"Tveir stjórnarmeðlimir S.R. svara Mjölni"

Þóroddur Guðmundsson - Ljósm. Kristfinnur

Mjölnir 7. apríl 1948 - Þóroddur  

Svo hljóðar fyrirsögn á grein, er þeir Erlendur Þorsteinsson og Jón Kjartansson birta í síðustu tölublaði Neista og Einherja. 

Þótt báðir þessir menn hafi starfað í stjórn SR s.l. ár; annar sem stjórnarmaður en hinn sem varastjórnarmaður, þá hefði fyrirsögnin á greininni átt að vera: 

“Tveir frambjóðendur svara Mjölni.” Því að greinin er öll, fyrst og fremst pólitískur áróður og ekki af betra taginu, þar sem bæði er farið með helber ósannindi og öðrum stað sagður hálfur sannleikur eins og nú skal sannað. 

Í greininni segir orðrétt:

“Verksmiðjunum hefur aldrei staðið til boða  £ 48:0:0 í tonnið af mjöli, eins og Mjölnir fullyrðir. Hið rétta er, að líkur eru fyrir að takast muni að selja nokkurn slatta af mjöli fyrir £ 47:0:0 pr. tonn, án prótein uppbótar, fob. Holland, en það þýðir að frá þessu verði þarf að draga flutningsgjald til Hollands, vátryggingu, geymslu í Hollandi og útskipun þar. Hið raunverulega fob.-verð hér miðað við 65% prótein, er því um 40 £ tonnið."

Þó sleppt sé þvættingnum í niðurlagi þessarar klausu um kostnaðinn við þessa umræddu mjöl-sölu, ef af henni yrði, þá má það furðulegt heita að láta frá sér fara fullyrðinguna í upphafi klausunnar, og þetta gera menn, sem sjálfir hafa nýlega samþykkt, á fundum í stjórn SR, að selja 2.300 tonn af síldarmjöli fyrir £ 44:16:0, miðað við 65% prótein innihald, og hlutfallslega uppbót fyrir meira próteininnihald. 

Þar sem nú, að mjöl SR inniheldur yfirleitt 70-71% prótein, fer stundum jafnvel yfir 73%, en framkvæmdarstjóri hefur tjáð mér, að hann telji að meðal próteininnihald mjölsins í vetur sé uni 71%, þá er söluverð þessa mjöls um  £48:18:0 eða tæp 49 £. 

Mjölnir hefur því ekkert ofsagt um þetta. Það skal tekið fram, að þessi umræddu 2.300 tonn af síldarmjöli eru ekki seld í clearing viðskipti, heldur greiðast þau í pundum Miklar líkur eru til, að meira mjöl sé hægt að selja á sama markað fyrir sama verð. Er nú beðið eftir að kaupandi setji tryggingu, og getur þá afskipun þessa mjöls hafist. 

Hinir tveir frambjóðendur gera að umtalsefni, ummæli Mjölnis um ákvörðun stjórnar S.R. 6. mars s.l. að hætta móttöku Hvarfjarðarsíldar. Reyna þeir að bera fram afsakanir fyrir þessari ákvörðun. Veigamestu afsökunina telja greinarhöfundar þá, að tími væri ekki nægur til að undirbúa verksmiðjuna undir sumarrekstur, hefði bræðslu á Hvalfjarðarsíld verið haldið áfram. 

Þessi afsökun er þá heldur léleg, því svo lítið þarf að gera við SR'46 að vel hefði mátt hafa hana mánuð lengur í rekstri, og hafa hana þó tilbúna fyrir sumarvertíð. 

Þá hyggjast greinarhöfundar að flengja Mjölni með mér og segja að ég hafi verið staddur á hinum umrædda verksmiðjustjórnarfundi og ekki greitt atkvæði um tillöguna, um að hætta móttöku síldar. 

Það er rétt að ég hafi verið á þessum fundi og það er ennfremur  rétt að ég hafi ekki greitt atkvæði um tillöguna, en þetta er aðeins hálfur sannleikurinn. 

Greinarhöfundar sátu báðir þennan fund, báðir hlustuðu þeir á mig benda á, að varhugavert væri að ákveða stöðvun móttöku síldar. Báðir hlustuðu þeir á mig leggja 

til, að ákvörðun um stöðvun móttöku yrði frestað nokkra daga, þar til séð yrði hvernig veiddist. Hvorki þeir né hinir stjórnarmeðlimirnir vildu fallast á uppástungu mína. 

Hitt vita svo allir menn, að hefði orðið mikil síld, hefði verksmiðjustjórnarmeirihlutinn orðið að éta ofan í sig ákvörðunina um að hætta móttöku. Óhaggað stendur það, að það var hið mesta ábyrgðarleysi af meirihluta stjórnar SR að ákveða stöðvun móttöku 6. mars s.l., eins og sakir stóðu þá. 

Ég hef nú sýnt fram á, hvernig greinarhöfundar segja aðeins hálfan sannleikann um mína afstöðu á fundinum 6. mars s.l., og að frásögn þeirra þannig er litlu betri en ósannindi, þar sem hún gefur alrangar hugmynd um hvað gerðist og á bágt með að trúa því, að þetta sé viljandi gert og kýs að leggja það þannig út, að þetta stafi af gleymsku en sjálfsagt rifjast þetta upp fyrir greinarhöfundum þegar þeir eru á það minntir og harma þá mistök sín. Skal því ekki fleiri orðum um það farið. 

Greinarhöfundar fullyrða, að vetrarsíldin sé unnin með tapi. Ekki liggja ennþá fyrir reikningar yfir kostnað við vinnsluna og mjög lítið magn afurðanna er ennþá selt. Hvernig er þá hægt að fullyrða, að tap sé á vinnslunni? 

Það er ekki hægt eftir öðru að fara en ágiskunum svo slíkar fullyrðingar eru beinlínis út í loftið. Miklar líkur eru til að hægt sé að selja afurðirnar úr þessari vetrarsíld það háu verði, að vinnslan beri sig. 

Virðist mér það því hvatvíslegar getsakir í garð ríkisstjórnarinnar, sem hefur ótakmarkað einræðisvald í afurðasölumálum, að hún selji svo illa, að tap verði á rekstrinum. Að sjálfsögðu veit ég vel, að greinarhöfundar vildu síst sýna hvatvísi í garð núverandi ríkisstjórnar, en fullyrðingar þeirra í þessu efni eru það nú samt, þegar að er gáð. 

Ég mun ekki gera þessa ritsmíð að frekara umtalsefni, en virðist augljóst, að frambjóðandinn hafi illilega bögglast fyrir brjósti greinarhöfunda, þegar þeir sömdu greinina og við það hafi löngunin til að gera lítið úr Mjölni orðið heldur meiri en þeim var hollt.   Þ.G.