Guðlaugur Sigurðsson (Laugi póstur)

Guðlaugur Sigurðsson póstur

Guðlaugur Sigurðsson (Laugi póstur) og fæddist á bænum Hamri í Stíflu árið 1891 en bjó sín æskuár á Þorgautsstöðum í sömu sveit, sem síðar fór undir stöðuvatn vegna Skeiðsfossvirkjunar. Hann flutti síðan í Haganesvík, þar sem hann stundaði hákarlaveiðar en til Siglufjarðar flutti hann um 1920 og var lengst af póstberi á staðnum.

Laugi var hagmæltur mjög og hafsjór af fróðleik um kveðskap og hina ýmsu bragarhætti. Hann setti svip á lífið á Siglufirði á sinn hægláta hátt og var fólki gjarnan innan handar við að yrkja eftirmæli, afmælisvísur og slíkt auk þess sem hann sendi frá sér ljóðakver og ljóð hans birtust í ýmsum blöðum og tímaritum. Hann lést árið 1971
----------------------  

Stutt afmælisspjall Guðlaugur 80 ára (í Mjölnir)
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=352081&pageId=5595431&lang=is&q=Gu%F0laugur%20Sigur%F0sson


Guðlaugur Sigurðsson

þar sem góðir menn fara, þar eru guðs vegir," sagði stórskáldið Björnstjerne Björnsson. Það er ekki að ástæðulausu, að mér flugu þessi orð í hug, þegar ég vildi minnast vinar míns Guðlaugs Sigurðssonar. Engan mann hef ég þekkt hreinhjartaðri og góðgjarnaðri en hann var.

Heiðarleiki hans og samvizkusemi var svo frábær, að engum hefði betur hæft að taka sér í munn orð Kolskeggs að níðast aldrei á því, sem honum var tiltrúað. Það var því ekki furða, þótt Guðlaugur yrði óvenju vinsæll. Ég hygg, að allir sem þekktu hann hafi verið vinir hans. En þar kom fleira til en þessir mannkostir hans.

Hann var allvel hagmyltur og afburðafróður einkum á rímur og annan gamlan fróðleik. Eins og flestir jafnaldrar hans af alþýðustétt, fór hann á mis við skólalærdóm, en hann aflaði sér þó allmikillar menntunar með lestri góðra bóka. Guðlaugur var fæddur og upp alinn í Fljótum, en átti heima á Siglufirði allan seinni hluta ævinnar.

Alla tíð var hann fátækur af hinum þétta leir, þó að honum tækist að sjá sér og sínum farborða með vinnu og eljusemi, því að aldrei mun hann hafa fallið fyrir þeirri freistingu að sinna fremur sínum andlegu hugðarefnum, ef vinna  bauðst, þótt hann væri eflaust meira hneigður til fræði iðkana en venjulegrar stritvinnu. Hann skráði ýmsan fróðleik og hafði næmt auga fyrir því, hvað var frásagnarvert og vert að geymast og varðveitast frá glötun.

Átthögum sínum unni Guðlaugur meira en, almennt gerist, og þótt skapgerð hans væri þannig, að hann ætti auðvelt með að aðlagast bæði öðru fólki og nýjum aðstæðum, mun hann þó alltaf hafa þráð átthagana. Síðustu stundirnar lá Guðlaugur sjúkur á sjúkrahúsi Siglufjarðar. Honum mun því hafa verið hvíldin kær og átt góða heimvon. Guðlaugur var einn þeirra manna, sem hollt var að kynnast. Ég get að lokum ekki fundið betur viðeigandi kveðjuorð til vinar míns Guðlaugs, en þessar linur eftir uppáhaldsskáld okkar beggja:

„Nú opnar fangið fóstran góða
og faðmar þreytta barnið þitt.
Hún býr þar hlýtt um brjóstið móða
og blessar lokað auga þitt."

Vandamönnum Guðlaugs votta ég dýpstu samúð mína.
Hlöðver Sigurfisson