Tveir stjórnarmeðlimir S.R. svara Mjölni

Erlendur og Jón. Ljósmynd: Kristfinnur

Neisti   3. apríl 1948

Mjölnismenn víkja enn einu sinni af vegi sannleikans

Út af grein, sem birtist í 10. tbl. Mjölnis, með fyrirsögninni: “Síldveiðibannið er þáttur í hrunaðgerð um ríkisstjórnarinnar,” viljum við undirritaðir taka fram eftirfarandi: 

  1. Ríkisstjórnin eða einstakir fulltrúar úr henni höfðu engin afskipti af ákvörðun stjórnar SR um að hætta að taka á móti síld úr Hvalfirði 6. mars s.l.
  2. Þegar verksmiðjustjórnin tók ákvörðun sína, mátti gera ráð fyrir að með svipaðri síldveiði og áður, mundi það mikið magn síldar berast til Siglufjarðar að síldarvinnslu yrði ekki lokið fyrr en vikuna fyrir páska.
  3. Svo sem öllum Siglfirðingum er kunnugt, þurfa fram að fara mjög umfangsmiklar viðgerðir, endurbætur og lagfæringar á verksmiðjunum öllum og má gott heita ef tími vinnst til þess að koma þeim í fullhæft rekstursástand áður en síldveiði hefst um mánaðarmótin júní-júlí n.k. En að okkar áliti er algjörlega óverjandi að halda áfram að vinna síld með tapi, þannig að það gæti orðið til þess að ekki væri hægt í tæka tíð og með góðum árangri að taka á móti verðmætari afla Norðurlandssíldar.  Þegar verksmiðjustjórnin tók ákvörðun sína, var 70% af veiðiskipaflotanum hættur veiði.
  4. Af þessu leiddi, að búist var við minni afla og flutningaskipin því ófús á að liggja í Reykjavíkvik og bíða eftir síld, nema trygging eða ákveðin greiðsla kæmi til af hálfu S.R. Hefði það að sjálfsögðu leitt til aukinna útgjalda fyrir S.R.
  5. Það er rangt í greininni, að stjórn S.R. hafi verið boðið £ 140-0-0 í síldarlýsi pr. tonn. Hið sanna er, að stjórn S.R. reyndi að selja fyrir þetta verð cif., en gat ekki. Ennfremur reyndu S.R. að selja fyrir £ 131 cif. og tókst það heldur ekki. Er því víðs fjarri, því miður, að þetta ágæta verð hafi nokkurn tíma staðið til boða.
  6. Verksmiðjunum hefur aldrei staðið til boða £ 48-0-0 í tonnið af mjöli, eins og Mjölnir fullyrðir. Hið rétta er, að líkur eru fyrir, að takast muni að selja nokkurn slatta af mjöli fyrir £ 47.0.0 pr. tonn, án protein uppbótar fob. Í Holland, en það þýðir að frá þessu verði þarf að draga flutningsgjald til Hollands, vátryggingu, geymslu í Hollandi og útskipun þar. Hið raunverulega fob-verð hér, miðað við 65% protein, er því um £ 40 tonnið.
  7. Rætt var um að hefja vinnslu á Hvalfjarðarsíld á Skagaströnd, meðal annars til að fá reynslu á vinnslugetu nýju verksmiðjunnar þar. Verksmiðjustjórinn á Skagaströnd taldi þess engan kost að hefja þar vinnslu nú.
  8. Að endingu viljum við láta þess getið, að á fundi þeim, sem verksmiðjustjórnin samþykkti, að áliti Mjölnis, þær skaðsemdaraðgerðir, að hætta móttöku Hvalfjarðarsíldar í Reykjavík 6. mars, var mættur fulltrúi Sósíalistaflokksins Þóroddur Guðmundsson og greiddi hann ekki atkvæði. Verður að líta svo á, að hann hafi ekki álitið þessa ályktun stjórnar S.R, það skaðlega, að hann teldi rétt að greiða atkvæði gegn henni

Við höfum mótmælt helstu rökleysum og staðleysum í áðurnefndri Mjölnisgrein og látum það nægja. Hitt látum við svo lesendur eina um að dæma, hvort aðrar hugleiðingar blaðsins um, að núverandi ríkisstjórn vinni að því að skapa atvinnuleysi, hafi ekki við álíka rök að styðjast og fleipur blaðsins, sem hér hefur verið hrakið.

Reykjavík, 16. mars 1948 

Erlendur Þorsteinsson
Jón Kjartansson
------------------------------------- 
Svar Þóroddar