Jóhann Kristinn Kristjánsson verkstjóri

Jóhann Kristjánsson
Ljósmynd: Kristfinnur

Jóhann Kristjánsson andaðist í Sjúkrahúsi Siglufjarðar 23. október 1991 og varútför hans gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag 2. nóvember.
Foreldrar Jóhanns voru Björg Þorbergsdóttir og Kristján Björnsson. Hann ólst upp hjá Jóhönnu Þorbergsdóttur móðursystur sinni og manni hennar, Helga Helgasyni, sem bjuggu á Hringveri í Skagafirði.

Jóhann Kristjánsson ólst upp við öll venjuleg sveitastörf og man ég eftir því að móðir mín sagði mér að þau hefðu verið samtímis á Hólum í Hjaltadal þar sem hann var við tamningar. Á þessum árum var Jóhann vinnumaður á ýmsum bæjum í Skagafirði. Átti Jóhann þá mjög góða hesta enda viðurkenndur hesta- og tamningamaður.

Jóhann flyst til Siglufjarðar 1933 og vinnur hann þá alla venjulega verkamannavinnu.

Hann hefur störf hjá Rafveitu Siglufjarðar um 1940 og er fastráðinn verkstjóri hjá rafveitunni 1944, þegar byrjað er á byggingu Skeiðsfossvirkjunar.

Hann tók þátt í að leggja háspennukerfið á Siglufirði ásamt því breyta öllu dreifikerfi Rafveitu Siglufjarðar úr loftlínum í jarðstrengi. Jóhann gerþekkti því allar götulagnir og kom sú vitneskja hans oft að góðum notum þegar um viðgerðir í götum var að ræða. Einnig var það mikils virði þegar dreifikerfi rafveitunnar var kortlagt að geta stuðst við þekkingu hans.

Jóhann vann með fimm rafveitustjórum og með undirrituðum í 15 ár. Jóhann slasaðist mikið árið 1967, þegar hann varð undir þungum stafla af spónaplötum á verkstæði rafveitunnar. Var hann lengi frá vinnu og gekk undir margar erfiðar skurðaðgerðir, sýndi hann fádæma hörku og dugnað á þessu tímabili, en til vinnu kom hann aftur og hætti ekki fyrr en fullum starfsaldri var náð.

Á þessu erfiða tímabili kom í ljós hvað Jóhann átti einstaklega rólega skaphöfn og dáðist ég að honum fyrir hvað hann tók þessum erfiðleikum með mikilli karlmennsku.

Jóhann hóf sambúð með María Benediktsdóttir árið 1947, ættaðri úr Þingeyjarsýslu, eignuðust þau tvö börn:
1) Jóhanna Jóhannsdóttir , og
2) Sigurbjörn Jóhannsson.
María átti dóttur áður, Una Ásgeirsdóttir. Þau eru öll gift og barnabörnin eru orðin 11 og barnabarnabörnin einnig 11.

Jóhanni var mjög umhugað um fjölskylduna og gekk hann Unu í föðurstað og voru barnabörnin hans mesta yndi.

María og Jóhann gerðu upp íbúðarhúsið í Haganesi í Fljótum þar sem fjölskyldan átti athvarf og stundaði Jóhann gjarna veiði í Miklavatni á sumrin og naut verunnar þar mikið Ég minnist hans með miklu þakklæti fyrir þann tíma sem við unnum saman, hann var duglegur, samviskusamur og trúr starfsmaður og hafði sem verkstjóri rafveitunnar oft mikil mannafáráð. Hann hafði sérstakt lag á með sínu rólega fasi að ná miklum árangri við oft erfiðar aðstæður.

Að leiðarlokum vil ég þakka samstarf sem aldrei bar skugga á, og votta Maríu og börnunum og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Sverrir Sveinsson – 1991