Hinrik Andrésson

Hinrik Andrésson
Ljósmyndari ókunnur

Hinrik Andrésson fæddist á Siglufirði 3. júní 1926. Hann andaðist á Sjúkrahúsi Reykjavíkur 25. febrúar 2000.
Foreldrar hans voru hjónin Andrés Hafliðason kaupmaður, f. 17. 8. 1891, d. 6.3. 1970, og Ingibjörg Jónsdóttir húsfreyja, f. 12.11 1890, d. 26.5 1961.

Hinrik átti tvö systkin:
Hafliði Andrésson, f. 26.3. 1920, d.13.4 1970, og
Sigríður Jóhönna Andrésson, f. 15.12. 1923. Hinrik kvæntist 5. 10. 1957 eftirlifandi eiginkonu sinni Margrét Pétursdóttir fv. saumakonu og skrifstofukonu, f. 20.2 1923 í Tungukoti á Vatnsnesi. Foreldrar hennar voru Pétur Theodór Jónsson, f. 6.3. 1892, d. 21.9. 1941, bóndi í Tungukoti, og kona hans Kristín Jónsdóttir, f. 12.7. 1891, d. 31.7 1961.

Börn Hinriks og Margrétar eru:
1) Theódór Kristinn Ottósson viðskiptafræðingur, f. 25.7 1951, maki Árný Elíasdóttir fræðslustjóri, f. 14.7 1952. Synir Theodórs eru Rúnar og Grétar Sveinn.
2) Jón Andrjes Hinriksson umboðsmaður, f. 19.5 1958, maki Jónína Brynja Gísladóttir, f. 18.9 1947. Sonur Jóns er Snævar Jón Jónsson.
3) Ingibjörg Hinriksdóttir læknir, f. 6.2. 1962, maki Andrés Ragnarsson sálfræðingur, f. 7.5. 1954. Dóttir Ingibjargar er Margrét.

Hinrik gekk í Barna- og gagnfræðaskóla Siglufjarðar og lauk síðan prófi frá Iðnskóla Siglufjarðar. Hinrik hóf ungur störf hjá Olíuverslun Íslands og átti þar allan sinn starfsferil. Fyrst sem sumarafleysingamaður á skólaárum sínum, síðar fastráðinn sem afgreiðslumaður og 1970 tók hann við starfi föður síns sem umboðsmaður Olíuverslunar Íslands á Siglufirði og gegndi því starfi fram til ársins 1999 er hann lét af störfum vegna aldurs.

Hann var því starfsmaður Olíuverslunar Íslands í meira en hálfa öld. Um margra ára skeið starfaði hann jafnframt sem ökukennari á Siglufirði. Hinrik gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum í bæjarfélaginu. Hann var í 30 ár einn af ábyrgðarmönnum Sparisjóðs Siglufjarðar og átti sæti í stjórn sparisjóðsins í 21 ár.

Hann átti sæti í sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju í 22 ár, lengst af sem gjaldkeri. Þá var hann virkur í starfi Lionshreyfingarinnar og Frímúrarareglunnar og fleiri félaga. Um nokkurra ára skeið var hann hluthafi og stjórnarmaður í Ísafold hf. sem rak samnefnt frystihús og útgerð á Siglufirði. Síðasta æviár sitt bjó Hinrik í Reykjavík.