Ýmsar smáfréttir - 1946

Einherji 2. janúar 1946 

Lýsisgeymarnir við götu.

Ég er Einherja algerlega sammála um óhæfu þess að hafa lýsisgeyma S.R. við götu (Túngötu), og þakka Einherja fyrir að finna að því. 

Að hafa þá á lóð bæjarins við flóðgarðinn er að sjálfsögðu miklu betra. En allra best tel ég að hafa lýsisgeymana fyrir neðan vatnsþróna uppi í hlíð. 

Leiðslan yrði að vísu við það lengri og dýrari, en lóðin sem bærinn á, gæti bærinn látið fyrir ekkert, a.m.k. gæti þró uppi í hlíð ekki kostað nema einhverja smámuni. Það er ekki verra að hafa lýsisgeymana uppi í hlíð, en á Skagaströnd að hafa þá uppi á Spákonufellshöfða. 

Að sjálfsögðu hefi ég engan tillögurétt gagnvart bygginganefnd S.R. um þetta, en sem borgari í bænum finnst mér, að við mættum leggja orð í belg og ég tel það illa farið að bæjarstjórn skuli láta mál þetta afskiptalaust, sem hún getur vel ráðið við með framtíðarskipulag bæjarins fyrir augum. Hin nýja bæjarstjórn má ekki sofa á verðinum í þessu máli. 

Siglfirðingur
-------------------------------------------------------

Siglfirðingur 5. janúar 1946 

Síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar - Rauðka - verður á næsta  ári stækkuð upp 10 þúsund mála verksmiðju. 

Alþingi samþykkti nýlega að heimila ríkisstjórninni að ábyrgjast 1,3 miljón króna lán til að greiða áfallinn byggingarkostnað og vegna stækkunar verksmiðjunnar. 

Hefir blaðið átt tal við framkvæmdastjóra Snorra Stefánsson, og formann verksmiðjustjórnar Aage Schiöth og hafa þeir tjáð blaðinu þessar gleðifregnir  eru þeir nýkomnir heim, frá, Reykjavík þar sem þeir hafa að undanförnu, unnið að undirbúningi þessarar stækkunar
----------------------------------------------------------

Einherji 10. febrúar 1946

Sósíalistar í Siglufirði vilja láta lýsisherslustöðina vera á Akureyri, ef marka má að nokkru ummæli þeirra fyrir kosningarnar. 

Eins og kunnugt er, samþykkti bæjarstjórn Akureyrar nú eftir kosningarnar með öllum atkvæðum, þar á meðal voru fulltrúar sósíalista, að vinna að því við Nýbyggingarráð og ríkisstjórn að fá lýsisherslustöðina byggða á Akureyri. 

Eftir þessu ættu sósíalistar hér í Siglufirði að vera á móti því, að lýsisherslustöðin yrði reist hér, af því að flokksmenn þeirra á Akureyri vilja hafa stöðina þar. 

Samanber ummæli sósíalista hér fyrir kosningarnar, þar sem að þeir héldu því fram, að Framsóknarmenn í Siglufirði væru á móti lýsisherslustöðinni hér af því að blaðið Dagur á Akureyri hafði mælt með því, að stöðin yrði þar. 

Stundum geta rangar getsakir haft óþægilegar afleiðingar og mun svo reynast hér fyrir sósíalista ef nokkuð má mark á taka, sem þeir hafa haldið fram.
-------------------------------------------------------------

Mjölnir 20. febrúar 1946

Síldarmjöl hækkar í verði. Hækkar sennilega milli 20 og 30 prc. 

Tilboð hefur nú borist frá hollensku stjórninni um það, að hún býðst til að kaupa 20.000 tonn af síldarmjöli fyrir verð, sem er 22% hærra en verið hefur. Er þetta magn svipað og fékkst úr allri síld Síldarverksmiðja ríkisins 1944. Sennilegt er, að fá megi ennþá hærra verð, því Norðmenn hafa selt síldarmjöl fyrir verð, sem er 38% hærra en verið hefur hér. 

Þetta eru gleðifréttir, því að þær benda til þess, að öðru jöfnu, að hrásíldarverð geti hækkað verulega. Þær benda einnig til þess, að fullyrðingar þeirra, sem halda því fram, að ekkert vit sé í neinni nýsköpun fyrr en búið sé að lækka kaupið, verði sér til skammar. Það er ekkert, sem styður þessar fullyrðingar. 

Markaðir eru nú áreiðanlega nógir fyrir vörur okkar fyrir sæmilegt verð. Það þarf bara að leggja meiri áherslu á, að afla markaðanna. 

Úr því hægt er að selja síldarmjöl, sem ekki er mannamatur, með svo góðri útkomu, þá eru ekki líkur til, að verr gangi með sölu á matvælum, sem nú er mest spurt eftir af öllu í Evrópu.
----------------------------------------------------------------

Mjölnir 3. apríl 1946 

Dauðaslys í SRP - verksmiðjunni.

Það sorglega slys vildi til um hádegisbilið í gær 2. mars, að Þorkell Jónsson, Háveg, féll í “tórinn” í þró SRP og beið bana af. Var hann niður í hólfi og var að moka inn í “tórinn" ásamt öðrum manni, mun Þorkell heitinn hafa fallið aftur á bak og lent samstundis í tannhjóli, sem þar er. 

Álitið er, að hann hafi dáið svo að segja samstundis. Þórarinn læknir kom svo að segja strax á staðinn, en þá var Þorkell andaður. 

Slys þetta er hið sorglegasta og bendir því miður til þess, að öryggisútbúnaður við verksmiðjurnar sé ekki í því ástandi, sem á að vera. 

Til dæmis mun tannhjólið, sem greip Þorkel heitinn hafa verið óvarið. Að svo komnu verður ekki meira um þetta sagt, en sjálfsagt verður látin fram fara rannsókn á þessu slysi, og þá um leið rannsakað hvernig er háttað um öryggisútbúnað í þróm S.R. og í síldarverksmiðjunum yfirleitt.
-------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 4. apríl 1946 

DAUÐASLYS Í S. R.

Maður fellur í “tórinn” og bíður bana samstundis. 

Það sorglega slys vildi til á þriðjudaginn var, rétt eftir hádegi. eða um klukkan 12:15, að aldraður maður, Þorkell Jónsson, féll í “tórinn” og beið bana samstundis. 

Síldarverksmiðjur ríkisins bræða nú fiskúrgang, og var Þorkell heitinn, sem er einn af þróarmönnum verksmiðjanna, að moka úrgangi úr því í “tórinn” sem flytur fiskbeinin inn í verksmiðjuna. 

Er haldið, að Þorkell hafi fest gaffal, sem hann notaði við vinnu sína í “tórinn” og hafi Þorkell er hann ætlaði að losa gaffalinn, fallið inn í “tórinn”.Þorkell Jónsson er ættaður úr Svarfaðardal, og hefur hann séð fyrir aldraðri móður sinni.
-------------------------------------------------------------------

Neisti 5. apríl 1946

DAUÐASLYS 

Það sorglega slys vildi til þann 2. apríl s.l., að Þorkell Jónsson verkamaður, Háveg 12, beið bana, þar sem hann var að vinna í SRP' verksmiðjunni. 

Nánustu atvik að slysinu, eru blaðinu ekki kunn, en Þorkell heitinn var að vinna í þró verksmiðjunnar, og féll inn í flutningsbandið í þrónni, sem var í gangi, og lenti hann þar í tannhjóli með þeim afleiðingum að hann andaðist næstum strax. 

Þorkell heitinn var ókvæntur, en bjó hjá systur sinni og manni hennar, ásamt aldraðri móður. Hið sviplega fráfall hans, er að vísu þungt og sárt, systur hans og öðrum ástvinum, en þyngst hlýtur það að leggjast á aldurhnigna móður, sem komin er yfir áttrætt, og sem nú hefur séð af annarri styrkustu ellistoð sinni, og góðum syni, sem móðurvonirnar voru bundnar við. 

Þorkell heitinn var vel látinn maður, og góður félagi í verkamanna samtökunum.
----------------------------------------------------------------  

Neisti 21. júlí 1946 

Tveir menn slasast við nýbyggingu S. R.

Það slys vildi til við nýbygginguna, laust fyrir hádegi í gær, að Hervin Guðmundsson, smiður, Guðmundur Jóhannesson, smiður Hólaveg 12, féllu úr um 10 metra hæð niður á götuna og meiddust allmikið. 

Voru þeir að vinna að byggingu grindverks undir mjölleiðara. Brotnaði þá borð er þeir stóðu á, féllu þeir niður á jörð. 

Ekki er með fullri vissu að hægt að segja hve meiðsli þeirra eru, en um alvarleg brot mun þó ekki að ræða, þó mun Guðmundur vera síðubrotinn. Voru þeir þegar fluttir á sjúkrahúsið.
---------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 27. júní 1946

Tveir menn slasast. 

Það slysi vildi til á fimmtudaginn var, að tveir af verkamönnum við Nýbygginguna, sem voru að vinna á um það bil 10 metra háum palli, féllu til jarðar við það, að pallurinn bilaði. 

Mennirnir voru Hervin Guðmundsson trésmíðameistari og Guðmundur Jóhannesson, báðir búsettir hér í bænum. Þeir voru þegar fluttir á sjúkrahúsið og við rannsókn þar kom í ljós, að nokkur rif í síðu Hervins höfðu brotnað og að báðir voru þeir mjög mikið marðir. 

Báðum mönnunum líður nú sæmilega eftir atvikum. Má það kalla mikið lán, að þeir hlutu ekki meiri lemstrarnir, eða bana af slíku falli sem þessu.
-------------------------------------------------------------------------

Mjölnir 31. júlí 1946 

Hinar nýju síldarverksmiðjur á Siglufirði og Skagaströnd hefja vinnslu næstu daga. 

Byggingu hinna nýju síldarbræðsluverksmiðja á Siglufirði og Skagaströnd er nú það langt komið, að búist er við, að vinnsla geti hafist næstu daga. 

Þá mun mikið á vanta, að verksmiðjurnar geti haft full afköst strax. Stjórn Síldarverksmiðju ríkisins hefur sent út tilkynningu til síldveiðiskipa um að fara með afla sinn til Skagastrandar, og hefur einn bátur þegar lagt þar upp 500 - 600 mál. Þegar nokkru meira af síld er komið þangað verður verksmiðjan reynd. Þá er gert ráð fyrir að reyna verksmiðjuna hér einnig í þessari viku. 

Bygginganefnd verksmiðjanna mun halda áfram að fullgera verksmiðjurnar þó vinnsla hefjist þar og lagfæra það, sem miður kann að reynast. 

Síldveiði hefur verið svo treg það sem af er veiðitímans, að gömlu verksmiðjurnar hafa ekki haft nægilegt hráefni, ennþá hefur því ekkert tapast, þó nýju verksmiðjurnar séu svo seint tilbúnar. 

En nú ætti að mega vænta þess, að síldveiðin glæddist, og er það gleðilegt, að verksmiðjurnar taki þá til starfa, jafnvel þó ekki sé nema að einhverju leyti.
-------------------------------------------------------------------

Mjölnir 28. ágúst 1946 

AFLAFRÉTTIR  

Hæsta skipið er “Dagný” með 14.307 mál 

Bræðslusíldaraflinn á öllu landinu nam s.l. laugardag á miðnætti 1.143.014 hektólítrum.
Á sama tíma var búið að salta alls 126.492 tunnur, þar a.f 91.731 tunna á Siglufirði.

Um svipað leyti í fyrra var búið að salta 47.303 tunnur, en 1944 um líkt leyti 26,620 tunnur.

Í fyrra um sama leyti höfðu verið bræddir 454.099 hektólítrar, 1944 á sama tíma 1.699.984 hektólítrar, en 1943 var bræðslusíldin uni líkt leyti 1.460,026 hektólítrar

BRÆÐSLUSÍLDARMAGN Á EINSTÖKUM STÖÐUM:

H.f. Ingólfur, Ingólfsfirði ...........52.336
H.f. Djúpavík........................ 57.923
S.R. Skagaströnd ......................9.355
S.R. Siglufirði....................... 345.827
S.R. Raufarhöfn.................... 230.922
S.R. Húsavík............................ 9.501
Rauðka, Siglufirði ..................135.639
H.f. Kveldúlfur, Hjalteyri......... 142.187
Dagverðareyri........................ 78.457
Krossanes .............................49.327
H.f. Síldarbræðslan, Seyðisfirði... 31.540