Tekst Sósíalistaflokknum að fá byggða stóra niðursuðuverksmiðju hér næsta sumar?

Mjölnir 9. janúar 1946 

Eitt af því allra þýðingarmesta fyrir atvinnumál Siglufjarðar er stór niðursuðuverksmiðja. Þess vegna hafa sósíalista mjög beitt sér fyrir því máli og lagt kapp á að vinna því fylgi. 

Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hefur um langan tíma haft mál þetta til athugunar, haft mann á sinn kostnað í Ameríku til að kynna sér niðursuðu fiskafurða, og s.l. sumar látið gera tilraunir með niðursuðu á síld. 

Þá hefur og verið áætlaður kostnaður við að byggja niðursuðuverksmiðju, sem gæti afkastaá 48 þúsund dósum á dag. 

Þóroddur Guðmundsson og Áki Jakobsson atvinnumálaráðherra sem mestan áhuga hafa haft fyrir þessu máli, töldu, að best væri. að Síldarverksmiðjur ríkisins reistu og rækju svona verksmiðju hér á Siglufirði. 

En ýmsir aðrir hafa verið að stinga upp á að niðursuðuverksmiðjan yrði byggð af þremur eða fjórum t.d. SR, Fiskimálanefnd, Síldarútvegsnefnd  og ef til vill 

Siglufjarðarkaupstað. Það hefur þó reynst tafsamt að fá nokkurt samkomulag um þetta. og í haust var ekki sýnt, að neitt samkomulag gæti fengist um málið milli svo margra aðilja. 

Í haust kom stjórn SR saman til fundarhalda í Reykjavik og virtist þá eðlilegast, að hún tæki afstöðu til, hvort hún vildi, að SR byggðu verksmiðjuna á sinn kostnað, án þátttöku annarra aðilja. 

Málið var lauslega rætt, en á eina fundinum, sem Þ.G mætti ekki, er málið tekið fyrir og samþykkt að halda tilraunum áfram á Siglufirði næsta sumar. 

Eða m.ö.o. að reisa ekki verksmiðjuna á næsta sumri. Strax eftir þennan fund fóru tveir eða þrír verksmiðjustjórnarmeðlimirnir úr bænum, en Þ.E. líkaði mjög illa þessi afgreiðsla málsins og afhenti hann formanni verksmiðjustjórnar svohljóðandi  tillögu, sem hann óskaði eftir, að yrði afgreidd í verksmiðjustjórn: 

“Stjórn SR samþykkir að leita heimildar Alþingis til þess að mega reisa niðursuðuverksmiðju fyrir síldar og aðrar sjávarafurðir á Siglufirði er tæki til starfa á árinu 1947 með a.m.k. 1000 kassa afköstum á dag (48 dósir í kassa) og til þess að taka lán í þessu skyni, allt að þrjár milljónir króna með ríkisábyrgð." 

Erlendur og Þormóður setja fótinn fyrir málið. 

Sveinn Benediktsson formaður verksmiðjustjórnar kvaðst myndi geta fylgt þessari tillögu. 

Síðan kemur tillagan fyrir stjórnarfund, en þar sem þeir Erlendur og Þormóður voru komnir til Siglufjarðar þurfti að leita atkvæða þeirra í síma. 

Þegar það er gert hefur Erlendur allt á hornum sér; telur málið ekki nægilega undirbúið og ófært sé að afgreiða svo stórt mál nema öll verksmiðjustjórn sé samankomin á fundi til að æða það. 

Og svo virtist, sem Erlendur hafi talað bæði við Þormóð og Jón Þórðarson, sem staddur var á Hjalteyri, til að fá þá til fylgis við sjónarmið sitt. Það er að vísu rétt, að ekki lágu fyrir nákvæmir uppdrættir og nákvæm kostnaðaráætlun en málið var nægilega undirbúið til að biðja um þingheimild og á meðan gat svo verksmiðjustjórn haldið áfram nauðsynlegum undirbúningi undir framkvæmdir næsta sumar. 

En Erlendur og Þormóður  fengu málinu frestað í verksmiðjustjórn, þar með var sýnt, að ekkert yrði úr framkvæmdum næsta sumar, því verksmiðjustjórn kemur sennilega ekki saman fyrr en í febrúar eða mars, eða um það leyti, sem líður að þinglokum. 

Ákvörðun, sem þá yrði tekin um að leita þingheimildar komi því ekki til afgreiðslu á Alþingi fyrr en næsta haust. 

Allt þetta ætti Erlendi að vera ljóst, svo vitandi vits hefur hann sett fótinn fyrir þetta mál og hindrað, að niðursuðuverksmiðjan verði byggð hér næsta sumar á vegum SR.

Erlendi er líka ljóst, að aðfarir hans verða ekki vel liðnar meðal Siglfirðinga, þess vegna er hann að reyna að afsaka sig í klaufalega samsettri þvættingsklausu í síðasta tölublaði Neista og kvartar um að ekki hafi fylgt tillögu Þórodds, rökstuðningur og greinargerð. 

Maðurinn er sem sé ekki ennþá sannfærður um nauðsyn þess að byggja hér niðursuðuverksmiðju. Hinsvegar mun hvorki Þóroddur né aðrir áhugamenn í þessu máli hirða um að sannfæra Erlend héðan af. 

“Klaufaskapur” Þórodds í málinu. 

það eru reyndar fullar líkur til þess, að það sé fyrir klaufaskap Þórodds, að ekki tókst að fá Erlend til að vera með málinu í stjórn SR. Þegar tekið er tillit til hve frámunalega hégómlegur maður Erlendur er, eins og flestir gervipólitíkusar kratanna, þá er sennilegt að Þóroddi hefði getað fengið Erlend inn á málið, með því að fá hann sjálfan til að flytja tillöguna einan, svo hann hefði tækifæri til að hæla sér af því á eftir, að hann hefði haft forgöngu í málinu. 

Hefði Erlendur haft aðstöðu til þess, eru miklar líkur til að hann hefði verið áhugasamur um að koma því fram þrátt fyrir, að bersýnilegt er orðið, að honum er sama um, hvort verksmiðjan verður byggð á næsta sumri eða ekki. 

Þar sem kunnugt er, að Þóroddur hefur einmitt oft notað sér þannig hégómaskap kratanna til að koma fram góðum málum í bæjarstjórn, verður það að teljast klaufaskapur af honum að reyna ekki að beita þessu ráði við Erlend í verksmiðjustjórninni. 

Annars ber þess auðvitað að gæta, að líklega skiptir litlu máli hvar þessi gervipólitíkus er, sem er áhrifalítill piltungur í áhrifalitlum flokki. 

Málið tekið upp á nýjum grundvelli. 

Þegar stjórn SR var búin að fresta tillögu Þórodds og þar með slá föstu, að SR byggðu ekki niðursuðuverksmiðjuna á næsta ári, réðu sósíalistar ráðum sínum um, hvað gera bæri. 

Að samkomulagi varð svo, að Áki Jakobsson atvinnumálaráðherra legði fram á Alþingi frumvarp til laga um, að ríkisstjórnin byggði niðursuðuverksmiðjuna. Sjávarútvegsnefnd neðri deildar Alþingis flytur nú frumvarp þetta eftir beiðni atvinnumálaráðherra og er það svohljóðandi: 

389. FRUMVARP TIL LAGA um síldarniðusuðuverksmiðju ríkisins. Frá sjáfarútvegsnefnd. 

1. grein. 

Ríkisstjórninni er heimilt að reisa og reka á Siglufirði, verksmiðju til þess  sjóða niður og leggja síld í dósir.  Til þess að standast kostnað af byggingu verksmiðjunnar heimilast ríkisstjórninni að taka allt að 3 milljón króna lán.

2. grein 

Tilgangur verksmiðjunnar er að hafa forystu um niðursuðu og niðurlagningar síldar í dósir með það fyrir augum að miðla reynslu og þekkingu á   þessu sviði til annarra      slíkra verksmiðja sem reistar kunna að verða í landinu. 

3. grein. 

Ríkisstjórninni heimilast að taka eignarnámi lóðir, hús og önnur mannvirki, sem nauðsynleg eru til byggingar verksmiðjunnar samkvæmt 1. grein        

4. grein. 

Nánari ákvæði um rekstur og stjórn verksmiðjunnar, svo og um annað, er þurfa þykir,skulu sett með reglugerð. 

5. grein. 

Lög þessi öðlast þegar gildi. 

Vonandi sýnir Alþingi þann skilning og viðsýni, að frumvarp þetta nái fram að ganga á þessu þingi, svo hægt verði að byggja verksmiðjuna næsta sumar. 

Allur Sósíalistaflokkurinn á þingi stendur með málinu, þá er vitað um fleiri þingmenn, sem eru því fylgjandi, en vilji nú Erlendur eitthvað bæta fyrir aðgerðir sínar í þessu niðursuðuverksmiðjumáli, ætti hann að vinna að því að kratarnir greiði atkvæði með því á þingi. - 

Tryggi Erlendur það að allir kratarnir greiði atkvæði með málinu á Alþingi, verða menn hér sjálfsagt fúsir til að gleyma tvískinnungshætti hans og óheilindum í málinu hingað til.