Lýsisherslustöðin

Neisti 24. janúar 1946 

Seinasti Mjölnir er að reyna að eigna atvinnumálaráðherra Áka Jakobssyni þann undirbúning, sem fram hefur farið á rannsókn að byggingu Lýsisherslustöðvar. - Þetta, eins og margt annað, sem þessir góðu menn halda fram um þessar mundir er alrangt. 

Það var Finnur Jónsson núverandi dómsmálaráðherra, sem flutti þingsályktunartillögu um rannsókn og undirbúning að byggingu herslustöðvar fyrir síldarlýsi. Og fékkst þessi tillaga samþykkt. 

Þetta mál hafði þegar nokkuð verið rannsakað af prófessor Trausta Ólafssyni og Jóni Gunnarssyni fyrrverandi verksmiðjustjóra.

Samkvæmt nýsköpunarloforðum núverandi ríkisstjórnar bar henni skylda til þess að athuga þetta mál nánar.

Hefði verið sjálfsagt og eðlilegt að Nýbyggingarráð hefði fengið mál þetta til nánari athugunar. Atvinnumálaráðherra fannst hinsvegar eðlilegra að sérstakur maður færi utan til þessara rannsókna, og var ferð hans að miklu leyti kostuð af Síldarverksmiðjum ríkisins.

Eftir því sem Mjölnir segir virðist tilgangur ráðherrans aðeins hafa verið sá að reyna með þessu að eigna sér málið til pólitísks ávinnings fyrir sig og flokk sinn. Það er auðvitað hin mesta fjarstæða, að hann geti það, og einungis til þess að hleypa pólitískri togstreitu að þessu mikilsverða velferðarmáli íslensks sjávarútvegs.

Það er þó ennþá fráleitara fyrir kommúnistana hér í Siglufirði að reyna að nota þetta mál til þess að sníkja á því atkvæði við þær bæjarstjórnarkosningar, sem standa fyrir dyrum.

Þetta mál verður aldrei leyst til ávinnings fyrir Siglfirðinga, nema allir flokkar verði sammala um það og vinni að því í sameiningu. Þetta er stórmúl, sem þarf samvinnu allra bæjarbúa. Það er því pólitískt óþokkaverk, að vera að telja mönnum trú um, að aðeins kosningasigur kommúnista geti komið því í höfn.

Landsmenn allir hafa fylgst svo með stjórn kommúnista á fjármálum þeirra félaga, sem þeir hafa haft forystu í undanfarið, að það eru mestu líkindi til þess, að það gæti orðið til þess að tefja fyrir byggingu lýsisherslustöðvar í Siglufirði, ef að kommúnistar fengju hér mikil áhrif við þær kosningar, sem standa fyrir dyrum.

Sporin hræða. Það er ekki nóg fyrir kommúnistana að gala hér. Þeir þurfa traust ráðandi manna þjóðfélagsins til þess að þeim verði trúað fyrir slíku stórfyrirtæki, sem hér er á ferðinni. Það hafa þeir ekki. Þess vegna eiga þeir engan kost að ráða neinu einir um þetta mál eða önnur stærri.