Ragnheiður Bachmann

Ragna Bachmann - Ljósmyndari ókunnur

Ragna Bachmann, frá Siglufirði Fædd 13. mars 1906 - Dáin 4. desember 1993

Sól var yfir Hólshyrnu. Sjór svartur af síld, sem breytt var í störf, verðmæti og gjaldeyri. Unnin nótt með degi; á flotanum, á söltunarstöðvunum, í bræðslunum. Allir í önnum í síldarbænum; í kapphlaupi við tímann. 

Ekki var minnstur krafturinn eða þrótturinn í Ragnheiði Bachmann, Rögnu eins og hún var kölluð, sem um langt árabil starfaði á efnarannsóknarstofu Síldarverksmiðja ríkisins í Siglufirði. Atorka hennar var dæmigerð fyrir kaupstaðinn á uppgangsárum hans.

Siglufjörður í önnum síldaráranna. Þannig er staðurinn sannastur í minningu þeirra sem lifðu síldarævintýrið. Ragna Bachmann í annríki þessara ára. Þannig er mynd hennar sönnust í minningu fólksins sem deildi með henni löngu liðnum Siglufjarðarárum.

Ragnheiður Bachmann fæddist í Borgarnesi 13. marz árið 1906 og var því 87 ára að aldri þegar kallið kom.