NON-STOP NEW YORK

Kvikmyndin NON-STOP NEW YORK  er mér nokkuð minnisstæð, þar sem þetta var fyrsta kvikmyndin sem ég sýndi einn og "yfirgefin" þá 14 ára gamall. (myndin var bönnuð börnum innan 16 ára) 

Myndin var gerð árið 1937 af ensku fyrirtæki. Þetta er hörku spennandi dramatísk kvikmynd, hálfgerður vísindaskáldskapur sem gerist að miklu leiti, um borð í flugvél. 

Þessi kvikmynd gekk í mörg ár út um allan heim þar meðtalið Ísland, en myndin var frumsýnd í Nýja Bíó á Siglufirði í desember árið 1948. Myndina má skoða hérna.

Myndin var tekin á "svarthvíta" filmu, eins og allar myndir þeirra tíma, því kvikmynda-litfilmur,  voru ekki komnar á markað þá. 

Þó voru "plaggötin" sem fylgdu myndunum oftast lituð, eins og til dæmis myndin af "plaggatinu" hér fyrir ofan, frá myndinni NON-STOP NEW YORK sýnir.
-------------------------------------------------------------------------

Viðbótar upprifjun

Frá árinu 1926 starfaði faðir minn Kristinn Guðmundsson, þá 12 ára við Nýja Bíó og stundaði hann þar ýmis störf, allt frá sendilstörfum, mótorvörslu, dyravörslu, aðgöngumiðasölu og afgreiðslu, jafnhliða í skóbúð Thorarensen, síðar í tóbakseinkasölunni og bókhaldi. (Hann hafði, mjög vel læsilega og fallega rithönd, strax sem unglingur)

Frá árinu 1928 starfaði hann einnig sem sýningarmaður í hjáverkum. Þá fór faðir minn til náms í útvarpsvirkjun í bréfaskóla og útskrifaðist síðar í Reykjavík hjá Landsíma Íslands sem fullgildur útvarpsvirki, en eftir heimkomuna tók hann alfarið við sýningunum og stundaði þær ásamt útvarpsvinnustofu sinni til dauðadags árið 1980.

 Undirritaður hóf snemma afskipti af bíó, samkvæmt frásögn móður minnar: Það var árið 1936, þá tveggja ára gamall, sem ég sá mína fyrstu "bíómynd". það er þá hélt móðir mín á mér og lét mig kíkja í gegn um op í sýningarklefa Nýja Bíós Siglufirði, þar sem faðir minn, Kristinn Guðmundsson hafði starfað frá 14 ára aldri. Ekki man ég eftir söguþræði eða í raun hvaða persónur þarna voru á tjaldinu, en móðir mín tjáði mér að ég hefði horft á með slíkri athygli og innlifun að hún hafi átt fullt í fangi með að hemja mig. En á tjaldinu mun hafa verið Mikki mús og félagar, sem sé teiknimynd með Mickey mouse eftir Walt Disney.

 Upp frá því fór móðir mín, að fara með mig á "barnabíó" þegar teiknimyndir voru sýndar, en það var í þá daga og allt til ársins 1960 sem slíkar syrpur voru sýndar í Nýja Bíó.  

Móðir mín var mikil áhugamanneskja á kvikmyndir, og fór því oft "í bíó" eins og það var gjarnan kallað á Siglufirði frá upphafi kvikmyndasýninga þar, oftar en ekki horfði móðir mín á bíó uppi í sýningarklefa hjá föður mínum, og tók mig þá oft  með sér, ekki þó til að láta mig fylgjast með kvikmyndunum, heldur svaf ég í vöggu bakatil þar sem auðvelt var að fylgjast með mér, þá kornabarni.  

Það var um 5-6 ára aldur, sem ég fór að fara einn í bíó (barnasýningar) og sleppti aldrei sýningu.

Um 10 ára aldur sá ég allar kvikmyndir sem sýndar voru í bíó, leyfðar myndir sá ég raunar tvisvar því þær voru oftast sýndar á barnasýningum einnig, en á kvöldsýningum sá ég myndirnar uppi í klefa hjá föður mínum, án tillits til hvort myndir bæru bannaðar börnum 12, 14, eða 16 ára. "Hverskonar uppeldi !" segja ef til vill sumir.

En móðir mín sagði snemma við mig að kvikmynd væri eins og skáldsaga sem gerð væri til að stytta fólki stundir og stundum til fróðleiks. Það ætti ekki að herma eftir því sem þar færi fram frekar en við lestur skáldsagna, þar væru fyrst og fremst um draumóra að ræða, sem sjaldan ættu sér stað í raunveruleikanum. Móðir mín hafði þá trú að ef hún og eða, foreldrar kenndu börnum sínum að horfa á kvikmyndir, segði þeim að “bíó” væri afþreying en ekki skóli, og að það  ætti ekki að herma eftir því sem á tjaldinu birtist, því það væri aðeins leikur.

 Ég tel mig nú hafa sannað á mér sjálfum, ásamt börnum og barnabörnum, að "bíógláp" á "bannaðar myndir", er ekki hættulegt ungu fólki, ef það fær rétt uppeldi og er heilt á geðsmunum. Ekkert okkar hefur leiðst út í neitt sem telja mætti óæskilegt og enn síður komist í kast við lögin, en öll börn mín og barnabörn  hafa fengið samskonar uppeldi gagnvart kvikmyndum. 

Þegar ég varð 12 ára hóf faðir minn að kenna mér á sýningarvélarnar og var ég fljótur að ná tökum á búnaðinum. Og vorið 1947 þegar nýjar sýningavélar voru keyptar í Nýja Bíó, þá fylgdist ég grannt með uppsetningu þeirra og fékk alltaf greið svör frá föður mínum sem sá um uppsetningu vélanna. 

En það var ekki fyrr en í desember  árið 1947 en þá var ég rúmlega 13 ára, sem ég sýndi mína fyrstu kvikmynd, án þess að faðir minn væri nálægt, en tilefnið var að faðir minn, sem var útvarpsvirki að mennt, varð að sinna neyðartilfelli á loftskeytastöð Landssímans, en breski togarin "Doon",  hafði sent frá sér neyðarkall, sem heyrðist veikt á loftskeytastöðinni á Siglufirði, en sterkari móttakarinn þar hafði bilað og þurfti faðir minn að sinna viðgerð á honum á sama tíma og hann hefði átt að "sýna bíó".  

Myndin hét "Fljúgandi morðinginn", eða “Non-Stop New York"  (UK (1937): Spenna/Drama )  sem var spennumynd bönnuð yngri en 16 ára og var þetta frumsýning myndarinnar á Íslandi, en Thorarensen hafði allt frá upphafi sýninga í Nýja Bíó gert mikið af því að flytja myndirnar sjálfur inn og leigði þær síðan gjarnan bæði til Reykjavíkur og annarra staða úti á landi. 

Sýningin tókst vel, þó svo ég hafi ekki veitt kvikmyndinni sjálfri mikla athygli það kvöldið, númer 1, 2 og 3 var að sinna mínu verki. 

Ekki man ég hvaða ár ég gekk í Félag Sýningarmanna við Kvikmyndahús, eða hvenær ég fékk “staðbundin réttindi” og eða hvenær ég  gekkst síðar undir próf í greininni til að öðlast fullgild réttindi og samhliða kennararéttindi, enda skiptir það varla máli. 

Synir mínir báðir, Valbjörn viðskiptafræðingur og Kristinn sem er verkfræðingur hjá Marel lærðu ungir að sýna og hófu sýningarstörf hjá mér eftir að ég keypti Nýja Bíó - og síðar tveir dóttursynir mínir, Steingrímur Örn og Steindór Örvar, allir voru þeir um 12-14 ára að aldri þegar þeim var trúað fyrir vélunum, en undir það síðasta, eða til ársins 1999 sá ég einn um sýningarnar þegar “bíó” var. (Kvikmyndasýningum lauk þar endanlega árið 1999) 

 Ég hefi ekki enn nefnt dyraverði sem hófu starf sitt hjá Thorarensen, einn þeirra sem lengst hafði starfað þar við slíka iðju er sennilega Grímur Sigurðsson sem var dyravörður frá 1924 til dauðadags 1942 (í tíð Thorarensen). Þá má ekki gleyma konu sem hét Steinþóra Einarsdóttir og var eiginkona Gunnars Jóhannssonar alþingismanns. Hún var vinsæl á meðal barna og unglinga fyrir hvað hún lokaði oft augunum fyrir aldri krakkanna þegar myndirnar voru bannaðar, “Það er eftir að hún sjálf hafði metið þær eftir fyrstu sýningu” og ef henni fannst ekki ástæða til að hafa þær bannaðar, hún leysti stundum af, annan dyravörð sem hét Frans Jónatansson, en þetta var eldri maður.

Þó var nokkuð eftirlit á þessum árum og höfðu tveir menn þann starfa að fylgjast með bönnuðum myndum og útveru barna - og báru þeir merki Barnaverndar í barminum, ég man eftir Pétri Baldvinssyni og Jóhanni G Möller í þessum starfa (með barmmerkin), en held þó oft og tíðum hafi þeir haft meiri áhuga á myndunum sjálfum en starfinu, þar sem þeir sátu alltaf (þegar sæti voru laus) og horfðu á myndirnar út hverju sinni, og þá oft saman á sýningu. Þeir fengu auðvitað frítt í bíó.

Þó gerðu barnaverndar “frömuðir” nokkrar tilraunir til að stöðva mig við sýningar, en ég hleypti þeim að sjálfsögðu ekki inn til mín og fór stundum út um glugga að lokinni sýningu, ef ég hafði grun um að nefndarmenn biðu eftir mér, til á geta kært Thorarensen og útilokað mig frá sýningum þegar myndir væru bannaðar. Þetta var á þeim tíma sem ég hafði ekki náð 16 ára aldri, en faðir minn var útvarpsvirki eins og áður segir og vann mikið við iðn sína, sérstaklega á sumrin þegar síldin var og þá aðallega í landlegum, þegar mest var að gera bæði við viðgerðir á talstöðvum dýptarmælum o.þ.h. hjá flotanum. 

Þegar landlegur voru, þá var sýnt bíó klukkan 3,5,7,9 og 11, eða 5 sýningar á dag og alltaf uppselt (alla daga sem landlegur voru) og sýndi ég oft fyrstu 4 sýningarnar og faðir minn leysti mig af klukkan 11. Þetta voru dásemdar dagar, oftast 2-3 nýjar myndir á dag, og faðir minn endursýndi þær svo dagana eftir landlegurnar. 

Ég man ekki eftir undirleik við þöglu myndirnar, en foreldrar mínir sögðu mér frá að svo hafi verið nær undantekningalaust fyrstu árin, en þó  man ég eftir þöglum myndunum sem krakki, en þöglar myndir komu annað slagið og voru sýndar mörgum árum eftir, að fyrstu "talmyndirnar" komu.

 Ég man óljóst hvernig "græjurnar" (sem voru þá í geymslu) litu út, sem notaðar voru þegar sýning á talmyndum hófst í Nýja bíó á Siglufirði, en það var 17. janúar árið 1931  (þrem árum áður en ég kom í heiminn), þetta var heljarmikill grammfónn og grammafónplötur sem spilaðar voru samhliða filmuspólunni og skiluðu talinu og hljóminum sem fylgdi myndunum. 

 Jónatan Ólafsson tónskáld með fleiru, sem starfaði á sínum yngri árum hjá Thorarensen, mun oft hafa leikið "undir" kvikmyndum á þeim tímum, en hann lék “dinner músík” og á böllum á Bíó Café. Einnig lék Guðný Fanndal undir kvikmyndum um tíma.

Ég hitti Jónatan Ólafsson, er hann kom hingað á “Síldarævintýrið” þá vel ern þrátt fyrir háan aldur, þá 80 ára.

Steingrímur Kristinsson.
--------------------------------------------------------

Þór Jóhannsson, er öllum hér á Siglufirði vel kunnur, en til að kynna hann frekar, þeim sem ekki þekkja hann: Hann er sonur þeirra hjóna Ernu Rósmundar og Jóhanns Rögnvaldssonar bifreiðastjóra. 

Þór hefur lengi verið haldinn söfnunaráráttu eins og svo margir - og eitt af því fjölmarga sem hann hefur safnað er ýmislegt sem tengist bíó, ma. aðgöngumiðar,  progröm ofl.  

Hér fyrir neðan er smávegis tengt einum af frumkvöðlum kvikmyndasýninga á Siglufirði, þó ekki sé beint tengt bíórekstri, en sýnir við hvað Matthías Hallgrímsson, bíóeigandi á Siglufirði hafði ma. fyrir stafni.  Ýmislegt tengt söfnun Þórs má skoða hér  Meðal annars efni tengt Bíó á Siglufirði

  • Kristinn Guðmundsson - Ljósm. Valborg Steingrímsdóttir

  • Hinrik Thorarensen - Ljósm. Kristfinnur

  • Þór Jóhannsson