Friðfinnur Níelsson útgerðarmaður, vélstjóri

Friðfinnur Níelsson -Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson

Friðfinnur Níelsson - Fæddur 17. febrúar 1904. Dáinn 5. janúar 1974. Þennan dag hefði vinur okkar Friðfinnur orðið 70 ára, ef honum hefði enzt aldur. Hann var fæddur að Kálfsskinni við Eyjafjörð 17. febr. 1904 og ólst þar upp með foreldrum og systkinum. Árið 1929 fluttist hann til Siglufjarðar og stundaði þar sjómennsku á línubát, sem Malmquist Einarsson frá Akureyri rak. 

Þetta sama ár giftist hann mikilli heiðurs- og sæmdarkonu Jóný Þorsteinsdóttir frá Svínárnesi í S-Þingeyjarsýslu.

Þau eignuðust 7 mannvænleg börn, sem þeim hjónum var mjög annt um. 

Konu sína dáði Friðfinnur mjög vegna dugnaðar og allrar hjálpsemi, sem hún sýndi, þegar erfiðleikar við útgerð, sem hann rak ýmist einn eða í félagi við aðra, steðjuðu að. Var útgerð þessi rekin á erfiðum tímum á Siglufirði. Þar þurfti mikið til að ala upp stóran barnahóp á þessum erfiðu tímum svo að vel færi. En öll eru börn Jónu og Finna vel að sér og dugnaðarfólk. 

Aðalsteinn Friðfinnsson skipstjóri, elzti sonur þeirra, fluttist til Grundarfjarðar eftir stríð, og nokkru síðar systur hans og bróðir.

Þá kom að því, að Jóný og Friðfinnur fluttust einnig til Grundarfjarðar ásamt yngstu börnunum. 

Friðfinnur hafði fastmótaðar, pólitískar skoðanir, þótt hann væri ekki flokksbundinn. Það var oft gaman að glettast við Finna. Hann var þá oft stríðinn og gamansamur. 

Glasi var stundum lyft á góðra vina fundi. Þessi fátæklegu kveðjuorð eru aðeins saknaðarkveðja frá tveimur vinum, sem óska honum góðs gengis í nýjum heimi. Jóný og fjölskyldu hans óskum við alls góðs og blessunar guðs. 

Tveir vinir.