Ég á í minningunni varðani "bíó" margar sögur

Þessi teikning á ekkert skilt við nefnda kvikmynd

Undirritaður á margar minningar um Nýja Bíó á Siglufirði, þar með sem sýningarmaður í 50 ár, og eigandi Nýja Bíós síðustu 13 árin sem alvöru bíósýningar lifðu á Siglufirði. Hægt væri að fylla heila bók um þau ævintýri, en það verður ekki. Þó má margt finna um Nýja Bíó og sögu kvikmyndasýninga á Siglufirði á vefnum BíóSaga Siglufjarðar   

Einn þátturinn tengdur rekstri Nýja Bíós var allskonar rex og ónot frá ýmsu fólki úti í bæ. Bæði af hreinni óvild sem og eitthvað sem því þótti ekki sæma. Einnig komu að sjálfsögðu upp athugasemdir sem áttu rétt á sér og slíkum skilaboðum oftar en ekki komið beint á framfæri, auga fyrir auga. Slík afskipti kunni ég að vel að meta.

En sem dæmi er hér ein lítil saga um óbein afskipti.

Éitt sinn fékk kvikmynd til sýningar, ég man ekki nafnið. En með myndinni komu ekki ljósmyndir sem venjulega fylgja filmum. Slíkum ljósmyndum var stillt út í glugga til að auðvelda væntanlegum bíógestum að meta hvort viðkomandi kvikmynd höfðaði til þeirra. 

Aðeins eitt stórt plakat kom, sem var svo stórt að það vart komst fyrir í útstillingarglugganum, en var þó sett upp. Plakatið var með mynd af ungum manni með buxurnar á hælunum þar sem sást í beran rass hans. Í bakgrunni framan við hann sáust tveir fætur á konu með hnén upp sem greinilega lá á gólfi inni í hlöðu. Það mátti ætla að hún væri tilbúin að leggjast með unga manninum.

Ekkert "censurkort" fylgdi kvikmyndinni svo ég gat ekki séð hvort myndin væri bönnuð börnum eða ekki. En ég taldi þó nokkuð öruggt að myndin væri bönnuð yngri en 16 ára miðað við plakatið. Ég auglýsti því myndana sem slíka, bannað börnum innan 16 ára

Nærri húsfyllir varð og ég með dollara merki í augunum þegar ég hóf sýningu myndarinnar. 

Af myndinni sjálfri er það að segja að myndin var, þori ég að fullyrða ein sú lélegasta sem ég hefi séð um ævina og hefi ég þó séð þær margar sem sýningarmaður í yfir 50 ár.  Ekkert var í myndinni sem telja mætti á þeim tíma klámfengið, hvað þá í dag 2018. 

Atriðið sem plakatið sýndi og kom fyrir snemma í byrjun myndar og stóð yfir í örfáar sekúndur. Atriðið var í raun tengt smá óhappi unga mannsins en ekki neinu ætlunarverki. það átta að vera eitthvað sniðugt (?) en mistókst eins og aðrar uppákomur leikaranna sem þarna komu fram. Eftir hlé komu aðeins örfáir aftur inn í bíósalinn og myndin var ekki sýnd oftar.

En daginn eftir var ég boðaður á fund fógeta. Tilefnið var að kæra hafði borist frá móðir ungrar stúlku sem hefði verið hleypt inn á bíó á þessa ógeðslegu klámmynd eins og móðirin hafði nefnt við fógeta.

Áður en ég mætti hjá fógeta hringdi ég til leigusala kvikmyndarinnar og spurði um "censurkortið" þar sem grunur minn var að myndin væri alls ekki bönnuð börnum. Það var rétt, hann sagði myndina leyfða fyrir börn. Þegar ég sagði honum frá "kærunni" og því að ég hefði bannað myndina yngri en 16 ára þá hló hann og sagðist senda mér rafrit af  sencorkortinu í faxi svo ég gæti sýnt fógeta. 

Það gerði ég og hafði fógeti gaman af. Hann trúði mér fyrir því óspurður hver kærandinn hefði verið. Og bætti við, að þar sem kæran hefði verið borin upp í símtali var engin undirskrift fyrir hendi og því málið dautt