Siglufjarðarvegurinn

Siglfirðingur 10. júní 1933

     Alþingi mun að þessu sinni hafa þóst ríflegt á roðunum til Siglufjarðar, því þó að þau  mál, er fyrir þinginu lágu og snertu Siglufjörð, svo sem öldubrjóturinn og vitinn, sé í raun  og veru mál, sem við koma þjóðinni allri, þá eru þau þó svo mikil hagsbótamál fyrir  Siglufjörð, að ekki mun hafa verið spöruð fyrirhöfn til að koma þeim fyrir kattarnef, af  þeim þingmönnum, sem jafnan hafa talið skyldu sína að launa þá miklu peninga, sem  Siglufjörður borgar í ríkiskassann, með því að leggjast á móti öllu því, sem Siglufirði má  til hagskóta verða.

     Nægir td. að benda á tillögu þingmanns Vestur Húnvetninga, sem fóru  í þá átt að skera niður fjárveitingar og lánsheimildir, er snertu Siglufjörð. þó mun ekki  hafa borið á öðru en þessi þingmaður yndi vel hag sínum er hann var að endurskoða  reikninga Síldarverksmiðju ríkisins hér í vetur og hefði góða list á að þiggja kaup sitt fyrir  það.

    Framgangur Siglufjarðarmálanna á þessu þingi mun að miklu leyti vera að þakka áhuga  Guðmundar bæjarfógeta Hannessonar, er staddur var fyrir sunnan er málunum var ráðið  til lykta, mun hann hafa gert sitt til að vekja áhuga mætra manna innan þings og utan  fyrir framgangi þeirra.

   Eitt af þessum Siglufjarðarmálum sem fram gekk á þessu þingi, var að fá veginn yfir  Siglufjarðarskarð tekinn upp í þjóðvegatölu. Þó að svo sé nú komið málum, er langt í land  með að hafist verð: handa með framkvæmdina, án þess að nokkuð sé aðhafst hér, veldur  þar um bæði getuleysi ríkissjóðs og svo það að aðrir vegir eru þegar áætlaðir að koma á  undan, enda eru ýmsir vegir víðsvegar á landinu, sem bíða eftir að hægt verði að leggja  fé til þeirra.

    Bæjarfógeti hefir gefið mér þær upplýsingar, að eina ráðið til þess að hafist  verði handa með að leggja veginn, er að féð, sem til þarf, verði lagt fram og  lánað ríkinu af Siglfirðingum sjálfum. Þessi leið, að lána ríkinu fé til að verja til verklegra framkvæmda, hefir lítið verið farin  hér, þó var í fyrra farin sú leið, til að, hrinda í framkvæmd samgöngubótum í  Rangárvallasýslu, brúnni á Þverá, Áfall og Ála, með tilheyrandi vegalagningu, og nú í  sumar hafa Rangæingar og Skaftfellingar ákveðið að fara sömu leið með áframhaldandi  samgöngubætur austur. Lána hlutaðeigandi héruð, ríkinu til 5 ára, fyrstu 3 árin  afborgunarlaust. Hefir safnast til þess, eftir því sem ég vissi síðast, nokkuð á þriðja hundrað  þúsund krónur í Reykjavík og Rangárvallasýslu. Auk þess hefir svo fengist 120 þúsund  krónu lán til þessara samgöngubóta austur, (lánið er veitt til brúar á Markarfljót).

     Ég hefi  bent á þetta dæmi úr austursýslunum, ef menn hér vildu athuga að fara þessa leið með  fjárframlag til vegarins yfir Siglufjarðarskarð.

     Þar sem ég áður hefi skrifað nokkuð um þennan fyrirhugaða veg, ætla ég   ekki að fara  mikið út í það nú, þó vil ég geta þess, að samkvæmt uppdrætti herforingjaráðsins, er  skarðið talið töluvert hærra yfir sjó en á uppdrætti þeim er Lúðvík Kemp studdist við. Til  að fyrirbyggja misskilning vil ég   geta þess, að þessi mismunur kemur aðallega fram á  veginum frá Skarðdalstúni og upp að Skarðbrekkunni, þannig að þessi kafli vegarins  verður mun lengri og þar af leiðandi töluvert dýrari en gert var ráð fyrir í áætluninni. Á  veginn yfir Skarðbrekkuna sjálfa, hefir þessi hæðarmunur engin áhrif því hún er  nákvæmlega hallamæld samkvæmt upplýsingum sem ég hefi fengið þar um hjá Lúðvík Kemp

     Annars má búast við, að vegurinn fari töluvert fram úr fyrstu áætlun þar sem gert er ráð  fyrir aðeins þeim nauðsynlegustu umbótum til að gera veginn færan, en töluvert spursmál  hvort ekki borgar sig betur að undirbyggja veginn allan þegar í upphafi, ef til þess fæst  nægilegt fé, heldur en að undirbyggja aðeins þar sem óhjákvæmilegt er, vegna þess ef  ekki er til því nákvæmari uppdráttur af vegarstæðinu, er hætt við að eitthvað af  undirbyggingum yrði kannski þannig sett, að þær gætu ekki komið að fullum notum  síðar, að öðru leyti vísast til þess sem ég hefi áður skrifað um þetta vegamál í  "Einherja".

P. Á B