Kristján Ægir Jónsson

Ægir Jónsson

Ægir Jónsson ­ Fæddur 4. maí 1921 - Dáinn 15. desember 1993  

Það er undarlegt þetta líf. Maður fæðist, er borinn á höndum foreldra sinna til vits og þroska, flýgur loks úr hreiðrinu og stofnar heimili, oft víðsfjarri átthögunum og allt snýst um að hafa í sig og á. Foreldrarnir sitja einir eftir og reynt er að halda sambandi eftir bestu getu. En tíminn líður. Og líður. Og líður. 

Og svo allt í einu áttar maður sig. Faðir og móðir eru orðin gömul og aldrei var það endurgoldið, sem gefið var forðum: ástin, hlýjan, öryggið, verndin, fjárhagslegi stuðningurinn. Og skyndilega er það orðið um seinan. 

Þetta er sárt. Skelfing er maður nú heimskur. Verðmætamatið brenglað. Því maður á bara eina foreldra í þessum heimi og þeir eru ekki eilífir. Það ætti að vera hverjum sæmilega glöggum manni augljóst. En hvers vegna opnuðust þá augun ekki fyrr? 

Og þegar svo váfréttin berst og nær til heilans og staðreyndin er ljós, verður allt svo tómt og kalt. Jörðin hættir að snúast, maður hættir að anda. Getur þetta verið? Heyrði ég rétt?

Eftir að hafa skynjað raunveruleika atburðarins koma minningarnar eins og svipleiftur. Ein af annarri. Þær verma; sannarlega. En ekki nóg. Maður þráir eitthvað meira, snertingu, bros, faðmlag. Því minningarnar vekja upp söknuðinn eftir því sem var, en er nú horfið. En það er ekkert slíkt að fá lengur.

Það er um seinan. Allt er búið. Án þess að maður geti hreyft mótmælum, eða að minnsta kosti beðið um grið, nokkurra daga frest, stunda eða mínútna. Til að kveðja. það er svo ótal margt, sem átti eftir að segja og gera. Þetta er óréttlátt. En svona er nú lífsins gangur. Og það átti maður að vita. 

Mig langar í fáeinum orðum að minnast föður míns, Kristjáns Ægis Jónssonar, sem varð bráðkvaddur á heimili sínu, Túngötu 36, Siglufirði, hinn 15. desember síðastliðinn.

Hann fæddist að Stóra-Grindli í Fljótum í Skagafirði hinn 4. maí árið 1921.

Foreldrar voru þau hjónin 

Stefanía Guðrún Stefánsdóttir húsmóðir frá Grafargerði í Siglufirði og Jón Kristjánsson vélstjóri frá Syðstamó í Fljótum í Skagafirði, jafnan þó kenndur við Lambanes.

Um þær mundir sem Ægir kemur í þennan heim flytjast þau hjónin, Stefanía og Jón, að Minna-Grindli og elst hann þar upp til þriggja ára aldurs. Árið 1924 flyst hann til Siglufjarðar með foreldrum sínum og öðrum fjölskyldumeðlimum - en börn þeirra Stefaníu og Jóns urðu alls 10 - og á heima þar að heita má upp frá því.

Jón Kristjánsson missti konu sína árið 1936 og giftist aftur síðar Anna Sigmundsdóttir og eignaðist með henni þrjú börn.

Sextán ára gamall, eða árið 1937, ræðst Ægir til sjós, fyrst sem háseti. Síðar er hann vélstjóri á hinum ýmsu skipum fram eftir aldri, eins og t.d. Ingvari Guðjónssyni og Æskunni. Eftir að hann er alkominn í land, starfar hann á vélaverkstæðum til fjölda ára, bæði á Siglufirði og á Akureyri. Og einnig hjá Egils-síld á Siglufirði. Hin síðari ár vann hann í áhaldahúsi Siglufjarðarbæjar, uns hann varð að hætta sökum veikinda árið 1987.

Allra síðustu æviárin bjó hann við erfiða heilsu, átti við kransæðasjúkdóm að etja, er svo lagði hann að velli nú fyrir skemmstu, eins og áður var nefnt. 

Hann faðir minn (Ægir) var afar sérstakur maður: harður, en þó jafnframt ljúfur; eins og klettur í hafi, en á sama tíma brothættur, líkt og skurn; hrjúfur á yfirborðinu, en þó blíður innst inni; dulur, en þó öðrum kátari, ef svo bar undir. Hann var ekki sú manngerð sem ber á torg það sem á bjátar, kveinkaði sér aldrei, þótt oft píndu hann miklir verkir, tilkomnir af sjúkdómnum áðurnefnda. Hann tók því eins og hverju öðru, með jafnaðargeði, já, æðruleysi. 

Hann var af öllum talinn þúsundþjalasmiður, jafn hagur á járn og tré, músíkalskur, lék á harmonikku, samdi meira að segja lög.

Eitt þeirra komst á hljómplötu, ekki flókin melódía, en geysifögur í einfaldleik sínum og hreinleika. Og ég gæti talið áfram, en segi ekki meir. Því sá gamli hefði ekki viljað neina slíka upptalningu.

Hann var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Engilgerður Sæmundsdóttir, nú látin. Þau eignuðust saman einn dreng, 

Ríkharð Sæmund Kristjánsson, sem er rennismíðameistari og vélstjóri í Reykjavík; eiginkona hans er Brynhildur Þorsteinsdóttir; og eiga þau tvær dætur.

Seinni eiginkona Ægis og eftirlifandi er Þóra Frímannsdóttir, ættuð úr Grímsey. Þau eignuðust saman fimm drengi. Elstur er 

1) Gylfi Ægisson, fv. sjómaður og lagasmiður, Hafnarfirði; sambýliskona hans er Þóra Steindórsdóttir. Þau eru barnlaus saman, en Gylfi á fjögur börn. 

Næst elstur er

2) Lýður Ægisson, fyrrverandi skipstjóri og lagasmiður, Kópavogi; eiginkona hans er Rannveig Kristjánsdóttir. Þau eru barnlaus saman, en Lýður á fjóra syni af fyrra hjónabandi. 

Þriðji í röðinni er 

3) Jón Ægisson, fv. sjómaður, Hveragerði; ógiftur og barnlaus. 

Fjórði ég sjálfur, 

4) Sigurður Ægisson, prestur í Noregi; eiginkona mín er Sigurbjörg Ingvadóttir, og eigum við þrjú börn. 

Og yngstur er svo

5) Matthías Ægisson, skrifstofumaður í Reykjavík; eiginkona hans er Hanna Ólafsdóttir. Þau eiga tvö börn.

Af fyrra hjónabandi átti Þóra tvo drengi, Frímann Ingimundarson, rennismíðameistara í Reykjavík, og

Þorstein Ingimundarson, fyrrverandi sjómann, er lést af slysförum 19 ára gamall, og eina stúlku,

Ríkey Ingimundardóttir, listmálari og myndhöggvari í Reykjavík.

Og nú er þessi púlsmaður, sem aldrei varð ríkur af veraldlegum auði, Kristján Ægir Jónsson, horfinn á braut, 72 ára gamall; farinn þann veg, sem við öll munum eitt sinn ganga, einhvern tímann. Ég kveð hann með virðingu og þökk fyrir allt, en skammast mín jafnframt fyrir það, hversu lítið ég gerði fyrir hann, þegar ég átti að geta miklu betur.

Ég nefndi hér í upphafi að það væri svo óréttlátt að hafa ekki fengið tækifæri, já, örlitla stund, til að kveðja. Svona er maður nú eigingjarn. En í raun fór þetta eins og gamli maðurinn hafði alltaf kosið að það yrði, þegar að úrslitastundinni kæmi.

Heima í stofu, þar sem hann jafnan dvaldist, ef hann vildi slappa af og horfa á fréttatíma sjónvarpsstöðvanna, eða annað afþreyingarefni. Einn, tveir, þrír. Búið. Engin lömun, með tilheyrandi sjúkravist, liggjandi ósjálfbjarga, eins og ómálga barn, eða annað slíkt. Ég hlýt að samgleðjast honum vegna þess að hann fékk þá ósk sína uppfyllta. En ég sakna hans mikið.

Einn daginn munu ástvinir hittast á ný, í öðrum heimi. Maður huggar sig við það. 

Sigurður Ægisson.