Baldur Eiríksson og Hólmfríður Sveinbjörnsdóttir

Baldur Eiríksson og Hólmfríður Sveinbjörnsdóttir - Ljósm. Kristfinnur

Baldur Trausti Eiríksson fæddist þann 14. júlí 1913 á Ísafirði og lést þann 13. ágúst 1998 á Siglufirði.

Baldur starfaði lengstum að sjávarútvegi á Siglufirði, en þangað fluttist hann árið 1937 eftir að hafa unnið hluta áranna 1935–36 á fiskmörkuðum í Hamburg-Altona hjá Firma Hermann Wegener og við skrifstofustörf hjá Nordsee Hochseefischerei, GmbH í Cuxhaven.

Þegar Baldur kom til Siglufjarðar tók hann við ritstjórn Siglfirðings, blaðs sjálfstæðismanna á Siglufirði. Hann var fréttaritari Vísis í mörg ár, fréttaritari ríkisútvarpsins frá 1946 til 1969. Baldur vann við verslunar- og skrifstofustörf á Siglufirði frá 1938, á skrifstofu Síldarverksmiðja ríkisins 1943–64. 

Á fyrstu  Siglufjarðarárunum kenndi Baldur við Iðnskólann og Gagnfræðaskólann og einnig á stýrimannanámskeiðum sem þar voru haldin. Síðar var hann prófdómari við þessa skóla í mörg ár.

Árin 1964–69 gegndi hann starfi framkvæmdastjóra hjá Útgerðarfélagi Siglufjarðar h.f. 

Baldur flutti til Akraness eftir rúmlega 30 ára veru á Siglufirði og starfaði þar sem fulltrúi hjá Sementsverksmiðju ríkisins uns hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Stjórnmálaáhugi Baldurs vaknaði snemma. Hann var kosinn í bæjarstjórn á Ísafirði árið 1935, aðeins 22 ára gamall og sat í nokkrum nefndum.

Baldur starfaði fyrir Sjálfstæðisflokkinn alla ævi og fram á síðustu ár. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstöðum fyrir flokkinn í bæjarmálum á Siglufirði. Hann var bæjarfulltrúi fyrir flokkinn og forseti bæjarstjórnar 1954–1966. Í bæjarráði þar, hafnarnefnd, rafveitunefnd og fyrsti formaður fræðsluráðs Siglufjarðar 1962–66.

Hann sótti fundi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Fjórðungssambands Norðlendinga fyrir hönd Siglfirðinga og var jafnframt formaður sambandsins um skeið. Baldur sat lengi í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra og var formaður þess 1963–64. Eftir að Baldur flutti til Akraness tók hann upp þráðinn frá Siglufirði og átti lengi sæti í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna á Akranesi, og sat auk þess í skólanefnd Akraness og í yfirkjörstjórn kaupstaðarins.

Hann sat einnig í kjördæmisráði flokks síns í Vesturlandskjördæmi. Baldur var mikill áhugamaður um félagsmál af ýmsum toga. Á Siglufirði var hann m.a formaður Stúdentafélags Siglufjarðar, Sögufélags Siglufjarðar og Norræna félagsins. Á Siglufirði gekk hann til liðs við Rotaryhreyfinguna og var ritari klúbbsins á Siglufirði 1961–63 og forseti 1964–65. Hann var gjaldkeri Rotaryklúbbs Akraness 1972–73 og forseti 1974–75. Hann var umdæmisstjóri Rotaryumdæmisins 1979–80, og sat í fulltrúaráði Rotary Norden 1983–85 sem varamaður og aðalmaður frá 1986.

Baldur var útnefndur Paul Harris félagi í Rotary International 1986, en það er æðsta iðurkenning hreyfingarinnar og ber nafn stofnanda hennar. Um langt árabil starfaði Baldur í Frímúrarahreyfingunni. Hann var formaður framkvæmdanefndar um byggingu leiguíbúða á Akranesi 1975–78 og ritari Náttúruverndarsamtaka Vesturlands 1978–80.  Eins og áður er getið var Baldur ritstjóri Siglfirðings 1937–38 og annaðist útgáfu blaðsins 1940–47. Hann var jafnframt í ritstjórn Stúdentablaðs Siglufjarðar 1939–43, ritstjóri blaðsins Snæfell 1982–84.

Hann birti greinar m.a. í Sunnudagsblaði Vísis, Morgunblaðinu, Siglfirðingi, Ársriti Garðyrkjufélags Íslands, Heima er bezt og Rotary Norden. Eftir hann liggja í handriti ógrynni af ávörpum og ræðum sem voru fluttar við margvísleg tækifæri.   

Baldur Trausti Eiríksson, f. 14. júlí 1913 á Ísafirði, d. 13. ágúst 1988 á Siglufirði. Framkvæmdastjóri á Siglufirði og síðar fulltrúi á Akranesi. –

Kona hans 14. júlí 1943, (skilin), Hólmfríður Sveinbjörnsdóttir, f. 22. júlí 1911 á Hámundarstöðum í Vopnafirði, d. 19. sept. 1967.  For.: Sveinbjörn Sveinsson, f. 29. apríl 1875 í Selási, Þorkelshólshr., V-Hún., d. 25. apríl 1945. og Guðbjörg Gísladóttir, f. 20. apríl 1874 á Hafursá, Vallahr., S.-Múl., d. 13. júlí 1955. 

Börn þeirra, Baldurs og Hólmfríðar:

a) Birgir Baldursson, f. 31. okt. 1940, 

b) Daníel Pétur Baldursson, f. 3. okt. 1942, 

c) Kristín Guðbjörg Baldursdóttir, f. 3. okt. 1942,

d) Elsa Baldursdóttir (Magna), f. 30. júlí 1945, 

e) Drengur, f. 4. febr. 1947,

f) Hólmfríður Baldursson, f. 16. mars 1948, 

g) Anna Þóra Baldursdóttir, f. 23. júlí 1950, 

h) Eiríkur Brynjólfur Baldursson, f. 24. apríl 1952, 

i) Drengur, f. 26. febr. 1954. 

Synir Hólmfríðar: 

j) Júlíus Pétur Emil Eiríksson, f. 31. ágúst 1935, 

k) Guðmundur Eiríksson, f. 28 júní 1937 - K. 22. Júní 1965

Mjög góðar upplýsingar á vefnum: http://www.eirikur.is/nidjatalid.pdf