Áki Jakobsson ráðherra

Áki Jakobsson - Ljósmynd Kristfinnur

Áki Jakobsson f. 01-07-1911 - d.11-09-1975 fyrrum alþm. og ráðherra, varð bráðkvaddur hér í Reykjavík 11. sept. 1975, 64 ára að aldri.

Áki Jakobsson var fæddur í Húsavík við Skjálfanda 1. júlí 1911. 

Foreldrar hans voru

Jón Ármann kaupmaður þar, síðar bókhaldari í Reykjavík, Jakobsson kaupstjóra í Húsavík Hálfdánarsonar og kona hans, Valgerður Pétursdóttir útvegsbónda í Ánanaustum í Reykjavík Gíslasonar.

Árið 1913 fluttist Áki með foreldrum sínum vestur um haf og átti heima í Winnipeg til 9 ára aldurs, en á árinu 1920 fluttist fjölskyldan búferlum til Reykjavíkur.

Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1931 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1937. Að námi loknu var hann bæjarstjóri á Siglufirði á árunum 1938–1942. Árið 1942 fluttist hann öðru sinni til Reykjavíkur og rak hér síðan lögfræðiskrifstofu til dánardægurs.

Héraðsdómslögmaður varð hann árið 1944 og hæstaréttarlögmaður 1957.

Hann var landsk. alþm. frá vori til hausts 1942 og síðan alþm. Siglfirðinga 1942–1953 og aftur 1956–1959, sat á 16 þingum alls.

Atvmrh. var hann frá 21. okt. 1944 til 4. febr. 1947. Árið 1942 tók hann sæti í mþn. í stjórnarskrármálinu, var kosinn árið 1943 í mþn. í sjávarútvegsmálum og skipaður sama ár í nefnd til að athuga hvernig megi veita kaupstöðum, kauptúnum og sjávarþorpum eignar- og umráðarétt yfir nauðsynlegum löndum og lóðum með sanngjörnum kjörum, og samdi n.frv. til l. um ræktunarlönd og byggingarlóðir í kaupstöðum og kauptúnum. Í Síldarútvegsnefnd átti hann sæti 1944–1946 og í stjórn byggingarsjóðs kaupstaða og kauptúna 1950–1953.

Áki Jakobsson hneigðist ungur að aldri að róttækum stjórnmálaskoðunum. Hann tók þegar á skólaárum sínum þátt í íslenskri stjórnmálabaráttu af lífi og sál.

Hann var athafnasamur bæjarstjóri í Siglufirði að loknu háskólanámi og naut kjörfylgis bæjarbúa til setu á Alþ. á annan áratug.

Flokksbræður hans völdu hann ungan að aldri til setu í ríkisstj. Hann var atvmrh. í nýsköpunarstjórninni á tímum mikilla framkvæmda í atvinnumálum á vegum ríkisins.

Eftir að ráðherradómi lauk sinnti hann lögfræðistörfum ásamt þingmennsku og fékkst þá um skeið dálítið við rekstur útgerðar og fiskvinnslu.

Áki Jakobsson var einarður og fylginn sér í baráttu fyrir stefnumálum sínum, snjall og áhrifamikill málafylgjumaður og ötull forvígismaður á því sviði stjórnmála þar sem hann hafði haslað sér völl. Á ráðherraárum hans féll í hans hlut að hafa forstöðu um miklar framkvæmdir til eflingar atvinnuvegum landsmanna og gekk hann að því starfi með miklum dugnaði og stórhug.

Ekki fór hann ætíð troðnar slóðir í stjórnmálum og stóðu oft harðar deilur um orð hans og athafnir. Hann var harðskeyttur og rökfastur í málfærslu sinni á sviði stjórnmála og í réttarsölum, víðlesinn og margfróður í ýmsum greinum. Um skeið kvað mikið að honum á vettvangi þjóðmála, en ýmis atvík og aðstæður urðu til þess að hann hvarf af Alþingi á góðum starfsaldri.

Minningargreinar: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=221436&pageId=2846610&lang=is&q=%C1ki%20Jakobsson%20%C1ki%20Jakobsson