Nokkrar stuttar frásagnir af bruna

Alþýðublaðið 2 janúar 1931

Húsbruni á Siglufirði.
Siglufirði, FB., 1. jan. Eldur kom upp í dag í húsi Guðmundar Sigurðssonar. í húsinu er Félagsbakaríið með veitingasal og brauðbúð og lögregluvarðstofa bæjarins. Fólk bjargaðist út og eitthvað af innanstokksmunum.

Ætlað er, að eldurinn hafi kviknað út frá miðstöðinni. en vissa ekki fengin um það. Unnið er enn af kappi að því að bjarga húsinu, sem er mjög tvísýnt að takist, því að efri hæð þess virðist nú alelda.

Siglufirði, 2. jan. FB.
Eldurinn í Félagsbakaríinu
kom Upp um níuleytið um morgun og var búið að slökkva hann um kl 11. Fólk var vaknað í húsinu og nálægum húsum, er eldsins varð vart. Talið er, að hann hafi kviknað út frá miðstöðvarofni kjallarans og læst sig upp með reykháf hússins og út frá honum alla leið upp að þak.

Húsið er allstórt 2 hæða steinsteypuhús, og leigir Félagsbakaríið alla neðri hæð þess til brauðsölu og veitinga, en brauðgerðin sjálf er í áföstum skúr austanundir og komst eldurinn ekki í hann. Uppi býr eigandinn með fjölskyldu. Þar leigði einnig Guðmundur Jóakimsson trésmiður og þar er lögregluvarðstofan.

Skemdir urðu miklar. Sviðnaði öll efri hæðin innan og niðri læsti eldurinn sig vestur í brauðbúðina, en mestar urðu skemdirnar af vatni við björgun hússins. Er það alt eyðilagt innan. Af lausafé varð litlu bjargað áður en eldur og vatn náði að eyðileggja það, nema einhverju af húsgögnum leigjandans. Innbú húsráðandans var vátrygt, en lágt, og mun hann bíða allmikið tjón, einnig brauðgerðin, í skemdum vara og rekstursstöðvun.
Þessa frétt samhljóða, sendi „FB“ einnig í Vísir og Morgunblaðið
------------------------------------------------- 

Morgunblaðið 17 febrúar 1932 FB.
Eldur kviknaði í rafstöðinni í Siglufirði í gærmorgun, snemma. Slökkviliðið var kvatt á vettvang og tókst því að slökkva eldinn. Lítils háttar skemdir munu hafa orðið
-------------------------------------------------

Einherji 26 febrúar 1932
Húsbruni.
Sunnudaginn 21. þ.m. um kl. 2 síðdegis kviknaði í íbúðarhúsi hr. Guðbrandar Vigfússonar bifreiðastjóra, Miðstræti 8, hér í bænum. Brunalið hæjarins var þegar til kallað og kom á vettvang samstundis.
Tókst því þegar að slökkva eldinn, en samt brann allmikið eitt herbergi uppi á lofti í austurenda hússins og skemdist málning, veggfóður, ljóslagnir o. fl. í nokkrum öðrum herbergjum, af reyk og vatni. — Húsið var vátryggt.
-------------------------------------------------