"Presturinn í Vejlby"

Einherji 16. febrúar 1933

Siglufjarðar-Bíó er nú tekið til starfa aftur eftir hina löngu hvíld sína vegna bannsins. Á sunnudaginn var sýnd mynd er heitir  "Presturinn í Vejlby". Er það mikil mynd og hrífandi en sorgleg. Áttu menn von á  að kvöldið yrði þeim til uppbyggingar, en .sú von brást.

 Sýning myndarinnar var  hin hörmulegasta. Slitnaði myndin oft og stundum var alger þögn - þegar heyrast átti tal leikendanna. Ekki er  víst að sýningarstjórinn eigi sök á þessu heldur hafi myndin sjálf og plötur henni  tilheyrandi verið skemmt orðið. En á því eiga þeir sök, er fyrir Bíóinu ráða, að  sýningar byrja ekki á réttum tíma. Þeir sem stundvísir eru og komnir eru á þeim  tíma er auglýst er, að sýningin skuli byrja, eiga heimtingu á að þurfa ekki að bíða  eftir slæpingjum þeim er enga stundvísi þekkja.  
-----------------------------------------------------------------------------
Sennilega ritað af ritstjóranum Hannesi Jónassyni bóksala

[Nýja Bíó er á þessum tíma manna á milli og í blöðum nefnt "Siglufjarðar-Bíó" og þar með af eigandanum sjálfum, ekki veit ég ástæður þessa, en í þessu tilfelli er átt við Nýja Bíó.

Ekki hefi ég enn komist að því, í hverskonar banni bíóið hefur verið í, samkvæmt því er stendur efst í þessari frétt, en væntanlega kemur a því síðar] - SK
------------------------------------- 
 

Siglfirðingur 25. Febrúar 1933   

 

S v a r  við grein þeirri sem rituð var í 6. tölublaði "Einherja" um Siglufjarðar-Bíó 
(greinin hér fyrir ofan)

 

Mér þykir sá, er skrifað hefir greinina, bera nokkuð lítið skynbragð á  kvikmyndasýningar, eftir grein hans að dæma. Til þess að ætla sér að birta fleiri  aðfinnslur opinberlega, þyrfti hann að kynna sér betur aðstöðuna, áður en hann fer að  skrifa meira um slíkt. Greinarhöfundur segir í grein sinni: "Slitnaði myndin oft og stundum var alger þögn,  þegar heyra átti tal leikendanna"

 

Viðvíkjandi því að myndin hafi slitnað oft, þá tel ég  greinarhöfund ekki vita hvað hann er að fara með, því myndin slitnaði alls ekki í eitt  einasta skipti. 

 

Einu sinni þurfti ég að stoppa sýninguna vegna bilunar á vélunum, og svo hafði  ég dálítið hlé eins og vant er. Telji greinarhöfundur þetta vera þessi slit á  filmunni sem hann er að tala um, þá ætti hann að athuga töluna nánar því  "tvisvar" kallast ekki "oft". 

 

En hvað viðkemur þögn þeirri sem var á tali leikendanna, þá orsakaðist hún af bilun á  talmyndatækjunum, en alls ekki af því að filman væri skemmd, en um þessar plötur sem  greinarhöfundur segir að fylgi myndinni get ég ekkert sagt um, því þær eru ekki til. 

 Nú  orðið þá eru það örfáar filmur sem hingað koma, sem plötur fylgja. Þær eru flestar  þannig útbúnar að hljóðið er á ræmu sem er áföst við filmuna sjálfa, og er filman  "Presturinn í Vejlby" þannig útbúin svo þar þarf alls engar plötur með. 

Hvað viðkemur  stundvísi þeirri sem greinarhöfundur talar um, þá er hann sjálfur annaðhvort á undan tímanum  eða þá að klukka hans gengur öðruvísi en allar aðrar. 

 

Ef þessi greinarhöfundur, sem ekki þorir að rita nafn sitt undir greinina, skyldi þurfa að  rita fleiri slíkar greinar og vantar nánari upplýsingar um filmurnar og talmyndatækin, þá  skal ég glaður láta honum þær í té svo hann þurfi ekki að vaða reyk í annað skipti.

 

Kristinn Guðmundsson.
------------------------------------------------------

 

Einherji 2. mars 1933

Kristinn Guðmundsson, 
sýningarstjóri og ráðsmaður við Siglufjarðar-Bíó, virðist hafa móðgast mjög af  hógværi umsögn um Bíó í síðasta blaði Einherja, þar sem þess var getið, að  mistök hefðu orðið á sýningu á myndinni: "Presturinn í Vejlby" og skrifar hann  um þetta alllanga grein í síðasta blað Siglfirðings.

 

Kristinn mótmælir því harðlega, að myndin hafi slitnað, en játar að hann hafi  stoppað sýninguna vegna bilunar á vélunum. Það þarf meira en litla  óskammfeilni til að halda því fram, að sýningin hafi ekki stoppast nema einu  sinni, um það geta margir tugir manna borið vott, að hún var stoppuð oft, því  miður taldi ég ekki hvað oft.

 

 Um ástæðurnar fyrir þessu stoppi skal ég ekki  þrátta við Kristinn, það skiptir ekki svo miklu máli, ástæðurnar hafa getað verið  margar, meðal annars að hann hafi sofnað út frá vélinni, en frá því kemst hann  ekki, að sýning myndarinnar var hin hörmulegasta, játar hann það einnig í grein  sinni, er hann segir að bæði hafi vélarnar og talmyndatækin bilað á meðan á  sýningunni stóð.

 

Kristinn dregur í efa að klukka mín hafi verið rétt, er ég minntist á að sýningar  byrji ekki á réttum tíma. Mín klukka var þá, eins og jafnan, sett eftir  útvarpsklukku og var því ábyggilega rétt.

 

Skal ég í þessu sambandi geta þess,  Kristni til maklegs heiðurs, að hann hefir bætt ráð sitt og síðastliðið  sunnudagskvöld byrjaði hann sýningu á nákvæmlega réttum tíma. Hafa þessar  fáu línur í Einherja ekki verið til ónýtis skrifaðar fyrst þær höfðu svona bætandi  áhrif.

Ummæli mín í Einherja orðaði ég svo vægilega sem mér var frekast unnt. Ég  hefi enga ástæðu til að ybbast við Kristinn Guðmundsson, hann á minnsta sök á  því sem aðfinnsluvert er við Bíó hér. En það munu margir vera á því 

máli. að  nokkuð skorti á, að fullsæmilegt sé það sem fólki er látið í té á Bíó hér, hvort  sem eru myndir, taltæki, sæti eða þrifnaður. 

 

Að endingu get ég ekki stillt mig um að minnast á þá hlægilegu fjarstæðu, að  ég hafi ekki þorað að setja nafn mitt undir umræddar línur, er stóðu í  bæjarfréttum.

 

Í fyrsta lagi mun það hvergi þekkjast að ritstjórar blaða setji nafn  sitt undir bæjarfréttir og í öðru lagi, getur tæplega verið ástæða til þess fyrir mig, að vera  hræddur við Kristinn Guðmundsson. En svo að hann sé ekki i neinum vafa um  við hvern hann á, get ég gert honum þann greiða að setja nafn mitt hér undir.

Hannes Jónasson. (ritstjórinn)