Sigríður Lovísa Guðlaugsdóttir

Sigríður Lovísa Guðlaugsdóttir
Lósmyndari ókunnur

Sigríður Henriksen  fæddist á Akureyri 9. október 1913. Hún lést á öldrunardeild Landspítalans við Hringbraut 28. október 200
Foreldrar hennar voru hjónin Petrína Þórey Sigurðardóttir veitingakona, f. í Vík í Héðinsfirði 22. október 1879, d. á Siglufirði 4. ágúst 1945, og Guðlaugur Sigurðsson skósmiður, f. á Ölduhrygg í Svarfaðardal 20. júlí 1874 , d. á Siglufirði 4. júlí 1949.

Lovísa var yngst fimm systkina sem öll voru fædd á Akureyri, hin voru:

a) Snorri Sigurður Louís Guðlaugsson, f. 14. mars 1901, d. 20, júní 1902,
b) Guðný Sigrún Guðlaugsdóttir, f. 9. maí 1902, d. 22. maí 1905,
c) Sigrún Guðlaugsdóttir, f. 5. febrúar 1907, d. 6. ágúst 1954, gift Olaf Henriksen, síldarkaupmaður á Siglufirði, f. 30.janúar 1903, d. 31. desember 1956.
d) Óskar Guðlaugsson skósmiður, f. 5. ágúst 1909, d. 20. nóvember 1984, kvæntur Guðrún Jónsdóttir, f. 29. september 1902, d. 21. júlí 1984. Uppeldissystir hennar er Sigríður Lárusdóttir, fv. kaupmaður í Reykjavík, f. 5. maí 1918.

Sigríður Lovísa giftist 7. júlí 1945 í Reykjavík Magnús Stefánsson skrifstofumaður, f. á Víðilæk í Skriðdal 19. mars 1907, d. í Reykjavík 14. janúar 1981.
Foreldrar hans voru hjónin Jónína Salný Einarsdóttir, f. 25. maí 1876, d. 14. september 1917, og Stefán Þórarinsson, b. og hreppstjóri á Mýrum í Skriðdal, f. 6. september 1871, d. 17. janúar 1951.
Dóttir Lovísu og Magnúsar er Sigrún Magnúsdóttir, tölvunarfræðingur, f. í Reykjavík 29. október 1949. Eiginmaður hennar er John Declan Kelleher sendiherra, f. í Chesterfield í Englandi 21. september 1952. Þau eru búsett í Brussel. 

------------------------------------------------------

Útför Lovísu fór fram frá Fossvogskirkju í dag og hófst athöfnin klukkan 13.30.

Stundum kemur dauðinn sem líknarhönd. Þannig kom hann til systur minnar. Hún var búin að liggja lömuð á sjúkrahúsi í eitt og hálft ár. Hann var því kærkominn og leiddi hana á guðsvegu.

Árið 1917 fluttist fjölskylda Lovísu frá Akureyri til Siglufjarðar og þar ólst hún upp á glaðværu heimili þar sem mjög gestkvæmt var, enda rekið þar veitingahús. Ég bættist í fjölskylduna 18 vikna stelpukrakki, systurdóttir Petrínar, er vantaði ást og umhyggju vegna veikinda og andláts móður minnar. Mér var tekið opnum örmum og naut þess oft að vera yngsta barnið. Þann sess tók ég frá Góu, en svo var Lovísa kölluð, en þetta varð aldrei til vandræða og henni þótti ósköp vænt um litlu systur.

Síldarævintýrið var á hápunkti þegar við vorum að alast upp og Siglufjörður miðstöð síldveiðanna. Fjölmargir leituðu sér þar vinnu á sumrin og erlendir veiðimenn og síldarkaupmenn flykktust þangað, fullhlaðin síldarskip flutu að landi og saltað var á öllum plönum. Allir sem vettlingi gátu valdið unnu á meðan þeir gátu staðið þegar tarnirnar voru. Í einni slíkri törn saltaði Góa í 54 tunnur í einni lotu.

Góa hafði listræna hæfileika og í barnaskóla vakti vandvirkni hennar og samviskusemi athygli, enda fékk hún bókarverðlaun fyrir "bestu framfarir í skrift" og vatnslitateikningar hennar voru einstakar. Þessa iðju tók hún upp síðar á ævinni og fór að mála blóma- og landslagsmyndir.

Snemma fór Góa að fást við handsnúnu saumavélina hennar mömmu og margan fallegan kjólinn saumaði hún á dúkkurnar mínar. Þetta var upphaf þess er seinna varð. Góa lærði kjólahönnun hjá Guðrúnu Arngrímsdóttur kjólameistara í Reykjavík og aflaði sér frekari þekkingar í faginu í Kaupmannahöfn. Hún rak saumastofu á Siglufirði og í Reykjavík, stofnaði kjólaverslunina Fix í Reykjavík ásamt Kristínu Halldórsdóttur og veitti forstöðu kjólasaumastofu fyrirtækisins. Þá var Lovísa ein af stofnendum Kjólameistarafélags Reykjavíkur og sat í fyrstu stjórn þess.

Lovísa fékk hjartakast fyrir hartnær 15 árum og var flutt til meðferðar til London. Á leiðinni frá flugvelli til sjúkrahúss varð hún mjög alvarlega veik, en læknir sem var með í för gat komið í veg fyrir hjartaslag. Lovísa sagði mér seinna, að henni hefði fundist Magnús (maður hennar er var látinn) hefði viljað þá fá sig með sér, en hún ekki viljað fara. Nú er hún komin til hans og ekki þarf að efast um móttökurnar. Löngum sjúkdómsferli er lokið og þá er gott að halla höfði sínu í Drottins skaut. Ég vil að lokum þakka langa og góða samfylgd og votta Sigrúnu og Declan samúð mína. Blessuð sé minning Sigríðar Lovísu Guðlaugsdóttur.

Sigríður Lárusdóttir.