Bryndís J Blöndal verslunarmaður

Bryndís Blöndal - Ljósm: mbl.

Bryndís Blöndal fæddist á Siglufirði 12. október 1913. Hún lést á heimili sínu að Laugarnesvegi 80, Reykjavík, 11. ágúst 2006

Foreldrar hennar voru Jósep Lárusson Blöndal frá Kornsá í Vatnsdal, símstjóri og kaupmaður á Siglufirði og Guðrún Guðmundsdóttir húsmóðir frá Hóli í Lundarreykjardal. 

Systkini Bryndísar voru, 

1) Sigríður Blöndal, f. 1908, d. 1934, 

2) Kristín Blöndal, f. 1910, d. 1931, 

3) Guðmundur Blöndal, f. 1911, d. 1986,

maki Rósa Gísladóttir f. 1906, 

4) Lárus Þ.J. Blöndal, f. 1912, d. 2003,

maki Guðrúnu S. Jóhannesdóttur f. 1923, 

5) Anna Blöndal, f. 1914, d. 1983, 

6) Haraldur Hans Blöndal, f. 1917, d. 1964,

maki Sigríði Pétursdóttur f. 1915, d. 2000, 

7) Halldór Blöndal, f. 1917, d. 1993,

maki Guðrún Kristjánsdóttir f. 1920, d. 2002 og 

8) Óli J Blöndal, f.1918, d. 2005,

maki Margrét Björnsdóttir f. 1924.

Útför Bryndísar var gerð frá Grafarvogskirkju 31. ágúst, í kyrrþey.

Bryndís Blöndal varð 92ja ára. Bryndís fæddist á Siglufirði og ólst þar upp í hópi 10 systkina sem nú eru öll látin.

Bryndís varði meirihluta starfsævi sinnar í Aðalbúðinni á Siglufirði ásamt systkinum sínum Önnu, Lárusi og Óla. Hún var dugnaðarkona sem lítið fór fyrir, var lítt gefin fyrir að trana sér fram. Margar minningar bernsku minnar eru tengdar Aðalbúðinni þar sem Bryndís lék stórt hlutverk. Allt milli himins og jarðar fékkst þar, bækur, fatnaður, vefnaðarvara, heimilistæki, leikföng, sælgæti o.s.frv. og má segja að Aðalbúðin hafi verið hálfgerð félagsmiðstöð Siglfirðinga í þá daga. Oft komu menn eingöngu til að spjalla um málefni líðandi stundar og þá sérstaklega tengd pólitík enda systkinin annáluð fyrir glaðværð og heiðbláar pólitískar skoðanir sínar.

Bryndís og Anna Blöndal systir hennar bjuggu lengst af ásamt foreldrum sínum að Lækjargötu 5 á Siglufirði en systurnar önnuðust foreldra sína af stakri natni alla tíð. Vegna veikinda Önnu ákváðu þær að flytja til Reykjavíkur árið 1981 til að vera nær þeirri heilbrigðisþjónustu sem Anna þurfti á að halda. Lækjargata 5 á Siglufirði var miðstöð fjölskyldunnar. Þar voru hefðir í heiðri hafðar og má nefna að fjölskylda og vinir komu saman og fögnuðu sumri með eggjasnafsi á sumardaginn fyrsta.

Þetta var skemmtilegur siður sem þær héldu á lofti sem kom frá fjölskyldu afa Jóseps frá Kornsá í Húnavatnssýslu. Einnig var alltaf komið saman um jólin og í tilefni afmæla ömmu og afa þrátt fyrir að þau væru löngu horfin á braut. Borð svignuðu undan kræsingum sem Önnu og Bryndísi fannst aldrei nóg af en þær voru ávallt höfðingjar heim að sækja. Það er óhætt að segja að Bryndís hafi að öðru leyti lítið verið fyrir mannamót, hún vildi fá alla í heimsókn til sín en var ekkert fyrir að fara að heiman. Ef hún mætti í veislur var hún fljót að láta sig hverfa í eldhúsið til að hjálpa til. Bryndís var einstök barnagæla.

Ég minnist þess þegar við bróðir minn fengum að gista hjá þeim systrum, lögðu þær sig allar fram um að okkur liði sem best og fyrir svefninn fengum við ævinlega skál í rúmið með brytjuðu suðusúkkulaði og epli. Hún passaði alla tíð upp á að börnin gætu dundað sér hjá henni með því að hafa dúkkur, kubba, bækur, spil og bíla til taks. Henni þótti sérstaklega vænt um þegar krakkarnir mínir kölluðu hana ömmu, enda var hún eins og amma þeirra.

Eftir að Anna dó var Bryndís mikið ein en hún undi sér vel enda hafði hún einstakt jafnaðargeð, var ávallt ung í anda, full af bjartsýni og mikill húmoristi. Hún fylgdist vel með öllum fjölskyldumeðlimum í leik  starfi og gat sagt manni nýjustu fréttir um sína nánustu. Allt fram á síðasta dag var hún eldklár á öllu sem var að gerast í kringum hana og ekki fölnuðu skoðanirnar með aldrinum.....................