Hvar værum við stödd ef SR`46 hefði ekki verið byggð?

02-25 Mjölnir 25. febrúar 1948.

Síldveiðarnar

Margt bendir til, að síldveiðarnar í vetur séu nú brátt á enda. Lítil síld hefur veiðst að undanförnu, þrátt fyrir sæmilegt veiðiveður, enda mörg af skipunum að hætta og fara á þorskveiðar. 

Fyrir nýár voru brædd hér af haust- og vetrarsíld 272 þúsund mál. Síðan á nýári hafa verið brædd um 500 þúsund mál. 

Gera má ráð fyrir, að síldarmagnið, sem hér verður brætt frá úramótum verði um 650 þúsund mál, eða samtals brædd haust- og vetrarsíld rúm 900 þúsund mál. 

Af þessu magni mun S.R.'46 hafa brætt fyrir áramót 144 þúsund mál, eftir áramót og til 23. febrúar 256 þúsund mál, eða meira en helming allrar þeirrar vetrar- og haustsíldar, sem hingað hefur komið. 

Afköst nýju verksmiðjunnar hafa verið með afbrigðum góð eftir nýár, og hefur verksmiðjan reynst vel að öllu leyti. Munu fáar síldarverksmiðjur hafa verið eins fljótar að komast upp í full afköst sem SR46. 

Vitanlega tekur það alltaf töluverðan tíma að samkeyra hinar ýmsu vélar síldarverksmiðja, þar til hægt er að búast við fullum afköstum, og við allar verksmiðjur, hvort sem um er að ræða síldarverksmiðjur eða aðrar, hljóta að koma í ljós ýmsir byrjunarörðugleikar. 

Frá því fyrsta, að hafin var bygging SR'46 og verksmiðjunnar á Skagaströnd, hefur ekki linnt á rógi og svívirðingum og álygum af hendi afturhaldsins á Áka Jakobssyni, sem beitti sér fyrir því í fyrrverandi ríkisstjórn, að verksmiðjurnar væru byggðar Sömuleiðis var Nýbyggingarnefndin hundelt og ofsótt fyrir störf sín í sambandi við verksmiðjubyggingarnar. 

Áka Jakobssyni var t.d. kennt um það, þegar mjölskemman hrundi í fyrra, þó allir vissu, að hrun hennar orsakaðist fyrst og, fremst vegna ófyrirgefanlegs trassaskapar Sveins Benediktssonar og co, sem ekki vildu láta hreinsa snjóinn burt af þakinu, og létu sprauta vatni í snjóinn á þaki hússins, en sem orsakaði aftur á móti, að þyngsli á þakinu jukust að miklum mun. 

Það væri efni í marga dálka grein í Mjölni að skrifa um allar þær lygar, sem búið er að bera á Áka og nýbyggingarnefndina í sambandi við þessar. nýju verksmiðjur. Það er varla sá glæpur til, að hann hafi ekki verið borinn á þessa aðila, ýmist undir rós eða með berum orðum. 

Síðar munu þessi mál verða rifjuð upp almenningi til fróðleiks. Síldarbræðslan í haust og vetur hefur sannað það, að allt kjaftæðið um, að SR'46 væri ófær til síldarbræðslu eru staðlausir stafir, og vegna þess, að Áki bar gæfu til, þrátt fyrir harða andstöðu Sveins Ben og co, að fá verksmiðjuna byggða, var hægt í vetur að bræða hundruð þúsunda síldarmála, sem annars hefði ekki verið brædd, að minnsta kosti ekki í verksmiðjum SR á Siglufirði.