Albert Sigurðsson
Ljósmynd:Kristfinnur

Albert Sigurðsson - Óskar Albert Sigurðsson fæddist á Litlahóli við Dalvík hinn 20. maí 1918. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar hinn 15. desember 2007.
Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Jón Guðjónsson, sjómaður og formaður í Mói, Dalvík, f. 9. desember 1885, d. 7. janúar 1943, og Anna Sigurðardóttir, húsmóðir, f. 17. október 1883, d. 7. júní 1971. Albert var 8. í röð ellefu systkina en hin eru: Guðjón Sigurvin, f. 1908, d. 1988, Rósa, f. 1909, d. 1995, Kristján Jón Helgi, f. 1909, d. 1934, Jóhann Sævaldur, f. 1912, d. 2001, Hallgrímur Friðrik, f. 1913, d. 1967, Jón Kristinn, f. 1915, d. 1992, Sigrún, f. 1916, d. 1996, Laufey, f 1920, d. 1998, Sigurður Marinó, f. 1922, og Lilja, f. 1925

Albert kvæntist hinn 29. desember 1945 Guðborg Franklínsdóttir frá Litla-Fjarðarhorni í Strandasýslu, f. 5. maí 1924. Foreldrar hennar voru hjónin Franklín Þórðarson, bóndi í Litla-Fjarðarhorni, f. 1879, d. 1940, og Andrea Jónsdóttir, húsmóðir, f. 1881, d. 1979.
Börn Alberts og Guðborgar eru:

1) Sigurmar Kristján Albertsson, f. 7. maí 1946, fyrri kona hans var Margrét Elíasdóttir, þau skildu. Seinni kona Sigurmars er Álfheiður Ingadóttir, sonur þeirra er Ingi Kristján, f. 1991.
2) Andrea Guðrún Albertsdóttir, f. 12. nóvember 1947, d. 17. ágúst, 1951.
3) Guðmundur Jón Albertsson, f. 13. október 1951, var kvæntur Þórdísi Þórðardóttur, þau skildu, sonur þeirra er Þórður Albert, f. 1978. Fyrir átti Þórdís dæturnar Ragnhildi Sigurðardóttur, f. 1969 og Guðrúnu Helgu Magnúsdóttur, f. 1974. Sonur Guðrúnar og Steinars Þórs Þorfinnssonar er Þór Jökull, f. 2007.
4) Óskar Helgi Albertsson, f. 8. júlí 1954, kvæntur Aðalheiði Erlu Jónsdóttur, f. 1957. Börn þeirra eru Kári Páll, f. 1981, Björk, f. 1986, Ásdís Helga, f. 1991 og Stefán Andri, f. 2001.

Albert og Guðborg hófu búskap á Siglufirði árið 1945 og bjuggu þar alla tíð, eða í 62 ár. Albert var sjómaður og verkamaður og byrjaði ungur að sækja sjóinn frá Dalvík, Siglufirði og víðar. Á Siglufirði starfaði hann m.a. hjá Síldarverksmiðjum ríkisins og víðar en fór jafnframt á vorvertíð á Suðurnesjum í marga áratugi, einkum í Sandgerði, síðast 1973. Eftir það starfaði hann í nokkur ár hjá Húseiningaverksmiðjunni á Siglufirði en síðast hjá Siglufjarðarkaupstað, m.a. við lagningu hitaveitu í bænum. Albert var duglegur verkmaður, ósérhlífinn og úthaldsgóður og hann vildi helst ekki ganga frá verki fyrr en það var fullklárað og búið var að ganga vel og snyrtilega frá öllu.

Albert hafði yndi af ferðalögum, heima og erlendis, en eftir að hann fór á eftirlaun dvaldi hann á hverju sumri í Flatey á Breiðafirði í sumarhúsi Sigurmars og Álfheiðar. Í Flatey undi hann sér vel við fiskveiðar, við aðgerð og frágang á afla, við að dytta að húsum og bátum og fleira sem til féll en hann átti erfitt með að vera iðjulaus. Hann var alla tíð vel á sig kominn líkamlega; byrjaði snemma að vinna erfiðisvinnu en hann stundaði líka íþróttir á sínum yngri árum, einkum knattspyrnu.