Indriði Pálsson

Indriði Pálsson
Ljósmynd: Kristfinnur

Indriði Pálsson fæddist í Siglufirði 15. desember 1927. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 13. maí 2015.

Foreldrar hans voru hjónin Páll Ásgrímsson, verkamaður og síðar verslunarmaður í Siglufirði, f. 21. mars 1892, d. 3. ágúst 1978, og María Sigríður Jóhanna Indriðadóttir, húsfreyja, f. 6. mars 1900, d. 3. desember 1935.

Albræður Indriða voru
Einar Pálsson, f. 9. apríl 1929, d. 18. júní 1977, og
Ásgrímur Pálsson, f. 13. ágúst 1930, d. 17. desember 1984.

Systkini frá seinna hjónabandi Páls með Ingibjörg Sveinsdóttir, konu hans eru 
Magnús Pálsson, f. 6. september 1939,
Sigríður Pálsdóttir, f. 10. desember 1940, og
Lilja Kristín Pálsdóttri,  (Lilja Pálsdóttir) f. 5. janúar 1948.

Indriði kvæntist þann 15. janúar 1955 Elísabetu Guðnýju Hermannsdóttur, húsfreyju, f. 16. júní 1928 á Seyðisfirði. Foreldrar hennar voru Hermann Vilhjálmsson, útvegsbóndi á Hrauni í Seyðisfjarðarhr., f. 30. september 1984, d. 20. júlí 1967, og k.h. Guðný Vigfúsdóttir, húsfreyja, f. 19. nóvember 1893, d. 20. ágúst 1984.

Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1948, lauk embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1954 og öðlaðist réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 1958. Börn Indriða og Elísabetar eru:

1. Sigríður, f. 13. febrúar 1956, maki Margeir Pétursson, f. 15. febrúar 1960. Dóttir þeirra er Elísabet, f. 31. janúar 1985. Sambýlismaður hennar er Arnór Gauti Hauksson.
2. Einar Páll, f. 8. maí 1963, maki Halla Halldórsdóttir, f. 10. janúar 1964. Börn þeirra eru: a) Indriði, f. 23. nóvember 1992, sambýliskona hans er Aðalheiður Ósk Pétursdóttir, b) Halldór, f. 9. júní 1996, og c) Ingibjörg, f. 29. júní 1999. 

Indriði var fulltrúi hjá Sameinuðum verktökum á Keflavíkurflugvelli frá apríl 1955 til ársloka 1956. Indriði rak eigin lögfræðistofu í Reykjavík frá 1. janúar 1957 til 31. desember 1958 og var jafnframt frkvstj. Félags lögg. rafvirkjameistara 1957-58 og Meistarasambands byggingarmanna 1958-59.

Fulltrúi forstjóra Olíufélagsins Skeljungs hf. frá 1. janúar 1959 til ársloka 1970. Ráðinn forstjóri Skeljungs frá 1. janúar 1971 og gegndi því starfi til 30. júní 1990. Indriði gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum í þágu fyrirtækja og félagasamtaka. Hann var formaður Stúdentafélags HÍ 1949-50, var í sambandsstjórn Vinnuveitendasambands Íslands frá 1971 og í framkvæmdastjórn þess frá 1972 til 1978.

Í stjórn Verslunarráðs 1982 til 1990. Í stjórn H.F. Eimskipafélags Íslands frá september 1976 til 1999. Varaformaður stjórnar 1984 til 1992 og formaður 1992 til 1999. Í stjórn Flugleiða hf. frá 1988 til 2001 og Úrvals-Útsýnar 1987 til 1992. Formaður stjórnar Skeljungs frá 1990 til 1999. Þá sat hann í stjórnum ýmissa smærri fyrirtækja.

Hann var félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur, gegndi þar stjórnarstörfum 1984 til 1987 og var forseti klúbbsins 1985-1986. Indriði var stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi frá september 1988 til febrúar 1999. Indriði var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1988 og stórriddarakrossi 1993. Eitt helsta áhugamál hans var söfnun íslenskra frímerkja og hlaut hann alþjóðlegar viðurkenningar fyrir vandað og sérhæft safn sitt.