Skarphéðinn Guðmundsson tækjamaður

Skarphéðinn Guðmundsson

Skarphéðinn Guðmundsson fæddist í Haukadal í Dýrafirði 31. júlí 1922. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 9. des. 2003.
Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Katrín Jónsdóttir og Guðmundur Jón Jónsson. Þau eru bæði látin.

Skarphéðinn ólst upp í stórum systkinahópi en þau voru átta systkinin. Elstur var

Hannes, 
Hjörleifur,
Skarphéðinn,
Kristjana,
Anna,
Guðný,
Guðjón 
Stefán.

Eru þrjú þeirra á lífi, Kristjana búsett í Bandaríkjunum, Guðjón í Reykjavík og Stefán á Sauðárkróki.

Skarphéðinn kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Fanney Vernharðsdóttir, hinn 14. febrúar 1948.
Þau eignuðust fimm börn:

1) Guðmund Jón Skarphéðinsson, (Guðmundur Skarphéðinsson) kvæntur Elín Anna Gestsdóttir (Elín Gestsdóttir) og eiga þau þrjár dætur og átta barnabörn;

2) Anna Margrét Skarphéðinsdóttir, á hún þrjár dætur og þrjú barnabörn;

3) Sigríður Katrín Skarphéðinsdóttir, sambýlismaður hennar er Sveinn Ástvaldsson og eiga þau fjóra syni og fjögur barnabörn;

4) Vernharður Skarphéðinsson, kvæntur Helga Jósepsdóttir og eiga þau sex börn og eitt barnabarn;

5) Guðfinna Jóna Skarphéðinsdóttir, gift Þröstur Ingólfsson og eiga þau þrjú börn.

Útför Skarphéðins fór fram frá Siglufjarðarkirkju  og hófst athöfnin klukkan 14.

Það er oft erfitt að kveðja góðan mann og á það svo sannarlega við núna. Er mér efst í huga þakklæti fyrir að vera svo lánsamur að hafa átt þig fyrir föður. Það er og verður alltaf órjúfanlegur kafli í minningu minni allur sá yndislegi tími sem ég átti með þér.

Faðir minn var alla tíð mikill fjölskyldumaður og lagði ríka áherslu á að hlúa vel að fjölskyldu sinni og styðja börnin í leik og starfi. Eftir að ég eignaðist fjölskyldu var alveg sama hvenær við þurftum á barnapössun að halda, hann var alltaf tilbúinn að koma og passa dætur okkar. Faðir minn vann hin ýmsu störf, bæði á sjó og í landi.

Árið 1955 hóf hann störf hjá Siglufjarðarbæ og vann þar í þrjátíu og fjögur ár sem vélamaður. Í frístundum smíðaði hann báta handa sonum sínum og barnabörnum og átti ófá handtökin í garðinum sínum en hann var mikill blómamaður. Þegar við Elín byggðum húsið að Hafnartúni 18 kom faðir minn yfirleitt eftir vinnu og hjálpaði okkur við ýmislegt í byggingunni.

Á heimili foreldra minna kom frænka mín Margrét hinn 2. nóvember 1963. Hún var lömuð og rúmföst og önnuðust þau hana í tæp þrjátíu og sex ár en hún lést fyrir fjórum árum. Fyrir alla þá umönnun sem hann lagði á sig vegna Margrétar vil ég þakka sérstaklega.

Meðan heilsan leyfði fór hann í göngutúra bæði kvölds og morgna. Einn var sá draumur pabba og það var að komast á heimaslóðir í Dýrafirði áður en hann félli frá. Það tókst honum og móður minni að gera fyrir nokkrum árum er Sigríður systir mín og Sveinn maður hennar fóru með þau í nokkra daga vestur. Síðustu þrjú árin hrakaði heilsu föður míns það mikið að hann var af og til á sjúkrahúsinu.

Að lokum vil ég þakka læknum og starfsfólki Sjúkrahúss Siglufjarðar góða umönnun.
Elsku pabbi, farðu í guðs friði.

Þinn sonur, Guðmundur Skarphéðinsson.