JÓNAS ÞÓRARINN ÁSGEIRSSON FRÁ SIGLUFIRÐI

Við barnabörnin viljum skrifa nokkur minningarorð um góðan afa og mann sem við fengum að njóta í mislangan tíma. Litli nafni hans sem aðeins er tæpra þriggja ára var lítill sólargeisli í lífi afa. Þeir voru nánir þrátt fyrir stutt kynni. Við systurnar höfum átt lengri samverustundir með honum og höfum margs að minnast. 

Okkur þremur þótti óumræðulega vænt um afa okkar. Hann var svo skemmtilegur og litríkur persónuleiki, aukin heldur var hann góður vinur okkar. Það var alltaf gleði og léttleiki í kringum hann því þannig vildi hann hafa það. Hann Jónas afi var ekki fyrir lofræður um sjálfan sig og var snillingur í að gera grín að sjálfum sér og sjá spaugilegu hliðarnar á hlutum sem upp komu. Við gætum, þess vegna, skrifað heila bók bara um brandarana hans og ef hann sjálfur mætti ráða yrði þessi minningargrein að hans skapi ef hún væri í léttum dúr þannig að við mættum brosa og helst skellihlæja. 

Sumar sögur sagði afi okkur aftur og aftur í gegnum árin og alltaf gátum við hlegið að þeim. Hann hafði líka sérstaka tilburði í frammi. Þeim fylgdu miklar handsveiflur og eins og allir sögumenn kunni hann að bæta frásögnina með skemmtilegum ýkjum. Fastur liður var að hefja og ljúka frásögn með yfirlýsingu um að um sanna sögu væri að ræða. Við góðar undirtektir magnaðist hann allur og á eftir fylgdu fleiri sögur. Úr varð oft mikill spuni og skemmtan fyrir okkur í fjölskyldunni. 

Eitt okkar bjó úti á landsbyggðinni um tíma og þurfti fólk að fara nokkuð langa leið til að komast í sundlaug. Afi kom í heimsókn og vildi gjarnan gleðja dótturdóttur sína með sundferð. Tilhlökkunin var mikil og miklar umræður um sund komnar af stað. Þegar komið var á áfangastað vildi ekki betur til en að sama sem ekkert vatn var í lauginni. Afi hugsaði um það eitt að barnabarnið yrði ekki fyrir vonbrigðum og fór í sund með þeirri stuttu og lét eins og laugin væri full af vatni.

Hann lét vatnsskortinn ekki aftra sér heldur gerði úr mikla skemmtan. Þessi sundlaugarferð er sú eftirminnilegasta laugarferð sem þessi fyrrnefnda hnáta hefur farið á sínum yngri árum. Þennan atburð kunni afi að nota og bjó til lifandi frásögn sem enn er í minnum höfð innan fjölskyldunnar. Hann sá alltaf spaugilegu hliðarnar á öllum málum og naut þess líka í ríkum mæli að koma okkur til að hlæja með því að skrýða hversdagsleikann fyndni og skemmtilegum frásögnum. 

Afi var alltaf tilbúinn að gera allt sem hann gat fyrir okkur og bar hag okkar fyrir brjósti. Við vissum alltaf að hann fylgdist með okkur og hafði áhuga á því sem við gerðum. Ef einhverjir dagar liðu og við höfðum ekki haft samband hringdi hann og spurði hvort allt væri í lagi. Hann hefði sennilega viljað hafa lengri tíma til að fylgjast með nafna sínum en við vitum að hann gerir það þótt á annan hátt sé. Við tvær sem eldri erum munum vera ósparar á að fræða hann um þann góða og skemmtilega afa sem við fengum tækifæri á að kynnast svo vel. Við munum reyna að viðhalda sögunum sem hann bjó til og komu sannarlega frá hjartanu. Þær munu lifa með okkur í minningunni. 

Skíði áttu mikinn þátt í lífi afa okkar og sá hann um að við lærðum plóginn og á gönguskíði og nafni hans var varla farinn að standa í fæturna þegar skíðakennslan byrjaði frammi á gangi, allt í rólegheitum, mikilvægt var að spara asann og gefa sér frekar meiri tíma í lærdóminn. Hann var góður kennari og sparaði okkur ekki hólið hvort sem það var um að ræða skíðakunnáttu okkar eða einfaldlega það annað sem við tókum okkur fyrir hendur. 

Viðmótið sem maður fékk frá honum og sem hann sýndi börnum sérstaklega, var einstaklega hlýtt. Það er börnum svo mikils virði þegar fullorðnir sýna þeim virðingu og athygli sem væru þau sjálf fullvaxin og þessa viðhorfs nutum við í ríkum mæli. Slík framkoma ætti að vera öllum sjálfsögð. 

Við systur erum mjög þakklátar fyrir að fá að eyða dýrmætum stundum með honum síðustu mánuðina í lífi hans og fyrir að hafa fengið að hjúkra honum þegar hann var sem veikastur. Það var okkur einkar ljúf skylda. Nú orðið er það fágæt reynsla að fá að vera með ættmennum síðustu andartök í lífi þeirra. 

Kynnin við þig hafa að stóru leyti gert okkur að þeim manneskjum sem við erum í dag og með þessum orðum viljum við kveðja þig, elsku afi: 

  • Öll list er tileinkuð gleðinni, 
  • og ekki er til neitt háleitara eða 
  • brýnna ætlunarverk 
  • en að fjörga mannkynið. 

(Friedrich Schiller.)

Margrét, Fanney og Jónas Ásgeir.