Ingibjörg Jónsdóttir kaupmaður Siglufirði

Ingibjörg Jónsdóttir kaupmaður - Ljósmynd: Kristfinnur

8. apríl 1999 | Minningargreinar

Ingibjörg Jónsdóttir Í dag kveðjum við Ingibjörgu Jónsdóttur frænku okkar, 83 ára að aldri, en hún var sú eina sem eftir lifði af hinum dugmiklu systkinum frá Ljótsstöðum í Skagafirði.

Foreldrar hennar voru; Jón Björnsson, Jónssonar, bónda í Gröf á Höfðaströnd og k.h. Hólmfríðar Jónatansdóttur ljósmóður og Pálína Guðrún Pálsdóttir, Sigmundssonar, bónda á Ljótsstöðum og k.h. Margrétar Þorláksdóttur frá Vöglum á Þelamörk.

Til fróðleiks má geta þess að langafi Ingibjargar, Sigmundur Pálsson, fór til náms í Bessastaðaskóla árið 1844 og var kominn fast að stúdentsprófi en lauk því ekki vegna skólaóeirðanna, "pereatsins", árið 1850. Sigmundur Pálsson, sem stundaði síðar verslunarstörf i Grafarósi ásamt búskap á Ljótsstöðum, var merkur maður og héraðskunnur. Auk greina um skólaóeirðirnar í tíð Sveinbjarnar Egilssonar hélt hann úti handskrifuðu blaði, "Vísi", sem var sent út um sveitina.

Okkur er það minnisstætt þegar við ungar að aldri fluttumst ásamt foreldrum okkar til Siglufjarðar vorið 1935. Við komum úr afskekktri sveit og bæjarlífið á Siglufirði, þar sem við þekktum fáa, kom okkur nokkuð á óvart. En við áttum hauk í horni. Foreldrar Ingibjargar, Pálína móðursystir okkar og maður hennar, höfðu brugðið búi árinu áður og flutt frá Ljótsstöðum til Siglufjarðar með fimm börn sín. Pálína, sem var tíu árum eldri en Siríður móðir okkar, var himinlifandi yfir því að fá einkasystur sína í nágrenni við sig. Öldruð móðuramma okkar, Guðrún Friðriksdóttir, dvaldi hjá Pálínu til dauðadags, svo að ferðir okkar til þeirra urðu tíðar.

Jón Björnsson, sem var lærður smiður og hafði ásamt búskap séð um byggingar á húsum og mannvirkjum í Skagafirði, byggði vandað tvílyft steinhús yfir fjölskyldu sína við Hvanneyrarbraut 6 á Siglufirði og nefndi það Ljótsstaði. Þau hjón og systkinin öll voru síðan kennd við það nafn.

Við andlát Ingibjargar rifjast upp fyrir okkur hvað hún og Gígja systir hennar, sem báðar stofnuðu heimili á Siglufirði, voru elskulegar við okkur og móður okkar og ávallt boðnar og búnar að leggja okkur lið ef þess þurfti með.

Til Pálínu á Ljótsstöðum gátum við komið og fengið aðstoð við námið, bæði ensku og dönsku. Hún hafði dvalið nokkur ár í Danmörku hjá skyldfólki og þaðan sigldi hún til Ameríku, þar sem tvær móðursystur hennar ráku umfangsmikla hannyrða- og kjólasaumastofu í New York.

Ingibjörg var kát og létt í lund, myndarleg húsmóðir og höfðingi heim að sækja. Hún var dugnaðarforkur til allrar vinnu, ákveðin kona sem sagði sína meiningu hispurslaust án þess skafa utan af því. Hún var vinur vina sinna og lét sér annt um alla sem þau hjónin umgengust.

Hún stofnaði verslunina Túngötu 1 á Siglufirði og rak hana á neðri hæð hússins sem þau bjuggu í.

Þorgrímur Brynjólfsson maður hennar, sem stundaði fisksölu á Siglufirði ásamt ýmsum öðrum störfum, studdi hana með ráðum og dáð í verslunarrekstrinum.

Synir þeirra, Reynir og Víðir, fæddust báðir á Siglufirði. Árið 1957 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur og nokkru síðar stofnuðu þau Tösku- og hanskabúðina hf. sem þau ráku með miklum myndarbrag á meðan heilsa þeirra leyfði.

Ingibjörg var stolt og ánægð með fjölskyldu sína og lét einhverju sinni þau orð falla að tengdadæturnar gætu ekki verið betri þótt hún hefði valið þær sjálf.

Við þökkum Ingibjörgu frænku okkar fyrir ástúð og elskusemi við okkur á liðnum árum og sendum fjölskyldu hennar innilegar kveðjur.

Margrét, Ástrún og Gyða Jóhannsdætur.
------------------------------------------------  

Ingibjörg Jónsdóttir

"Það tekur tryggðinni í skóvarp sem tröllum er ekki vætt." (Örn Arnarson)

Ingibjörg Jónsdóttir "Það tekur tryggðinni í skóvarp sem tröllum er ekki vætt." (Örn Arnarson) Ljótsstaðasystkinin eru öll horfin af sviðinu. Síðast þeirra kvaddi Ingibjörg og var þó næstelst. Ég man hana nánast frá því ég fyrst man eftir mér. Það var nokkru áður en foreldrar hennar fluttu frá Ljótsstöðum á Höfðaströnd til Siglufjarðar árið 1934.

Hún var þá innan við tvítugt, ég þriggja eða fjögurra ára. Mér er enn í minni að mér þótti hún falleg. Sjálfsagt hefur hún vikið einhverju góðu að drengstaulanum; það væri raunar í samræmi við lífsviðhorf hennar eins og ég kynntist þeim fullorðinn. Kaupkona var hún og duglegur verslunarmaður enda blómguðust fyrirtæki hennar og eiginmanns hennar, fyrst á Siglufirði, síðan í Reykjavík.

Hún var þrekmikil og lífsglöð, naut samvista við fólk og lét Elli kerlingu aldrei koma sér á kné þó að á síðari árum væri heilsan ekki alltaf eins og best varð á kosið. Kjarkur og glaðlyndi voru svo gildir þættir í persónuleikanum að jafnvel nærvera hennar ein gat blásið hugdeigum kappi í kinn. En umfram allt var hún heilsteypt, sterk og framar öðru vinhlý kona. Foreldrar hennar, Jón Björnsson og Pálína Pálsdóttir, voru einstakt öndvegisfólk.

Börnin þeirra fimm, sem á legg komust, voru öll dugmikil, atorkusöm og myndarleg. Það var raunar í samræmi við jarðveginn sem þau voru sprottin úr að Davíð Sigmundur gaf Menntaskólanum í Reykjavík fasteign mikla við þingholtsstræti til minningar um eiginkonu sína, líklega stærstu gjöf sem einstaklingur hefur gefið menntastofnun á Íslandi. Og Ingibjörgu var ekki síður vel í ætt skotið en honum.

Hún var mikill og traustur vinur vina sinna og sá ekki í kostnað ef hún sá færi á að gera þeim greiða eða gleðja þá. Okkur systkinum er í minni tryggð hennar við foreldra okkar en þar var um gamalgróna vináttu að ræða sem þeim varð kærari og mikilvægari en áður er árin færðust yfir og vík varð milli vina. Ég hygg að Ingibjörg Jónsdóttir hafi talið sig gæfumanneskju. Hún eignaðist ágætan mann.

Synir þeirra tveir reyndust hinir bestu drengir. Þeim hjónum tókst að byggja upp prýðilegt fyrirtæki. Og henni auðnaðist, þegar starfsþrek hennar þvarr, að sjá það vel rekið í höndum sonar þeirra. Ingibjörg Jónsdóttir lést í miðri dymbilviku. Um leið og við Björg minnumst hennar með virðingu og þökk og flytjum ástvinum hennar öllum samúðarkveðjur rifjum við upp lokalínur Heimsljóss þar sem skáldið gengur á jökulinn að morgni páskadags: "Bráðum skín sól upprisudagsins yfir hinar björtu leiðir þar sem hún bíður skálds síns. Og fegurðin mun ríkja ein."
Ólafur Haukur Árnason.