Þóroddur og Rauðka

Einherji 12. janúar 1946

Í síðasta blaði Mjölnis er Þóroddur með ósannindavaðli að svívirða fógeta útaf Rauðku sem festum Siglfirðingum, líka mörgum flokksmönnum Þórodds kemur saman um, að hafi unnið með kappi og hyggindum, það svo, að hann fékk, án þess honum væri falið það, leyfi ríkisstjórnarinnar til þess að leyfa (ekki aðeins 5000 mála Rauðku, sem áður var búið að leyfa), heldur 10 þúsund mála Rauðku og samþykkti bæjarstjórn það og Rauðkustjórn. 

Af gjörðabók stjórnarinnar sést, að allir hafa verið jafnan sammála í málum þeim, er voru á dagskrá og nokkru máli skiptu, líka fulltrúi kommúnista. 

Fór samvinnan fram með ágætum milli allra. Farin var sú leið, að flokksmenn hvers pólitísks flokks í nefndinni fjölluðu um Rauðkumálið við sína flokksmenn og 

fulltrúa síns flokks. Var talið að það myndi gefast betur en að formaður - hver sem væri - talaði við aðra en sína flokksmenn. Þetta kallar Þóroddur, að gengið hafi verið fram hjá sínum flokki í málinu af formanni. 

Er þetta því auðsæ lygi. Auk þess hefur sá, er þetta ritar það eftir formanni Rauðku, að hann hafi átt tvisvar tal um Rauðkumálið við Þórodd og mág hans Áka, sem nú er orðinn ráðherra og að sér hefði verið ljúft að tala við þá oftar um málið eftir ástæðum og sérhvern þeirra flokksmanna. En formaður Rauðku átti líka tal við menn úr öllum stjórnmálaflokkum um málið. 

Bæjarfógeti er ekki kunnur að því að geta ekki átt kurteist samtal um mál, sem hann er að berjast fyrir, við pólitíska andstæðinga, Þótt þeir væru honum ósammála í málinu, hvað þá heldur, er þeir voru honum sammála í málinu. 

Þessu lýsti bæjarfógeti yfir á fundi, og allir, sem þekkja bæjarfógeta vita, að slíkt er satt, og að þess má vænta um hann bæði í þessu máli og öðru, enda á svo að vera. Hvers vegna er Þóroddur að ljúga svona ólíklega? Hyggur hann það meðmæli með sér í bæjarstjórnarkosningunum? Siglfirðingar þekkja bæði bæjarfágeta og Þórodd, því ver fyrir Þórodd. 

Þá segir Mjölnir, að bæjarfógeti hafi sótt fast að verða formaður í Rauðkustjórn. Þóroddur ætti að spyrja þá meðstjórnarmenn bæjarfógeta, þá Svein Þorsteinsson og Schiöth að því. 

Þeir myndu segja annað, en þeir einir vita. Hann sótti það svo fast, að hann kaus annan (Schiöth) fyrir formann og sagðist skyldi styrkja hann og styðja til formennskunnar eftir því, sem hann gæti. 

Þegar Schiöth óskaði eftir að fá bæjarfógeta með sér suður til Reykjavíkur, til þess að aðstoða sig þar í Rauðkumálunum, lofaði bæjarfógeti honum að fara með honum. Þegar það fékkst ekki að þessir 2 væru sendir suður lagði Schiöth niður formennsku og bæjarfógeti var kosinn formaður. 

Skammast Þóroddur sín ekki fyrir að skrökva svona? 

Hitt mega allir Rauðkustjórnarmenn - líka fulltrúi kommúnistanna - eiga, að þeir unnu af alefli og studdu formanninn í starfi hans. Hefir bæjarfógeti lýst því áður yfir. Mun fulltrúa kommúnista hafa þótt nóg um áróður Þórodds móti bæjarfógeta og þótt af litlu viti gjört, a.m.k. voru formannsskiptin það. Minna þau á ummæli, sem höfð eru eftir Sjálfstæðismanni miklum og stuðningsmanni Rauðku í Reykjavík, er hann heyrði, að skipt væri um formann í Rauðku. 

“Eigi þykir viturlegt að skipta um hershöfðingja meðan á orrustu stendur.” Þar við bætist, að þessi formannsskipti eru af dómsmálaráðuneytinu talin og úrskurðuð ólögleg." 

Allt þetta uppsteyt Þórodds í Rauðkumálinu var til þess gert að koma mági hans í Rauðkustjórn, og er þá varla - ekki einu sinni fyrir flokksmenn hans - hægt að taka hann alvarlega í Rauðkumálinu.

Annars er Þóroddur persónulega og fjárhagslega interesseraður í svo mörgu, að ólíkt er foringja fátæks verkamannaflokks. Hefir margur verið kallaður braskari fyrir minna. 

Einherji hefði nú ekki verið að minnast á lygar Mjölnis út af Rauðku, sem snerti einstaka menn, nema af því, að um leið er verið að gefa í skyn, að Framsóknarflokkurinn hafi í Rauðkumálinu verið áður mótfallinn endurbyggingu Rauðku, en það eru ósannindi og lygaáróður. 

Í það eina skipti, er bæjarstjórn leitaði um vilja almennings í því máli og leitaði undirskrifta um málið, skrifuðu allir Framsóknarmenn í Siglufirði undir áskorun 1939 um, að ríkisstjórnin leyfði bænum að endurbyggja Rauðku, allir nema Þormóður og 4-5 Framsóknarmenn aðrir. Bæði bæjarfógeti og allir aðrir Framsóknarmenn voru með endurbyggingunni og skrifuðu undir áskorun til ríkisstjórnarinnar, þótt verið sé að ljúga því gagnstæða upp á Framsóknarmenn. 

Þessu til enn frekari sönnunar má benda á samþykktir í fulltrúaráði Framsóknarflokksins, sem hljóðar þannig:

“Fundur haldinn í fulltrúaráði Framsóknarmanna 30/5 1939 samþykkir að skora á ráðherra Framsóknarflokksins, að þeir beiti sér fyrir því, að ríkisstjórnin veiti nú þegar Siglufjarðarkaupstað leyfi til byggingar síldarverksmiðju á svokölluðum Rauðkugrunni í Siglufirði.”

Þetta er sannleikurinn um fyrri afstöðu Framsóknarflokksins í Siglufirði til endurbyggingar Rauðku. 

Það sem Þormóður hinsvegar síðan hefir gert í málinu, o.fl. málum, er góð skýring á afstöðu Framsóknarflokksins í Siglufirði, til hans nú og síðustu viðskipta flokksins við hann. 

En persónurnar eru aukaatriði, aðalatriðið er flokkurinn sjálfur og málefni hans. Siglfirðingar góðir! Málefnum flokksins kynnist þið best í stefnuskrá flokksins, sem birt var í Einherja fyrir nokkru. 

Lesið hana vandlega, og er þér kynnist henni, munið þér finna, að vert er að berjast fyrir hugsjónum hennar. frjálslyndi og trú á framtíðina. 

Fulltrúaefni flokksins munu ekki svíkja flokkinn með því að svíkja stefnuskrána. Stefnuskráin er auk þess svo frjálslynd og framsækin, að frjálslyndir og framsæknir utanflokkamenn geta fylgt henni OG FYLGJA.