Ólafur Ragnarsson bókaútgefandi

Ólafur Ragnarsson - Ljósm., ókunnur

Ólafur Ragnarsson fæddist á Siglufirði 8. september 1944. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 27. mars 2008 eftir að hafa háð baráttu við illvígan sjúkdóm í rúm tvö ár.

Foreldrar hans voru Guðrún Reykdal frá Siglufirði og Þ. Ragnar Jónasson bæjargjaldkeri og fræðimaður frá Eiðsstöðum í Blöndudal, Austur-Húnavatnssýslu. Systkini Ólafs eru

Jónas Ragnarsson ritstjóri, f. 24.2. 1948, og

Edda Ragnarsdóttir, f. 4.10. 1949.

Ólafur kvæntist Elín Bergs 6. júlí 1968. Elín fæddist 11.6. 1949,
foreldrar hennar voru

Lís Eriksen Bergs húsmóðir og Helgi Bergs alþingismaður og bankastjóri.

Börn þeirraÓlafar og Elínar eru

1) Ragnar Helgi Ólafsson myndlistarmaður í Reykjavík, f. 5.10. 1971, kona hans er Margrét Sigurðardóttir kennari. Börn þeirra eru 

Diljá, 

Ólafur Kári og

Una. 

2) Kjartan Örn viðskiptaráðgjafi í New York, f. 25.10. 1972. Hann er kvæntur Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir líffræðingur. Börn þeirra eru 

Valtýr Örn, 

Elín Halla og 

Ólafur Helgi.

Ólafur Ragnarsson útskrifaðist með verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands 1963 og nam síðar gerð sjónvarpsefnis og kvikmynda hjá sjónvarpsstöðvum í Danmörku og Svíþjóð árið 1966 og við Syracuse-háskóla í New York-ríki í Bandaríkjunum 1973.

Ólafur var kennari við Barnaskóla Siglufjarðar skólaárið 1964-1965 en hóf síðan störf sem blaðamaður á Alþýðublaðinu. Hann starfaði sem fréttamaður og dagskrárgerðarmaður hjá Sjónvarpinu í tíu ár, frá stofnun þess 1966. Árið 1976 tók hann við sem ritstjóri dagblaðsins Vísis og gegndi því starfi í fimm ár.

Árið 1981 stofnaði Ólafur ásamt eiginkonu sinni bókaforlagið Vöku. Hann var framkvæmdastjóri þess og síðar (frá 1985) Vöku-Helgafells til ársins 1999. Hann var stjórnarformaður Vöku-Helgafells 1999-2000 og síðar Eddu – miðlunar og útgáfu hf., 2000-2002. Hann hóf aftur afskipti af bókaútgáfu árið 2005 er hann var annar stofnenda bókaforlagsins Veraldar.

Ólafur var mikilvirkur í ýmsum félagsstörfum. Hann sat í stjórn Félags kvikmyndagerðarmanna 1971-1974, var formaður Samstarfsnefndar um reykingavarnir 1973-1976, formaður Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni 1977-1981, sat í stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda 1982-1998 (formaður þess 1995-1998), var formaður stjórnar Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka frá stofnun hans 1985 til 2000 auk þess að vera formaður Bókasambands Íslands frá stofnun þess 1986 til 1992. Ólafur sat í stjórn hollvinafélags Þjóðminjasafnsins, Minja og sögu, frá stofnun þess 1989 og í stjórn Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins frá 1989 til 1993. Hann átti í fimm ár sæti í nefnd Þjóðkirkjunnar til undirbúnings 1000 ára afmælis kristnitöku á Íslandi árið 2000 auk þess að vera formaður Hollvinafélags hugvísindadeildar Háskóla Íslands frá stofnun félagsins 1998 til 2006. Ólafur var aðalræðismaður Hollands á Íslandi 1991-1999.

Ólafur hafði umsjón með gerð sjónvarpsþátta um margvísleg málefni, skrifaði handrit að og stjórnaði fjölda heimildarkvikmynda. Má þar nefna sex þátta sjónvarpsflokk um Íslendinga í Vesturheimi, 1975. Meðal þátta hans fyrir útvarp má nefna 20 þátta röð um íslenska þjóðtrú 1987 og fimm þætti um ferðir sínar um Vestur-Indíur 2003.

Auk þess að koma að útgáfu hundraða bóka og ritverka skrifaði Ólafur og ritstýrði átta bókum. Hann skrifaði samtalsbók við Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra 1981 og ritstýrði og skráði skýringar með efni bókanna Frelsi að leiðarljósi, úrvali úr ræðum Gunnars Thoroddsens, 1982, og greinasafni Halldórs Laxness.

Af menningarástandi, 1986. Ólafur tók saman og ritaði ásamt Valgerði Benediktsdóttur bókina Lífsmyndir skálds sem fjallar um æviferil Halldórs Laxness og var gefin út á níræðisafmæli hans, 1992, auk þess að vera einn þriggja ritstjóra Íslensks þjóðsagnasafns, fimm binda safnverks um íslenskar þjóðsögur, sem út kom árið 2000.

Hann skrifaði bókina Halldór Laxness – Líf í skáldskap, sem gefin var út 2002, þegar öld var liðin frá fæðingu skáldsins og bókina Halldór Laxness – Til fundar við skáldið, sem kom út haustið 2007. Í mars á þessu ári kom út fyrsta ljóðabók Ólafs, Agnarsmá brot úr eilífð. Ólafur er ennfremur höfundur fjölda viðtala og greina í blöðum og tímaritum.

Ólafi hlotnaðist fjöldi viðurkenninga á ferli sínum, þar á meðal Riddarakross Oranje-Nassau-orðunnar hollensku, Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu auk þess að vera Heiðursfélagi Félags íslenskra bókaútgefenda.

Ólafur var jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík
--------------------------------------------------------

Í dag kveðjum við Ólaf Ragnarsson, elskulegan tengdaföður minn, eftir hetjulega baráttu við hræðilegan sjúkdóm. Sjúkdóm sem fyrst rændi hann fallegu röddinni sem hljómaði svo oft bæði í sjónvarpi og útvarpi og seinast tók máttinn úr litla fingri, eina samskiptatækinu sem hann hafði átt mánuðum saman. Þó ekki fyrr en sá litli hafði lokið við að skrifa tvær bækur og gott betur.

Það er lýsandi fyrir skapgerð tengdapabba hvernig hann tókst á við þann sjúkdóm sem hann vissi að engin lækning hefði enn fundist við og sem legði fólk tiltölulega fljótt að velli. Hann var ekki á þeim buxunum að láta veikina valda sér hugarangri heldur leit á hana sem hluta af sínu nýja daglega lífi sem hann reyndi að laga sig að eftir bestu getu. Hann tók hverju sem gekk á af einstöku æðruleysi og leit alltaf jákvæðum augum fram á veginn.

Oftast var það hann sem stappaði stálinu í okkur hin þegar áföllin dundu yfir og minnti á hve dýrmætt lífið er og hve mikilvægt er að fólk njóti þess og fari vel með það. Hann stóð heldur ekki einn í þessu stríði. Tengdamóðir mín var vakin og sofin yfir honum síðustu tvö árin þegar sjúkdómurinn fór að taka sinn toll. Fórnfýsi hennar og kærleikur er aðdáunarverður.

Það er óréttlátt að Óli skyldi vera tekinn frá okkur í blóma lífsins þegar ábyrgð á útgáfurekstri var frá og til stóð að njóta lífsins á nýjan hátt, ferðast, skrifa bækur og fást við annað skemmtilegt. Mér þykir líka ótrúlega sárt að litli nafni hans fái ekki tækifæri til að kynnast afa sínum á sama hátt og hin barnabörnin, fara með honum í göngutúra í Brekkukoti, fleyta kerlingar á Skorradalsvatni og fylgjast með hegrunum á ströndinni í Flórídu. En við munum segja honum frá afa Óla, hvað hann var einstaklega hlýr og þolinmóður, jákvæður og skemmtilegur og hvað hann elskaði barnabörnin sín óendanlega mikið.

Ásta Sóllilja.