Sofus Jörgen Holm

Jörgen Holm

Jörgen Holm var fæddur á Flateyri við Önundarfjörð 11. mars 1899. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 7. júlí síðastliðinn.

Foreldrar hans voru Sofus Henrik Holm, forstöðumaður Ásgeirsverslunarinnar á Flateyri, og Sophia Holm, fædd Nilsen.

Jörgen Hólm var fjórði í röð sex barna þeirra hjóna sem upp komust, en þau voru:

María Holm,
Wilhelm Holm,
Ásgeir Holm,
Gunnlaugur Holm og
AdolfHolm.
Þau eru öll látin.

Hinn 17. júní 1932 kvæntist Jörgen Sigurbjörg Gunnarsdóttir Bóassonar frá Teigagerði í Reyðarfirði. Hún lést 22. febrúar 1963.

Börn Jörgens og Sigurbjargar eru:

1) Kristín Jóhanna, kjördóttir, gift Aðalsteinn Gíslason vélfræðingur.
Þeirra börn eru:

  • Rúnar Jörgen,
  • Bára,
  • Sigurbjörn Gísli og
  • Gunnar Kolbeinn. 

2) Daníel Pétur Baldursson fiskverkandi, fóstursonur, kvæntur Þórleif Alexandersdóttir.
Þeirra börn eru:

  • Baldur Jörgen Daníelsson,
  • Sigurbjörg Daníelsdóttir og
  • Daníel Pétur Daníelsson.

Útför Jörgens fór fram frá Siglufjarðarkirkju og hófst athöfnin klukkan 14. 

-----------------------------------------------------------------------

Jörgen Hólm f. 11.3/.1899, d, í júlí 1997

Þegar afi skrifaði eitt sinn í afmælisdagbók sem ég átti, setti hann tölurnar 99 fyrir aftan nafnið sitt. "Ég er sko fæddur á hinni öldinni," sagði hann kankvís. Ég var þá þrettán ára og einhverra hluta vegna er þetta augnablik mér alltaf minnisstætt.

Fæddur á hinni öldinni. Þetta var eitthvað svo fjarstæðukennt. Afi var þá 77 ára en það var eins og hann kynni ekki að vera gamall. 77 fannst mér alveg hellingur og hefur verið næg ástæða hingað til fyrir fólk að leggjast í kör. En ekki fyrir afa. Hann var ekki einu sinni hættur að vinna þá.

Sjötugur að aldri hafði hann hætt að vinna hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. En þá fór hann bara að vinna við flökun hjá fóstursyni sínum, Daníel Baldursson. Þar vann hann þar til hann varð 87 ára. Í mínum augum sem barns og unglings, var afi ekkert gamall og ég held að hann hafi ekki litið á sjálfan sig sem gamlan heldur.

Hann talaði um að dvalarheimilið á Siglufirði væri bara fyrir gamla fólkið og þangað fluttist hann aldrei. Hann bjó ennþá heima hjá sér á Hafnargötunni þegar hann lést, 98 ára að aldri. Þá var hann nýkominn úr ferð til Hornafjarðar. Um hann lék lífsorka, langt umfram þá sem honum yngra fólk hafði.

Þessari orku fylgdi kraftur sem ég hef sjaldan séð í eldra fólki. Mér fannst afi alltaf vera brosandi og glaður þegar hann kom suður og gisti hjá okkur. Þessar suðurferðir voru einkum í tengslum við ferðir afa til útlanda, en þær stundaði hann reglulega þar til hann varð níræður. Einu sinni sýndi afi mér mynd af torkennilegum fararskjóta sem hann sat í. Þetta var kínverskur "leigubíll", rickshaw, dreginn áfram af öðrum manni. Myndin var gömul, tekin í Shanghæ. Ég leit aftur með undrun á afa. 

Ekki nóg með að hann væri fæddur á hinni öldinni. Hann hafði líka komið til Kína. Það bjó alltaf eitthvað flökkueðli í honum. 25 ára gamall tók hann sér far með gufuskipi til Kaupmannahafnar til að fá pláss á skipi sem sigldi um heimshöfin. Það var ekkert sjálfgefið að reynslulaus maður fengi slíkt pláss, en fyrir þrautseigan mann var slíkt engin fyrirstaða. Afi byrjaði á seglskútum sem fluttu varning milli hafna.

Síðar fór hann á gufuskip og loks á skólaskip. Eftir það var leiðin greið og hann varð fullgildur háseti á skipum sem sigldu til fjarlægra landa. En ekki voru allar ferðir hans til útlanda farnar af frjálsum vilja. Árið 1919 var afi bátsverji á ms. Jenný. Hann lenti í hrakningum suður af landinu ásamt bátsfélögum sínum tveimur. Svo fór að formaðurinn ákvað að þeir skyldu yfirgefa bátinn og fara um borð í nærstatt skip. Þetta var enskur togari sem var þá að verða uppiskroppa með kol og var á leiðinni til Englands.

Þá var auðvitað ekki sú loftskeytatækni sem gerði skipverjum kleift að láta vita af sér. Afi og félagar hans af ms. Jenný þurftu að bíða með að tilkynna að þeir væru heilir á húfi þar til þeir komu til Englands. En þar tók ekki betra við, því sæsímastrengurinn reyndist bilaður. Á sama tíma fannst ms. Jenný mannlaus á reki og þremenningarnir taldir af.

Það var ekki fyrr en eftir mánaðarvist erlendis að skipbrotsmennirnir fengu far heim á ný og gátu látið vita af sér. Afi hætti siglingum sínum um heimshöfin árið 1931. Hann var þó áfram til sjós; reri á vetrarvertíðum í Vestmannaeyjum, en á sumrin frá Norðurlandi, m.a. úr Flatey á Skjálfanda og á reknetum frá Siglufirði.

Og það var á Siglufirði sem hann kunni best við sig og bjó stærstan hluta ævi sinnar. Hann kvæntist árið 1932 Sigurbjörg Gunnarsdóttir, dóttur Gunnars Bóassonar útvegsbónda í Teigagerði við Reyðarfjörð. Ég varð aldrei þeirrar lukku aðnjótandi að þekkja ömmu, því hún dó nokkrum mánuðum áður en ég fæddist. Sjálfur var afi fæddur í Önundarfirði en ólst að mestu leyti upp hjá afa sínum og nafna á Ísafirði.

Ævi hans spannaði næstum heila öld.
Flest þessi ár var hann vel ern og sá um sig sjálfur, en hin síðari ár naut hann þess að eiga að fósturson sinn Daníel og Þórleifu konu hans.
Afi hefði aldrei komist hjá því að fara inn á dvalarheimilið ef aðstoðar og stuðnings þeirra hefði ekki notið við. Hin síðari ár var heilinn farinn að hrörna og ég fann að hann gerði ekki alltaf greinarmun á mér og bræðrum mínum þegar við töluðumst við í síma.

En mestan hluta ævi sinnar var hann sjálfstæður maður sem lét lítinn bilbug á sér finna. Hann vann alla tíð sjómanns- og verkamannavinnu og beitti sér m.a. fyrir stofnun vindumannadeildar innan verkalýðsfélagsins Þróttar á Siglufirði á fjórða áratugnum. Fram að því höfðu skipverjar séð sjálfir um uppskipunina. En fyrir tilstuðlan afa og félaga hans færðust þessi störf í land. Það munaði um minna í kreppunni. Ég kynntist afa mínum aldrei vel.

Hann bjó á Siglufirði og ég í Reykjavík. En þegar hann kom í bæinn, gisti hann hjá dóttur sinni og tengdasyni. Hann gaf aldrei mikið fyrir lífið í henni Reykjavík og kom varla þangað nema svo að hann væri að fara til útlanda. En það var alltaf tilhlökkun í mér þegar hann var að koma. Ég hafði það á tilfinningunni að hann væri alltaf í góðu skapi, alltaf brosandi. Hann horfði sposkur á mig, sagði eitthvað fyndið og dró augað í pung.

Afi var hjá okkur þegar Fischer og Spasskí tefldu í Laugardalshöllinni. Ég var níu, afi sjötíu og þriggja og við sátum löngum stundum og tefldum á taflborði sem var rautt og gult og gæti hafa fylgt með pakka af kornflögum. Ekki man ég hvernig þessu einvígi okkar lauk en ég man vel að afi fór alltaf halloka fyrir Gunnari bróður. Afi lék mannganginn, en Gunni, sem var þriggja ára, fékk að vaða fram og aftur taflborðið og drepa eins og hann lysti.

Þetta fannst mér ójafn leikur og ég var hissa á því með hversu miklu jafnaðargeði afi tók þessum ósköpum. Ef ég gerði athugasemd þegar Gunni drap hrók og kóng í sama leiknum sneri sá gamli sér brosandi að mér og dró augað í pung.

Og þannig man ég best eftir þér, afi minn. Sem kankvísum gömlum manni sem fannst gaman að grínast og virtist alltaf vera í góðu skapi. Fyrir þessar minningar langar mig til að þakka þér. Og fyrir að hafa verið lifandi sönnun þess að maður þarf ekki að vera gamall, þó maður sé orðinn gamall.

Þinn dóttursonur, Sigurbjörn Gísli Aðalsteinsson