Viktor Þór Þorkelsson verslunarmaður

Viktor Þorkelsson

Viktor Þorkelsson fæddist á Siglufirði 18. maí 1946. Hann lést 5. desember 2008. 

Hann var sonur hjónanna Þorkell Benónýsson, f. 15.9. 1920, d. 6.1. 1993, og Margrét Brands Viktorsdóttir, f. 28.9. 1922.

Systkini Viktors eru: 

Kristinn Jón Þorkelsson, f. 2.6. 1941,

Sóley Anna Þorkelsdóttir, f. 6.7. 1943,

Benóný Sigurður Þorkelsson, f. 14.8. 1944,

Sólveig Viktorsdóttir, f. 2.9. 1950,

Þórdís Vik Þorkelsdóttir, f. 22.10. 1952, og

Sigurveig, f. 17.12. 1954.

Viktor Þór var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Guðfinna Ingimarsdóttir. Með henni eignaðist hann soninn   -- Þau slitu samvistir. 

Ingimar Viktorsson, f. 29.1. 1971. Ingimar er kvæntur  Ingunn Rafnsdóttir, og börn þeirra eru

Rafn Haraldur Ingimarsson og

Elísabet Sif Ingimarsson. 

Frá fyrra hjónabandi á Ingimar dótturina

Bylgja Ösp Ingimarsdóttir.

Seinni kona Viktors Þórs var Helen Svavarsdóttir. Með henni eignaðist hann þrjú börn:

Svavar Viktorsson, f. 8.3. 1979,

Margrét Brand Viktorsdóttir, f. 12.6. 1981, og 

Viktor Þór, f. 30.12. 1992.

Viktor og Helen slitu samvistir. Viktor Þór ólst upp á Siglufirði þar sem hann lauk hefðbundinni skólagöngu.

Hann vann ýmis störf en lengst af vann hann hjá Olíufélaginu hf., síðar N1.

Útförin fór fram frá Laugarneskirkju.
-------------------------------------------------------- 

Það var mér mikið áfall að heyra að Viddi frændi væri látinn, langt fyrir aldur fram. Viddi, sem var svo hress, kátur og sprækur, og alltaf til í að sprella og stríða litlu frænku sinni. Viddi frændi sem ég hitti síðast í sumar svo vel útlítandi að vanda og hlæjandi að bröndurunum mínum eins og hans var von og vísa.

Á svona stundum er erfitt að átta sig á lífinu og tilverunni, og finna einhverja réttlætingu í því að maður á besta aldri sé tekinn frá börnunum sínum sem hann dýrkaði og dáði. Þegar fram líða stundir munu þau, sem og við hin, geta yljað sér við ótal margar góðar minningar um frábæran mann. Ósjaldan hefur verið sögð sagan af því þegar hann gerði mig að gallharðasta krata sem sögur fara af, og það fyrir sex ára aldurinn.

Án vitundar foreldra minna hafði hann, með hinum mikla sannfæringarkrafti sínum, talið mig á það að það væri eina vitið. Þetta fékk mig til þess að ganga út um allt með kratarósina, halda kratafundi og ganga með kratabarmmerki til lengri tíma. Sú saga verður eflaust sögð ennþá oftar í framtíðinni, sem og aðrar kostulegar sögur af uppátækjum Vidda.

Elsku Ingimar, Svavar, Magga og Viktor Þór, Guð gefi ykkur styrk til að takast á við þessa miklu sorg, minningin um frábæran mann mun vísa ykkur leiðina fram á við.

Ykkar frænka, 

Sólveig Margrét Karlsdóttir (Solla Magga).
-------------------------------------------------------------- 

Skyndilega og óvænt er tekinn frá okkur góður vinur, Viktor Þorkelsson. Við bræðurnir viljum minnast hans saman með örfáum orðum fyrir hönd fjölskyldunnar í Straumfjarðartungu. Við berum þá von í brjósti að geta þannig og með öðrum stuðningi létt undir með börnunum hans en þrjú þeirra bjuggu hjá pabba sínum í Mosfellsbænum. Þau urðu vitni að því þegar þessi glaðværi og hláturmildi maður var hrifinn á brott. Harmur þeirra er mikill.

Símtalið sem ég fékk aðfaranótt föstudagsins 5. desember var mér mikið áfall. Svavar hringdi í mig og sagði mér lát pabba síns. Hann bað mig um að koma og vera hjá þeim systkinum um nóttina. Ótrúlega margar hugsanir og minningar flugu í gegnum huga mér á þessari stuttu leið úr Grafarvoginum upp í Mosfellsbæinn til Svavars, Margrétar og Viktors Þórs. Auðvitað vildi ég ekki trúa þessu og óskaði þess að ég vaknaði af þessum vonda draumi sem ég vonaði að ég væri í.

Ég og fjölskylda mín frá Straumfjarðartungu kynntumst Viktori fyrst fyrir rúmlega 20 árum þegar hann fluttist ásamt fjölskyldu sinni að Vegamótum á Snæfellsnesi og tók við rekstri útibús Kaupfélagsins þar. Þá strax mynduðust traust vinabönd. Ég vann meðal annars hjá Viktori á sumrin og með skóla á árunum 1990-1992. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í góðu sambandi við fjölskylduna alla tíð síðan. Gleðistundirnar eru margar og fyrir þær er ég þakklátur.

Þegar Viktors er minnst koma helst upp í hugann orð eins og glettni, traust og gjafmildi. Það var alltaf stutt í hláturinn hjá Viktori. Hann var glettinn og jafnvel stríðinn, en alltaf traustur. Alltaf góðviljaður. Það var alveg sama hvað bjátaði á. Alltaf var Viktor mættur til að hjálpa. Stundum nægði bara að heyra hann hlæja þá voru hlutirnir í lagi.

Eftir stendur minning um góðan dreng og þakklæti fyrir að fá að vera samferða Viktori Þorkelssyni í rúm 20 ár. (BI)

Góð vinátta Viktors og föður okkar er fjölskyldu okkar ofarlega í huga á þessum tímamótum. Svipuð hugsun gæti hafa flogið um huga okkar systkinanna frá Straumfjarðartungu, og reyndar móður okkar líka, þegar við fréttum andlát Viktors: Nú hittast þeir aftur, vinirnir. Báðir munu gleðjast yfir þeim endurfundum. Nú verður gantast að nýju. Hláturinn þagnar ekki. Gleðin deyr ekki.

Þeir voru góðir vinir, Viktor og faðir okkar, Ingólfur Pálsson frá Straumfjarðartungu. Sú vinátta náði reyndar til margra í fjölskyldum beggja. En eins og þeir gleðjast áreiðanlega yfir endurfundunum, gömlu vinirnir, er víst að það er sárt að fara svo snögglega frá börnunum sínum eins og raunin varð með Viktor. Eins og honum hefur áreiðanlega verið fagnað á nýjum stað er hans sárt saknað af þeim sem eftir standa. (HI)

Engin orð fá lýst þeim harmi sem börn Viktors hafa orðið fyrir við fráfall hans. Það er heldur ekki auðvelt að koma í orð þeirri samúð og þeim hlýhug sem maður vill koma til skila á svona stundu. Við sendum þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd fjölskyldunnar frá Straumfjarðartungu, 

Baldur Ingólfsson og Haraldur Ingólfsson.