Eiríkur Guðmundsson byggingameistari

Eiríkur Guðmundsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Eiríkur Guðmundsson andaðist í Reykjavík þann 9., maí 1980. Hann var fæddur að Þrasastöðum í Stíflu 28. júní árið 1908. 

Foreldrar hans voru hjónin Guðný Jóhannsdóttir og Guðmundur Bergsson, er þá voru ábúendur að Þrasastöðum, vel gerð og mikils metin. Þrasastaðir er fremsti bærinn í Stíflu og næsta jörð við Lágheiði, sem þjóðvegurinn liggur yfir til Ólafsfjarðar.

Sama ættin hefir búið þar frá því um 1760 og hafa synir tekið við af föður, þar til fyrir nokkrum árum, að Hartmann, yngsti bróðirinn, varð að bregða búi sökum heilsubrests og var jörðin þá seld. Eiríkur ólst upp í hópi átta systkina, er til aldurs komust, og var hann sjötti í aldursröðinni. Um fermingaraldur varð hann að hverfa burt af æskuheimilinu og fara að vinna fyrir sér, eins og þá var títt um unglinga í sveitum.

Eiríkur erfði frá föður sínum hagleik og sköpunargáfu. Því réðst hann, bláfátækur unglingur, til smíðanáms í Siglufirði. Hann lærði hjá Karl Sturlaugsson, sem var mikils metinn trésmíðameistari. Námið var fjögur ár og ekkert kaup.

Eiríkur kvæntist frændkonu sinni, Ólöf Jónsdóttir, bónda í Tungu, sem var einn helsti bóndinn í Fljótum á þeim árum, og gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína.

Móðir Ólafar var Sigurlína Hjálmarsdóttir, fyrirmannleg og glæsileg kona. 

Hún gegndi meðal annars nærkonustörfum í forföllum yfirsetukvenna og lánaðist það í öllum tilfellum vel. 

Eiríkur og Ólöf bjuggu í Stíflu í sjö ár, fyrst í Tungu og síðar á Þrasastöðum.

Árið 1937 fluttust þau til Siglufjarðar og áttu þar heimili í 27 ár. Þar stundaði Eiríkur smíðar og var eftirsóttur. 

Hann var aðalverkstjóri Siglufjarðarbæjar í mörg ár. Hann var fenginn til þess að vera verkstjóri við fyrsta áfanga hafnargerðar í Þorlákshöfn og fluttist fjölskyldan þá til Reykjavíkur árið 1964.

Hafa þau og flest af börnum þeirra átt þar heima síðan.

Eftir að umsömdu verki lauk í Þorlákshöfn, gegndi Eiríkur margvíslegum störfum í Reykjavík. Var hann vinnandi til dánardægurs, með nær því óskerta starfsorku, nærri 72ja ára. 

Börn þeirra eru tíu að tölu, öll vel gerð og farsæl. Hefir Ólöf þar skilað vel stóru og vandasömu móðurhlutverki.

Börnin eru nú öll gift nema yngsta dóttirin og barnabörnin eru orðin 23 talsins. Eiríkur Guðmundsson var greindur maður og fríður sýnum, vel meðalmaður á hæð, grannvaxinn, beinn og rösklegur. Hann var glaður og orðheppinn í vinahópi og fylgdist vel með í stjórnmálum og öðru því sem var að gerast á líðandi stund.

Hann var lánsamur með konuna og börnin og alla afkomu sína. Það var skylduliði hans óvænt áfall, er ævi hans var svo snögglega lokið. Vertu sæll vinur og bróðir. Víðfeðm öll tilveran er. Nú kannar þú kenninga slóðir. Ég kem senn á eftir þér. Björt og blessuð veri minning hans.

Útför Eiríks heitins Guðmundssonar fór fram frá Fossvogskirkju.

Jóhann Guðmundsson