Niðursuðuverksmiðjan

Erlendur Þorsteinsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Neisti 4. janúar 1946

Mér hefur verið sagt að Þóroddur Guðmundsson hafi sagt á fundi, sem Sósíalistar héldu í Alþýðuhúsinu, að ég hafi komið í veg fyrir að Síldarverksmiðjur Ríkisins byggðu hér niðursuðuverksmiðju. Þetta eru tilhæfulaus ósannindi.

Að vísu er ógerningur að hrekja allar staðleysur, sem, Sósíalistar þyrla upp svona rétt fyrir kosningar um einstaka menn og málefni, en þar sem hér er um að ræða stórmál er alla bæjarbúa varðar, get ég ekki látið þessum ósannindum ómótmælt. 

Ég skal í stuttu máli rekja gang þessara mála og þau afskipti, sem ég hefi af þeim haft. 

Stjórn S.R. fól Dr.Jakob Sigurðssyni að rannsaka niðursuðu matvæla, sérstaklega síldar, í U.S.A. árið 1944. Er hann kom heim um áramótin 1944-1945 gaf hann stjórn S.R. skýrslu um þessar rannsóknir, og lagði jafnframt fram áætlun um niðursuðu og niðurlagningarverksmiðju og rekstur hennar. Þessar athuganir hafa nokkuð verið athugaðar t.d. hjá Nýbyggingarráði, sem taldi rétt að athugað yrði um möguleika á samvinnu eða þremur aðilum, sem sé Síldarverksmiðjunum, Síldarútvegsnefnd og Siglufjarðarkaupstað. 

Þetta mál er þó ekki fullrannsakað hjá Nýbyggingarráði enn, og er t.d. framkvæmdastjóri þess með athuganir á markaðsmöguleikum í U.S.A. 

Verksmiðjustjórn samþykkti með samhljóða atkvæðum að láta gera tilraunir s.l. sumar og voru þær gerðar af dr. Jakob Sigurðssyni og Ingimundi Steinssyni hér á Siglufirði. 

Þessar tilraunir gefa einungis niðurstöður um hæfni framleiðsluvörunnar en ekki framleiðslukostnað. 

Þessi mál hafa síðan nokkuð verið rædd af verksmiðjustjórn. Á fundi verksmiðjustjórnar í október var samþykkt með atkvæðum allra mættra meðlima verksmiðjustjórnar að láta fram fara á sumri komanda niðursuðu í allstórum stíl, og athuga möguleika á því, hvort hægt væri að framkvæma þetta í húsum Gránuverksmiðjunnar í Siglufirði og leita um það samkomulags við bæjarstjórn. 

Á þessum fundi var Þóroddur ekki mættur, en hafði farið sama dag til Skagastrandar, enda þótt hann vissi að þetta mál ætti að taka fyrir. Formaður verksmiðjustjórnar taldi hann samþykkan þessu. 

Síðan gerist ekkert í málinu fyrr en í nóvember, um það leyti, sem Þóroddar fékk frí frá þingstörfum vegna annríkis hér í Siglufirði. Þá afhendir hann formanni S.R. í Reykjavík tillögu um að stjórn S.R. útvegi sér þegar heimild Alþingis fyrir þriggja milljón, króna láni til þess að byggja niðursuðuverksmiðju. 

Engin greinargerð fylgdi tillögunni. Formaður verksmiðjustjórnar skýrði mér frá þessari tillögu í símtali. Ég sagði honum að hér væri um svo stórt mál að ræða, að ég teldi að það ætti að ætti að ræðast á fundi, og helst sem allra fyrst. Síðan hefi ég ekkert um þetta heyrt. 

Nú hefur Þóroddur verið hér í Siglufirði í 3-4 vikur, að sjálfsögðu við mikið annríki. Hér í Siglufirði er meirihluti verksmiðjustjórnar. Varaformaður Þormóður Eyjólfsson, ritari Þóroddar Guðmundsson og ég.

Þóroddur hefur ekki minnst á þessa tillögu við mig einu orði, því síður óskað eftir að ég styrkti hann í því að fá mál þetta tekið fyrir í stjórn S.R. Ég get þess vegna ekki séð alvöruna eða ákafann í að koma þessu máli á framfæri. 

Þeir sem hafa nokkra ábyrgðartilfinningu, geta varla búist við því, að um mál þetta sé greitt atkvæði í síma. Hér á að ráðstafa til langrar framtíðar miljónum króna, sem geta haft hina mestu þýðingu fyrir afkomu sjómanna og útgerðarmanna um land allt. Þess vegna þarf að athuga málið og rannsaka, og búa þannig um hnútana, að sem best samvinna allra þeirra aðila, sem hlut eiga að máli, geti orðið. 

Ég geri ráð fyrir, að Þóroddur hafi tilbúna rækilega greinargerð fyrir þessari tillögu sinni, þó að honum hafi ekki enn unnist tími til þess að koma henni til okkar hinna, sem erum í verksmiðjustjórn. Þóroddur veit það vel, að ég hefi verið því mjög hlynntur að komið yrði upp niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðju. 

En það má hann vita, að ég greiði ekki fyrirvaralaust og athugunarlaust atkvæði með milljónaframlögum, og ekki að heldur þótt kosningar séu fyrir dyrum.

Siglufirði, 12. des. 1945.
Erlendur Þorsteinsson

P. S. Síðan þetta var skrifað eru nú bráðum þrjár vikur. Ennþá hefur Þóroddur ekkert hreift þessu máli, en á líka mjög annríkt um þessar mundir. E.Þ.