Haraldur Sveinsson

Haraldur Sveinsson

Haraldur Sveinsson fæddist á Siglufirði 3. október 1926. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík 18. desember 2003 og var útför hans gerð frá Safnaðarheimilinu í Sandgerði 27. desember.

Afi okkar, Haraldur Sveinsson, fæddist á Siglufirði 3. október 1926 og lést 18. desember sl. á 77. aldursári. Móðir hans var Guðbjörg Björnsdóttir er fæddist 12. júlí 1899 á Róðhóli í Sléttuhlíð í Skagafirði, en faðir hans var Sveinn Jóhannesson er fæddist 22. mars 1887 á Heiði í Sléttuhlíð. Afi ólst upp á heimili móður sinnar og móðurforeldra á Siglufirði og hlaut þar hefðbundna skólagöngu.

Þá var Siglufjörður miðstöð síldveiða á Íslandi og skapaði það gróskumikið mannlíf og félagslíf á Siglufirði á árunum þegar afi var að alast upp. Á sumrin var það síldin og allt er henni fylgdi. Á veturna var rólegra í bænum og þá var það snjórinn, vetraríþróttirnar og félagslífið. Allt þetta mótaði æsku- og uppvaxtarár afa. Hann hafði unun af íþróttum og þótti góður íþróttamaður.

Hann stundaði skíðamennsku, sund, frjálsar íþróttir og knattspyrnu á uppvaxtar- og unglingsárum sínum á Siglufirði. Tónlist og söngur skipaði einnig háan sess í lífi afa þegar á æskuárunum. Um miðjan fimmta áratuginn stundaði hann gagnfræðanám við Héraðsskólann á Reykholti í Borgarfirði ásamt hópi knárra Siglfirðinga.

Um 1950 flutti afi suður og kynntist eftirlifandi eiginkonu sinn, Sigurbjörgu Guðmundsdóttur frá Bala á Stafnesi í Miðneshreppi, en hún fæddist 24. ágúst 1934. Þau Búbbi afi og Stella amma hófu sambúð í Sandgerði 1952 og varð þeim fimm barna auðið. Elstur er Guðmundur Gunnar, faðir okkar, þá Guðbjörg, Sigrún Hjördís, Haraldur Birgir og loks Helgi.

Þau byggðu sér einbýlishús að Vallagötu 13 í Sandgerði þar sem fjölskyldan bjó í um tuttugu ár. Þá fluttu þau sig um set að Hlíðargötu 39 í Sandgerði þar sem amma og afi voru búsett þegar afi lést. Barnabörnin eru nú 14 talsins og eitt barnabarnabarn bættist nýverið í afkomendahópinn. Afi fékkst framan af við ýmis störf er tengdust fiskveiðum og fiskvinnslu og starfaði að mestu leyti í landi. Hann þótti hörkuduglegur til vinnu, samviskusamur og ósérhlífinn enda mesta hreystimenni. Um fertugsaldurinn gaf bakið sig og neyddist afi þá til að breyta starfsháttum sínum og taka að sér öllu rólegri störf. Seinustu starfsárin 

starfaði hann við Íþróttamiðstöðina í Sandgerði. Afi var alla starfsævi sína mjög heilsuhraustur að undanskilinni bakveikinni og var honum mjög sjaldan misdægurt.

Afi hafði alla tíð brennandi áhuga á íþróttum, einkum þó knattspyrnunni.

Hann hafði spilað með Knattspyrnufélagi Siglufjarðar þegar hann bjó á Siglufirði og með Reyni í Sandgerði eftir að hann flutti suður. Hann var ákafur stuðningsmaður allra aldursflokka í Reyni og tíður gestur á vellinum og lét hátt í sér heyra. Afi var mjög tónelskur og hafði ágæta og hljómmikla tenórrödd. Hann söng mikið á Siglufirði, m.a. með Karlakórnum Vísi, og áfram þegar hann flutti til Sandgerðis með Karlakór Miðnesinga, Karlakór Keflavíkur og síðan Kór eldri borgara á Suðurnesjum. Lengst söng hann þó í Kirkjukór Hvalsneskirkju eða samfleytt í um 40 ár.

Afi var einstaklega trygglyndur maður, samviskusamur, strangheiðarlegur, sanngjarn, traustur og áreiðanlegur. Hann var glaðsinna og átti það til að gantast, en þó aldrei á kostnað annarra. Til þess var hann einfaldlega of tillitssamur, enda vildi hann engum neitt illt. Trygglyndi afa kom oft fram og er hægt að nefna mörg dæmi um það. Hann hringdi t.d. reglubundið, nærfellt á hverjum degi, um árabil, í tengdaföður sinn og langafa okkar, Guðmund á Bala, þegar hann var orðinn fullorðinn og fundum við það á langafa að honum þótti afar vænt um þá umhyggju og kunni hana vel að meta.

Afi var einstaklega nærgætinn og vinsamlegur við gamalt fólk og náði prýðilegu sambandi við þá eldri.