Bryndís Jónsdóttir (Binna)

Bryndís Jónsdóttir

Bryndís Jónsdóttir fæddist á Siglufirði 1. febrúar 1914. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 30. janúar 2008 -  Foreldrar hennar voru Guðlaug Gísladóttir húsfreyja, f. 20.2. 1880, d. 14. 6. 1966 og Jón Jóhannesson fræðimaður og málafærslumaður, f. 2.7. 1878, d. 16.10. 1953.

Systkini Bryndísar, öll fædd á Siglufirði, eru: Helga Jónsdóttir, bjó í Vestmannaeyjum, f. 18.7. 1902, Dóróthea Sigurlaug, bjó á Siglufirði, f. 6.5. 1904, d. 24.3. 2001, Klara Valdís, bjó síðast á Akranesi, f. 14.6. 1906, d. 12.6. 1969, Jóhannes Guðmundur eldri, f. 1908, d. 1914, Anna, bjó lengst af í Vestmannaeyjum, f. 1.12. 1909, d. 2.8. 1983, Ófeigur Trausti, f. 7.3. 1912, d. 8.1. 1938, Jóhannes Guðmundur yngri, bjó síðast í Reykjavík, f. 20.7. 1916, d. 14.12. 2004, Ingibjörg, bjó á Siglufirði, f. 22.11. 1918, d. 20.10. 1973 og Finnbogi, f. 29.3. 1928, d. 1930.

Einkasonur Bryndísar og Guðbjörns Helgasonar, kjötiðnaðarmanns í Reykjavík, f. 26.8. 1909, d. 4.1. 1977 er Gunnar Trausti Guðbjörnsson, prentari og skiltagerðarmaður í Garðabæ. Gunnar kvæntist á Siglufirði Halldóru Jónasdóttur, áfengisráðgjafa hjá SÁÁ, f. 2.5. 1955. Dætur Gunnars og Dóru eru tvær: 1) Edda Rósa, f. 24. 10. 1972 gift David Jarron og eiga þau Adam Jarron og Andra Jarron. 2) Bettý, gift Óðni Gústafssyni og eiga þau Örnu Mjöll, Freyju og Emblu Óðinsdætur.

Eftir barnaskólanám á Siglufirði hóf Bryndís þátttöku í hinu iðandi atvinnulífi Siglufjarðar við silfur hafsins. Hún fór einnig á vertíðir til Grindavíkur og Vestmannaeyja og inn á milli gætti hún barna. Þegar síldin hvarf vann hún við saltfiskverkun og í frystihúsum bæjarins, auk þess að gera hreinar samtímis þrjár fjölmennar skrifstofur.

Bryndís var létt í lund og létt á fæti, hvers manns hugljúfi og barnagæla hin mesta. Hún hlaut í vöggugjöf ágæta teikni- og leikhæfileika sem ekki síst börn og vinkonur fengu að njóta í ríkum mæli. Bryndís starfaði lengi með Kvenfélaginu Von á Siglufirði og á 75 ára afmæli þess var hún kjörinn heiðursfélagi.