Síldveiðibannið er þáttur í hrunaðgerðum ríkisstjórnarinnar

Mjölnir 10. mars 1948 

Sú afsökun ríkisstjórnarinnar og meirihluta stjórnar SR fyrir síldveiðibanninu, að nú þegar þurfi að stöðva allar síldarverksmiðjurnar til þess að standsetja þær fyrir sumarið er rökleysa og þvaður, borið fram til að blekkja þá, sem ekki þekkja til síldarvinnslu. 

Með stöðvun síldveiðanna hefur hrunstjórnin enn einu sinni sýnt hug sinn til almennings i landinu. 

Hún er enn ein sönnun þess, að valdhafarnir vilja ekki góða afkomu og mikla atvinnu í landinu, og um leið þess að barlómur þeirra um gjaldeyrisvandræði, sem hefur verið helsta röksemd þeirra fyrir því, að stöðva verði margháttaðar framkvæmdir í landinu, svo sem iðnað, byggingar o.fl., er ekki borin fram af neinni alvöru og umhyggju fyrir afkomu þjóðarinnar, heldur aðeins þvaður, sett fram i blekkingarskyni. 

Sú afsökun þeirra, að nú þegar þurfi að stöðva verksmiðjurnar til þess að standsetja þær undir sumarið, er borin fram í blekkingarskyni, og verður það öllum, ekki einungis Siglfirðingum, heldur öllum landslýð, ljóst við nánari athugun. 

SR'46 er í fyllsta lagi til vinnslu, og þótt setja þurfi olíukyndingu við tvo þurrkara, er það ekki nema í hæsta lagi 3ja vikna verk að koma þeim fyrir. Sér hver heilvita maður, að ekki er ástæða til að stöðva vinnslu í henni þrem til fjórum mánuðum áður en hægt er að gera sér vonir um nokkurn síldarugga til bræðslu í henni. 

Mun hún nú vera búin að bræða um helming þeirrar síldar, sem borist hefur hingað í vetur, eða a.m.k. 480 þúsund mál af tæpum 900 þúsund, sem borist höfðu hingað um síðustu helgi. Hefur bræðsla í henni aldrei gengið eins vel og nú seinustu vikurnar. Eru miklar líkur til þess, að hún hefði ein getað haft undan þeim 40 skipum, sem ætluðu að halda áfram veiðum í Hvalfirði, þegar bannið kom til. 

Þá eru verksmiðjurnar við Faxaflóa, svo og Fiskiðjuver ríkisins, sem hefðu getað haldið áfram vinnslu, ef á hefði þurft að halda. En sú vinnsla hlýtur að stöðvast um leið og tekið er fyrir bræðsluna hjá SR. Veiðarnar stöðvast þá óhjákvæmilega. 

Þá eru ótaldar aðrar verksmiðjur, sem til mála hefðu getað komið, svo sem síldarverksmiðjan á Skagaströnd, verksmiðjan á Seyðisfirði, svo og Rauðka, sem hefði sjálfsagt verið fáanleg til vinnslu nú í vetur, ef leitað hefði verið eftir því af hálfu ríkisstjórnarinnar í tíma. 

Og loks spyrja menn: 

Hvaða vit er í því að stöðva mikla síldveiði nú vegna síldarvertíðarinnar nú í sumar? Hvaða tryggingu hefur ríkisstjórnin og stjórn SR fyrir því, að í sumar verði svo mikil síldveiði, að þörf verði allra síldarverksmiðja norðanlands til þess að anna vinnslu hennar? 

Er þá gengið út frá þeirri röksemd þessara aðila sjálfra um það, að gera þurfi við allar verksmiðjurnar, sem reyndar er rökleysa. 

Hefur ríkisstjórnin yfirleitt nokkra tryggingu fyrir því, að nokkur síld að ráði veiðist hér í sumar? 

Gamalt máltæki segir, að betri sé einn fugl í hendi en tíu í skógi, en blessuð ríkisstjórnin okkar virðist vera á annarri skoðun. Þótt menn geri sér vonir um góða síldarvertíð í sumar, er það ekki næg ástæða til þess að hætta við góða vertíð nú. 

Fáar atvinnugreinar eru eins mikilvægur þáttur í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og síldveiðin. Nú er verð á síldarafurðum hærra en nokkru sinni fyrr, og hefur stjórn SR verið boðið 140 £ í lýsistonnið og í mjöltonnið 48 £ 

Var þetta áður en breska samninganefndin kom, en þá brá svo einkennilega við að ríkisstjórnin svipti verksmiðjustjórnina umboði til að selja þessar afurðir. 

Er lítill efi á því, að hún ætlar sér að selja Bretum það, líklega við miklu lægra verði. Er hrunstjórninni vel trúandi til að selja það við smánarverði nú eins og í fyrra, þegar hún seldi lýsið á 95 £ og mjölið á 31 £. 

Þá er enn eitt athyglisvert atriði. Hvaða vit er í því, frá þjóðhagslegu sjónarmiði, að hætta framleiðslu vöru, sem allstaðar er auðseljanleg við hagkvæmu verði, eins og síldarafurðirnar eru, og senda bátaflotann í stað þess til öflunar á fiski, sem ekki virðist eins auðvelt að selja, þótt vitanlega standi einnig opnir ágætir markaðir fyrir hann, ef vel væri á málunum haldið. 

Með þessu uppátæki er einnig verið að stofna til atvinnuleysis í Reykjavík, og sjálfsagt hefur löngunin til að gera það verið mjög þung á metunum, þegar stöðvunin var afráðin. 

Ríkisstjórnin og skálkaskjól hennar, fjárhagsráð, voru búin að koma kyrkingi í iðnað og byggingarframkvæmdir í vetur, svo að ekki er annað sýnt, en að henni muni þá og þegar takast að koma hinu langþráða atvinnuleysi á. En þá kom síldin eins og skollinn úr sauðaleggnum og eyðilagði þessa þokkalegu áætlun í bili. 

Hver einasti heilvita maður, sem ekki er algerlega blindaður af ofstæki og kommúnistahatri, hlýtur að sjá, að bann ríkisstjórnarinnar við síldveiðunum er ekkert annað enn einn liðurinn i baráttu hennar fyrir hruni og eymd meðal almennings, eitt af skemmdarverkum hennar, sem beint er gegn alþýðunni i landinu til þess að beygja hana og auðmýkja, svo afturhaldið geti náð á henni þeim fantatökum, sem það óttast að það sé nú búið að missa algerlega.