Óheilindin í Rauðkumálunum

Aage Schiöth - Ljósmynd: Kristfinnur

Siglfirðingur 26. janúar 1946

Uppistaðan í ræðu annars fulltrúa Alþýðuflokksins á borgarafundinum á mánudaginn var upplestur úr Alþýðublaðinu og Neista um kaupfélagsmálin og Rauðku. Var hann margorður um óheilindin í þessum málum og komst að þeirri fáránlegu niðurstöðu, að Rauðkustjórn mundi hafa “samþykkt 130 þúsund króna víxil fyrir Falkur-útgerðina” o.s.frv. 

Fulltrúinn hafði með öðrum orðum engan skilning á þeim mun, sem er á því að samþykkja og ábekja víxil og verður slíkt vægast sagt að teljast lélegt veganesti fyrir þann, sem býðst til að fara með umboð bæjarins næstu 4 ár. 

Hitt er svo rétt, að óheilindin eru víða í þessum málum sem öðrum og er það hið erfiðasta hlutverk almennings að dæma í þessum málum sem öðrum. Til þess þarf hann að fá upplýsingar sem ábyggilegar eru. Eftirfarandi tillaga. sem Erlendur Þorsteinsson flutti á stjórnarfundi Rauðku í marsmánuði 1944 getur skýrt eitt og annað um heilindi og óheilindi stjórnarmeðlima Rauðku: 

  1. Að panta nú þegar allt efni, sem þarf til endurbyggingar verksmiðjuhússins og síldarþróar, svo sem sement. steypujárn, uppslátt, timbur o.fl. og ennfremur að gera þegar ráðstafanir til að afla nægilegs innlends efnis, sands og matar.
  2. Að gefa út handhafaskuldabréf, að upphæð 4,1/2, milljón og séu bréfin 50-5.000 krónur að upphæð. Bréfin verði tryggð með ábyrgð Siglufjarðarkaupstaðar og auk þess 1.veðrétti í verksmiðjunni. Vextir 4,1/2% og greiðist bréfin upp á næstu 15 árum o.s. frv. 

Þessi tillaga er eftirtektarverð, í fyrsta lagi vegna þess, að í henni er gert ráð fyrir, að panta þegar efni o.a. til byggingarinnar áður en nokkur vissa er fengin fyrir því, hvort fjáröflunarleið þessi er fær eða ekki. 

Í öðru lagi vil ég benda á, að flutningsmanni hlaut að vera það ljóst af reynslu undanfarinna ára, að fjáröflunarleið þessi var fyrir­fram dauðadæmd. - Var hér verið að sýnast, voru þetta óheilindi eða heilindi? 

Síðustu daga hefir staðið yfir lántaka vegna stækkunar Rauðku upp í 10 þúsund mála afköst að upp. hæð kr. 1,3 milljónir. Við lántöku þessa þurfti undirskrift Rauðkustjórnar og bæjarstjórnar undir skeyti til Reykjavikur, og stóð ekki á undirskrift neinna þessara aðilja nema Erlendar Þorsteinssonar.

Hann neitaði að undirrita skeytið.

Voru þetta heilindi? 

Schiöth