Kristín Ásta Friðriksdóttir (Stella)

Stella Friðriks - Kristín Ásta Friðriksdóttir - Ljósmynd: Kristfinnur

Kristín Ásta  Friðriksdóttir (Stella Friðriks)  Hún fæddist á Siglufirði hinn 26. júlí 1928. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund hinn 13. ágúst 2008.

Stella var dóttir hjónanna

Friðrik H Guðjónsson útgerðarmaður, f. 9.10. 1901, d. 28.4. 1990, og Ástríður S Guðmundsdóttir húsmóður, f. 12.7. 1900, d. 20.9. 1999.

Systkini Stellu eru

Bragi Friðriksson prestur, f. 15.3. 1927,

Gréta Friðriksdóttir, f. 22.8. 1929,

Steinunn Friðriksdóttir, f. 10.1. 1934,

Gunnur Friðriksdóttir, f. 22.3. 1939, og

Fjóla Friðriksdóttir f. 4.11. 1957.

Stella giftist hinn 31. mars 1974 Friðrik Hafsteinn Sigurðsson vélstjóri, f. 27. apríl 1929, d. 25. júní 1993.

Stella og Hafsteinn áttu engin börn saman, en börn Hafsteins af fyrra hjónabandi eru

Guðbjörg Hulda, f. 26. ágúst 1947, 

Hólmfríður, f. 13. desember 1948, og 

Sigurður, f. 27. ágúst 1951.

Stella bjó á Siglufirði til 1956 en þá flutti hún í Garðabæ og síðar til Reykjavíkur.

Stella lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar og verslunarprófi frá verslunarskóla í Gautaborg árið 1947.

Eftir námið í Svíþjóð starfaði Stella hjá Útvegsbanka Íslands á Siglufirði og síðar hjá Sjúkrasamlagi Siglufjarðar.

Eftir að hún flutti til Reykjavíkur starfaði hún fyrstu árin hjá Flugfélagi Íslands en lengst af starfaði hún hjá Tryggingastofnun.

Útför Stellu fór fram frá Garðakirkju - Jarðsett var í Görðum.

Stella, eins og hún var ætíð kölluð, var seinni kona pabba. Okkur kom ætíð vel saman. Það sem mér þótti stór kostur í fari hennar var hvað hún náði vel til barna og unglinga. Alltaf fjör í kringum þau. Þeim fannst hún svo skemmtileg, hún kunni líka svo vel að hæla þeim. 

Auk þess var hún hrókur alls fagnaðar í veislum og á mannamótum. Þegar árin færðust yfir og veikindi hrjáðu pabba fluttu þau í þjónustuíbúð í Hátúni og eyddu seinustu árunum þar. Stella hjálpaði mörgum þar með skattaskýrslur og fleira, því hún var vel greind og inni í svoleiðis málum. Aldrei þáði hún þóknun fyrir. Svona var Stella boðin og búin að hjálpa ef hún gat. Heilsulaus var hún alla ævi, en ég minnist þess ekki að hafa heyrt hana kvarta.

Mínar síðustu minningar um hana eru frá 80 ára afmæli hennar sem var haldið 26. júlí. Hún var svo hamingjusöm með það og var alltaf að tala um það hvað allir hefðu verið góðir við sig. Já þakklát fyrir það sem aðrir gerðu fyrir hana. Sterkur persónuleiki var hún og kveð ég hana með söknuði.

Guðbjörg Friðriksdóttir (Begga).