Birgir Runólfsson bifreiðastjóri m. fleiru

Birgir Runólfsson
Ljósmynd: Kristfinnur

Birgir Runólfsson var fæddur að Kornsá í Vatnsdal í Austur Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru frú Alma Jóhannsdóttir Möller og Runólfur Björnsson, er kunn voru á sinni tíð um Húnaþing og víðar fyrir reisn og skörungsskap.

Örlögin höguðu því á þann veg, að þessi Húnvetningur bast ungur tryggðaböndum við Siglufjörð, sem aldrei rofnuðu, þótt leiðir lægju um fjarlægar slóðir.
Hann kom fyrst til Siglu fjarðar á unglingsárum til náms.

Stundaði að námi loknu ýmsa vinnu til sjós og lands, var m.a. í siglingum á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. En leiðin lá á ný til Siglufjarðar og hingað flyst hann alkominn árið 1945 og þaðan í frá var Siglufjörður hans heimabyggð.

Árið 1947 komst Siglufjörður í vegasamband við þjóðvegakerfi landsins, að vísu aðeins sumarmánuðina, með lagningu fjallavegar yfir Siglufjarðarskarð. Þetta var merkur áfangi í sögu Siglufjarðar — en ekki síður í ævi Birgis Runólfssonar. Þetta ár hóf hann vöruflutninga með bifreiðum milli Siglufjarðar og Reykjavíkur. Starfræksla Birgis þróaðist með árunum í vaxandi fyrirtæki.

En það krafðist kjarks, framtaks og dugnaðar að sinna slíku starfi við þær aðstæður, sem þá voru fyrir hendi, en þá sannaðist í reynd, að hér var sannur manndómsmaður að verki. Aðstæður breyttust mjög til hins betra við Strákaveg og Strákagöng, en fyrir þessari framkvæmd hafði Birgir heitinn lifandi áhuga, meðan hún var aðeins orð og hugmynd, sem ýmsir voru þá vantrúaðir á.

Og fyrirtæki hans óx fyrir einstakan dugnað og áræði eigandans og annaðist um árabil vöruflutningana til og frá Siglufirði og umboðssölu hér á staðnum. Birgir heitinn átti verulegan hlut að stofnun Vöruflutningamiðstöðvarinnar h.f., Reykjavík, og sat í stjórn þess fyrirtækis frá stofnun þess og meðan ævin entist.

Birgir Runólfsson kvæntist Margrét Pálsdóttir, Hjartarsonar. Varð þeim margra barna auðið:

Alma Birgisdóttir,
Elíngunnur Birgisdóttir,
Páll Birgisson og Runólfur Páll Birgisson (tvíburar),
Björn Páll Birgisson,
Filippus Páll Birgisson,
Þormóður Páll Birgisson og Þorsteinn Páll Birgisson (tvíburar).

Þau hjón urðu fyrir þeirri sáru sorg að missa efni legan son sinn, Pál, á sl. hausti.
Önnur börn þeirra, mannvænleg, eru úr grasi vaxin. Með Birgi Runólfssyni er genginn sérstæður persónuleiki, maður, sem átti til að bera óvenjulegan dugnað, framtak og ósérhlífni. En að baki áræðis og athafna sló gott hjarta, var góður drengur, sannur vinur vina sinna og trúr þeim málefnum og sjónarmiðum, sem hann hafði bundið tryggðir við. —

Við kveðjum þennan húnvetnska Siglfirðing með þökk og virðingu, biðjum honum góðra vega og Guðs handleiðslu á landi eilífðarinnar og vottum ástvinum hans og vandamönnum innilega samúð í sorg og missi. Siglufirði, 9. maí 1970 Stefán Friðbjarnarson.