiðjunnar ­sjálfrar, en þar að auki með bæjarábyrgð. Eru bréfin sama og peningar til greiðslu bæjargjalda, eftir því sem þau eru dregin út. Það er afar hagstætt fyrir alla að kaupa þessi bréf. Vextir af þeim eru hærri en algengt er, eða 4½%. 

Lánið er aðeins til 15 ára, og þykir það fremur hagræði að hafa lánin stutt. Til samanburðar má geta þess, að lán, sem verið er um þessar mundir að bjóða út til byggingar verkamannabústaða, eru aðeins með 3% vöxtum. Styttra Lánið, sem er eins og Rauðkulánið til 15 ára, fæst því aðeins keypt, að þeir sem það kaupa, taki um leið allálitlega fúlgu af skuldabréfum, sem eru til miklu lengri tíma. 

Geta menn af þessu séð, hversu hagstæð þessi skuldabréfakaup Rauðkulánsins eru, þar sem um er að ræða sama tíma en 50% hærri vexti. 

Allur almenningur er óvanur verðbréfakaupum. Ef menn hafa eitthvað afgangs er venjulegt að leggja það inn í banka, inn á sparisjóðsbók, eða jafnvel geyma það heima hjá sér í seðlum. Ef skynsamlega er á haldið, er alveg eins öruggt og í flestum tilfellum hagkvæmara að kaupa skuldabréf, sérstaklega ef opinber aðili tæki að sér skráningu þeirra á hverjum tíma. 

Í þessu tilfelli, sem hér um ræðir, er það miklu hagstæðara að kaupa bréfin, heldur en t.d. að leggja peningana inn á sparisjóðsbók, þar sem vextir eru, eins og áður segir, 50% hærri. Kemur þá aðeins til álita hvort eins fljótlegt er að koma þessum verðbréfum í peninga og eins öruggt. 

Eins og áður segir eru bréf þessi, auk ábyrgðar fyrirtækisins, tryggð með bæjarábyrgð. Það mundi ekki þykja ólíklegt, að ef svo illa tækist til að ábyrgð bæjarins ekki þætti örugg, þá myndi bæði ríki og bönkum hætt. Borgararnir sjálfir verða að greiða til bæjarins það sem hann þarfnast til reksturs. 

Meðan þeir hafa gjaldmiðil, sem er eins góður til greiðslna eins og peningar, ættu þeir að vera tryggir um að fá sama verðgildi fyrir bréfin eins og peninga á sparisjóðsbók. En auk þess ætti það að vera metnaðarmál hverjum Siglfirðingi, að Rauðka kæmist sem allra fyrst til starfa. Það er ekki annað vitað en að það sé eindreginn vilji meginþorra bæjarbúa, að verksmiðjan komist sem fyrst til starfa. 

Nú gefst tækifæri til þess að sýna þann vilja í verki. Um leið eykur það vissu annarra lánveitenda fyrir því, að Siglfirðingar sjálfir telji rétt að starfrækja verksmiðjuna. 

Það virðist alveg tilvalið fyrir þá, sem geta, að kaupa þessi bréf og gefa ungum börnum sínum, annaðhvort í tannfé, afmælisgjöf eða jólagjöf. Bréf þessi eru handhafabréf, og geta því gengið manna á milli kaupum og sölu, eftir því sem með þarf á hverjum  

Með vöxtum og vaxtavöxtum mun upphæðin allt að því tvöfaldast á 15 árum. Nú verður það ekki nema nokkur hluti bréfanna, sem stendur svo lengi. Lánið verður greitt á næstu 14 árum frá 1946 að telja, eða einn fjórtándi hluti árlega, þannig að 1947 fá þeir sín bréf greidd, sem verða fyrir því, að þeirra númer kemur upp, þegar hlutað verður um bréfin hjá lögreglustjóranum hér. 

Bréfin eru seld á skrifstofu “Rauðku”, Útvegsbankanum, Sparisjóðnum, Bæjarskrifstofunni og Bæjarfógetaskrifstofunni. Auk þessa geta þeir sem vilja, snúið sér til stjórnarnefndar Rauðku um kaup og upplýsingar. Í stjórninni eru Guðmundur Hannesson, Erlendur Þorsteinsson, Aage Schiöth, Sveinn Þorsteinsson og Gunnar Jóhannsson. Þá mun framkvæmdastjóri verksmiðjunnar, Snorri Stefánsson, einnig aðstoða menn eftir þörfum og veita nauðsynlegar upplýsingar. 

Siglfirðingar, bregðist vel við. Kaupið handhafaskuldabréf “Rauðku” og kaupið þau fljótt,og strax.Siglufirði, 26. september 1944.

Erlendur Þorsteinsson.